Það jafnast ekkert á við djass..... eða hvað??

Er farin að upplifa mig sem heimavinnandi húsmóður, eða a.m.k. heimavinnandi.  Gamla Gufan hljómar í bakgrunninum er ég sit við tölvuna með kaffi í bolla og á eldavélinni mallar slátur sem á að étast í hádeginu. 

Reyndar hefur Rás 1 verið aðeins of djassmiðuð síðastliðna daga.  Kveður svo rammt að djassinum að ég hef neyðst til að loka fyrir útvarpið á stundum.  Ég nefnilega hreinlega höndla ekki djass.  Einasta eina tónlistin sem ég bara get ekki að hlustað á nema í mjög takmörkuðum mæli.  Það er bara einhver glamrandi í þessu sem fer alveg í mínar fínustu taugar.  Má ég þá heldur biðja um meira af gömlu góðu dægurlögunum sem hljómuðu hér í morgun en þá mátti heyra hljóma perlur s.s. "Ég er komin heim" með Óðni Valdimarssyni eða "Rökkurró" með Helenu Eyjólfs.  Það er svolítið meira fyrir minn smekk.

Dagskráin stendur þó til bóta en nú fer bráðum að hefjast hin stórgóði þáttur "Samfélagið í nærmynd" og svo náttúrulega er alltaf ákveðin stemning að heyra dánarfregnirnar svona meðan maður er að melta hádegismatinn.

Mögulega er ég bara svona hryllilega gamaldags en það verður þá bara að hafa það.   Kontrabassi, trommur, brass, píanó og rámur tenórsax,  fellur ekki í kramið en þó má segja að það jafnist ekkert á við djass.  A.m.k. hvað leiðindi varðar Cool

nóg í bili.

GEH

 


Hestafréttir

Jæja.  Þá er þessi dagur á enda runninn og þetta er, skal ég segja ykkur, búin að vera verulega langur dagur.  Að því tilefni opnaði ég flösku af fyrstu lögun rabbabaravíns en því miður átti ég ekki bjór. 

Meðal viðburða dagsins er að við Litli-Rauður höfum nú lagt okkar fyrstu töltkeppni að baki.   Engin flugeldasýning af okkar hálfu en allt gekk þetta þó stóráfallalaust fyrir sig og líklega var engin glaðari en Litli-Rauður þegar hann fékk að fara aftur í stíuna sína að lokinni keppni.  Litli-Rauður er nefnilega talsverður nautnaseggur og er lunkinn að verða sér úti um þjónustu.  Sníkir köggla af gestum og gangandi og einhverra hluta vegna þá standast fáir Rauðsa og hann á því marga bestu vini sem gauka að honum köggul við tækifæri.  

Vegna anna dagsins hafði ég ekki haft mikinn tíma til að undirbúa keppni s.s. að þrífa Rauðsa en hann hafði náð að maka sig duglega út í drullu við útivist gærdagsins, einnig hengu á honum nokkrir gamlir, en þaulsætnir, skítakleprar sem ekki hafði unnist á.  Það kom mér því verulega á óvart að þegar ég mætti 17:50 upp í hesthús (keppni átti að hefjast klukkan 18:00) beið mín tandurhreinn og nýkembdur Litli-Rauður í stíunni sinni.  Rannsókn málsins leiddi í ljós að Jón litli hafði tekið Rauðsa í yfirhalningu og kunni frænka hans honum bestu þakkir fyrir tiltækið enda sást hvorki blettur né hrukka á Rauð þegar við geystumst inn á völlinn.  

Eins og áður sagði var þetta enginn flugeldasýning að okkar hálfu.  Líklegt má teljast að kennari vor hefði viljað sjá meiri keyrslu og án efa hefði kennari vor haft rétt fyrir sér.   Af öðrum hrossum er það helst að frétt að Litla-Jörp situr svolítið á hakanum þegar ekki er tími fyrir önnur hross.  Hún hefur hins vegar tekið miklum framförum hvað varðar stressstuðul í reiðhöllinni og stendur sig að sjálfsögðu eins og hetja sem aðstoðarhross við tamningar á Stóra-Brún

Stóri-Brúnn er að verða svolítið uppáhald.  Sýndi hetjulega yfirvegun  í morgun innan um þeysireið Reynis og sonar og lærið brokk-stökk gangskipti samkvæmt skipunni "hobb" einn tveir og bingó.  Það eina sem raskaði ró hans var þegar Helgi geystist um með skúringamoppuna um áhorfendapallana, en hverjum hefði svo sem ekki brugðið svolítið við það. 

Þá held ég að við látum þessum hestafréttum lokið í bili. 

GEH


Sjálfspróf

Það er gaman að sjá að einhverjir sakna mín af fésbókinni.  Ég get hughreyst ykkur með því að ég mun snúa aftur von bráðar.  Það er bara einhvernvegin þannig að stundum fæ þá flugu í höfuðið að ég þurfi að sanna fyrir sjálfri mér að það eina sem ég þurfi að gera sé að ákveða að gera eitthvað og framkvæma það svo.  Þetta fésbókarbindindi er einmitt þannig.  Einu sinni prjónaði ég heila flík á nokkrum dögum bara til að sanna að ég gæti vel prjónað ef ég bara vildi.  Flíkin var vel nothæf og á enn sinn sess í fataskápnum.  Ég hef hins vegar ekki prjónað neitt vitrænt síðan þá, enda búin að sýna það og sanna að ef ég þarf þá get ég.

Annars er allt fremur meinhægt.  Lítið unnist í verkefni það sem af er þessarar viku og dagarnir farið í undirbúning fyrir fund morgundagsins.  Af því tilefni sit ég hér með nokkrar spennandi fræðigreinar fyrir framan mig.  Sjónvarpið er meðvirkt í þessu og sér til þess að ekkert freisti mín á skjánum en þar rúllar nú svarthvít teiknimynd um unga vísindakonu sem rænt er í París einhvern tíman í framtíðinni.  Mögulega endar þetta með því að ég láti verða af áformum mínum um að setja sjónvarpið í geymsluna.  Ég hef nefnilega oft íhugað að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti vel lifað sjónvarpslaus.  Mögulega læt ég sjónvarpið flakka þegar ég logga mig aftur inn á fésið

Yfir og út í bili

GEH 


Nú verða sagðar fréttir......

..... Í fréttum er þetta helst.  Tiger Woods undirbýr "comback" í golfið.  Spennandi!   Skokkari í Suður-Karólínu varð fyrir flugvél.......  Kate Winslet er að skilja við manninn sinn (sem ég hef aldrei heyrt á minnst)......   Menningarmálaráðherra frakka sæmdi leikkonu eina orðu og tókst það ekki betur til en svo að hann stakk hana í brjóstið.....OOOOGGGG!!!!!!!  Páll Óskar á afmæli í dag. 

Já góðir hálsar!  Það er í dag sem hlutirnir gerast.  Enda datt Chelsea út úr meistaradeildinni í kvöld og því er við hæfi að hrópa ferfalt húrra fyrir því!

Þar til síðar

GEH

 


Vor

Á einu augabragði er komin 15. mars og það er ekki laust við að maður sé farin að trúa því að vorið sé handan við hornið.  A.m.k. þá brast hér á með talsverðir blíðu um helgina og var hún að sjálfsögðu notuð til útreiða og annarskonar útivistar.  Gleði mín yfir komu vorsins er þó að venju nokkuð læviblandin enda ekki tóm hamingja sem fylgir hækkandi sól og hlýnandi veðurfari.  Háreystin í krakkaskrílnum sem göslaðist úti í vorinu og fréttir um nývaknaðar geitungadrottningar sem gerðu sig heimakomnar í rúmum grunlausra húsmæðra á höfuðborgarsvæðinu minntu mann óneytanlega á það að með vorinu vakna skordýr til lífsins og útivistartími barna lengist.  Hvort tveggja fremur ógnvekjandi í augum einstaklings sem haldin er krónískri skordýra og barnafælni.

Annars ber hér, að venju, heldur fátt til tíðinda.  Þó er vert að greina frá því að farið var í menningarferð til höfuðborgarinnar með það að markmiði að heimsækja kvikmyndahús.  Einhvers staðar í höfðinu lifir óljós minning um þá daga þegar maður skrapp í bíó, rétt si svona, þegar manni datt í hug en það var nú í þá gömlu góðu daga þegar maður bjó innan við 50 km frá næsta kvikmyndahúsi.  

Slegnar voru nokkrar flugur í einu höggi og farið út að borða í leiðinni svo þetta varð sannkölluð menningarferð.  Avatar reyndist einnig vera ferðarinnar virði a.m.k. fyrir Sci-Fi nörda eins og mig þó svo að ég hafi nú ekki orðið svo djúpt snortin af plánetunni Pandoru og íbúum hennar að ég sjái ástæðu til að leggjast í þunglyndi yfir gráum hversdagsleikanum eða mála mig bláa og endursviðsetja ævintýrið, líkt og ku vera gert úti í hinum stóra heimi.

Í þessum orðum skrifuðum er klukkan hins vegar farin að ganga eitt og því tímabært að skríða í bælið

Segi því yfir og út að sinni

GEH

 

P.S.  Í ljósi þrálátra ásakana um brot á fésbókarbindindi tel ég rétt að lýsa yfir sakleysi mínu á þeim verknaði.  Þetta er allt saman haugalygi hjá Hákoni bróður J


Dagur tvö

Kæri Jóli ! 

Eða var það ekki svoleiðis?  Alla veganna er dagur tvö í fésbókarhléi á enda runnin og ég hefi ekki þjáðst af teljandi fráhvarfseinkennum.  Ég er því sennilega ekki haldin faceorexíu sem ku vera alvarlegur sjúkdómur af sama kaliberi og tanorexía, en tanorexía virðist vera nýjasti tískusjúkdómurinn sem tröllríður samfélaginu um þessar mundir. 

Af því tilefni  er því best að taka fram að ég er ekki heldur haldin Tanorexíu enda þýðir lítið fyrir mig að leggjast í ljósaböð þar sem ég hefi fengið, í vöggugjöf, húð fyrir rauðhærða og get varla hugsað um sólböð án þess að skaðbrenna.  Sólarvörn er standard útbúnaður fyrir mig, og í þeim orðum skrifuðum, hef ég komið auga á einu björtu hliðina við að búa á Hvanneyri.  Sem sagt gífurlegur sparnaður í kaupum á sólarvörn. Cool

En nóg um það.   Þessi dagur leið eins og aðrir dagar.  Hápunktur dagsins var tvímælalaust koma póstsins, en pósturinn kemur ávalt hér milli tíu og hálf ellefu.  Í dag kom bæklingur frá Húsasmiðjunni og auglýsing um Bingó!  Það vantar sko ekki stuðið í Borgarfjörðinn, skal ég segja ykkur.  Ó nei ó nei!! Þessi bingóauglýsing gerði mig svo spennta að ég átti í erfiðleikum með að einbeita mér í smá stund á eftir, en ég er nú eldri en tvævetur og beitti sjálfa mig stífum aga þannig að ég náði að klára útreikningana á virkri stofnstærð sem ég talaði um í gær.  Var ég því ákaflega glöð með afrakstur dagsins enda fátt sem  kemur manni í betra skap en að fletta upp í Quantitative genetics eftir Falkoner og Mackay.    

Reyndar afrekaði ég líka sundferð með Þorbjörgu og svo fengu hrossin auðvitað sinn skerf en það gekk allt stórtíðindalaust og óþarfi að ræða það nánar að svo stöddu.  Í ljósi þessarar æsispennandi færslu minnar sé ég að líklega verð ég að fara að bregða mér í höfuðstaðinn og verða veðurteppt hjá Kollu.  Kannski er bingó í Háaleitinu!

Góða nótt

Gunnfríður (sem er örþreytt eftir spennuþrungin dag)

P.S.  Af gefnu tilefni er vert að taka fram að ég get póstað færslurnar beint á fésið án þess að raunverulega fara á fésið svo ég þarf ekki einu sinni að svindla á bindindinu Tounge

 


Ó já!!

Jæja góðir hálsar!  Í tilefni af tímabundnu fésbókarfríi mínu hef ég ákveðið að dusta rykið af bloggsíðunni minni.  Blogg er líka svo miklu menningarlegra og innihaldsríkara, ekki satt?  Raunveruleg ástæða er líklega sú að ég er fullkomlega ófær um að viðhalda langtímaáhuga á einhverjum einstökum hlut, manneskju eða áhugamáli (ef frá er talin hestamennska) og því er, í mínu heimi, ætíð góð hugmynd að taka sér frí, frá hinu og þessu, annað slagið. 

Það væri þó algerlega  ábyrgðarlaust af minni hálfu að skilja netheiminn eftir fullkomlega í lausu lofti og algerlega án minna greinargóðu lýsinga af daglegu lífi á Hvanneyri því maður hefur jú skyldum að gegna gagnvart umheiminum.  Ekki satt?

Maður getur líka sagt svo miklu miklu meira með ítarlegum bloggfærslum.  Hugsið ykkur bara hvað ég á miklu betri möguleika á að úthúða Hvanneyrarstað og öllu sem honum tilheyrir á dramatískan hátt með ítarlegum lýsingum.  Ég er bara strax farin að hlakka til Devil.

Annars er ég í "sumarfríi" núna.  Það sumarfrí lýsir sér þannig að ég sit heima og leitast við að þrælast áfram í doktorsverkefninu  mínu (sem virðist á góðri leið með að verða eilífðarverkefni) milli þess sem ég sinni hrossum.  Talsverður tími fer einnig í að reyna að leiða hjá mér vinnutengd (þá meina ég BÍ-vinnutengt efni) sem berst til mín á formi tölvupósts.  Hingað til hef ég sennilega náð einum degi af sjö þar sem ég get með góðri samvisku sagt að ég hafi ekki unni neitt tengt Bændasamtökum Íslands.  Það getur víst ekki einu sinni með góðum vilja, talist góður árangur og því hlít ég að þurfa að endurskoða fyrri yfirlýsingar um staðfestu, ákveðni og einbeittan vilja en hingað til hef ég víst talið að ég búi, að minnsta kosti yfir dágóðum skammti af áðurtöldum kostum (já ég segi kostum) en mögulega verð ég að viðurkenna ofmat, að minnsta kosti að einhverju leiti.

Annars hef ég það svo sem fínt.  Komin með góðan play-lista í tölvuna til að stytta mér stundir og mótivera mig við verkefnavinnuna.  Akkúrat núna hljómar klassíkerinn "Fade to Black" til að inspirera mig við skrif þessa ódauðlega meistaraverks er þið nú berjið augum enda er ég í frábærum húmor, Arsenal nýbúið að vinna Porto 5-0.  Ég endurtek FIMM - NÚLL!!!!!! og mín bíða einnig geysilega spennandi útreikningar á virkri stofnstærð.  Hver hefur ekki gaman að því!  Áður en ég helli mér í það mál verð ég hins vegar að brjóta fésbókarbindindið í smá stund til að pósta þessu bloggi enda ekkert gaman að skrifa eitthvað nema maður sé viss um að einhver lesi það sem maður skrifar.

Því segi ég yfir og út í bili

Gunnfríður, doktorsnemi með meiru þessa dagana


BINGÓ - komst inn og því kemur ferðasaga

Í tilefni þess að ég mundi aðgangs og lykilorð að blog.is og því að ég þjáist af gríðarlegum vinnulúa, þá hef ég ákveðið að blogga.  Annars er blogg líklega að verða úrelt fyrirbæri.  Allir komnir á Facebook og ég tala nú ekki um Twitter sem meira að segja ég er komin á.  Er þó ekki neitt gríðarlega afkastamikill Twittari enn sem komið er.  Twitter og Facebook eru hins vegar ekki rétti staðurinn fyrir stóra pistla og því er best að ég skelli atburðum helgarinnar hér inn

Við Þorbjörg lögðumst nefnilega í víking og héldum á Vestfirðina um helgina.  Það sem meira er þá var farskjóti ferðarinnar enginn annar en Ljónið sjálft.  Lögðum við af stað á föstudagsmorgun enda hafið hinn nýfundni íþróttamaður í sjálfri mér ákveðið fyrir nokkru síðan að taka þátt í hinu svokallaða Óshlíðarhlaupi sem, eins og nafnið gefur til kynna er hlaupið frá Bolungarvík til Ísafjarðar um hina margumtöluðu Óshlíð. 

Lögðum við af stað með nesti og nýja skó, aðallega samt nesti því við gerðumst gríðarlegar húsmæður og bjuggum til hin sígildu hangikjöts- og túnfisksalöt, sem eru ómissandi í öllum ferðalögum.  Suðum bjúgu og egg, tókum kjöt úr kistunni og pökkuðum í risastórt kælibox í eigu móður minna (dæmigert að mamma skuli eiga eitt voldugasta kælibox norðan Alpafjalla).

Leiðin lá um Strandasýslu í gegnum Hólmavík og yfir Steingrímsfjarðarheiði í átt til Ísafjarðar.   Völdum við þessa leið til að hlífa Ljóninu (og okkur sjálfum í leiðinni) því við vissum sem var að malbikaðir vegir eru ekki á hverju strái á Vestfjörðum og því um að gera að reyna að nýta sér þá sem þó eru til staðar.  Ferðin gekk vel og sáum við margt og mikið, bæði fallegt og skemmtilegt.  Þar á meðal ákaflega álitlegt eyðibýli í Ísafirði sem ég gæti vel hugsað mér að eiga svona til gamans þar sem þar stendur ákaflega sérkennilegt hús (sjá mynd), og þar er líka bryggja (svalt að eiga eigin bryggju).  Reyndar var þar einnig að finna, sennilega eitt stærsta býflugnasamfélag hérlendis (amk á Vestfjörðum).

P1010002

Þræddum við firðina við Ísafjarðardjúp þar sem landslag er algerlega stórkostlega fallegt og komum til Ísafjarðar um klukkan 17:00 að staðartíma (alltaf flott að bæta þessu með staðartíma við).  Eftir að nýuppgötvaði íþróttamaðurinn ég, var búin að ganga frá hlaupaskráningu og við búnar að koma okkur vel fyrir á Gamla Gistiheimilinu var fátt annað að gera en dunda sér eitthvað fram að hlaupi sem hefjast átti klukkan 20:30.  Veðrið var algerlega til fyrirmyndar og Ísafjörður brást ekki vonum mínum um að reynast jafn sjarmerandi staður um sumar sem um vetur.

Eftir smá afslöppun hófst undirbúningur fyrir hlaupið mikla.  Reyndar skal segjast eins og er að ég skráði mig í 10 km hlaup sem þýddi að ég hljóp alls ekki um Óshlíðina sjálfa heldur frá Hnífsdal til Ísafjarðar (hálft maraþon hljóp Óshlíðina)  Mætti ég galvösk á tiltekin stað og mætti þar her hlaupara sem hver um sig hefði getað opnað litla sportvöruverslun með öllum þeim hlaupaútbúnaði sem þeir höfðu meðferðis.  Buxur, bolir, jakkar, sokkar og skór, úr örtrefja, öndunar, örléttum efnum, púlsúr, vatnbelti, Ipod haldarar og svo mætti lengi telja, virtist vera staðalbúnaður svo ég hefði sennilega allt eins geta mætt í skónum mínum einum saman þar sem þeir virtust vera eina græjan sem ég hafði meðferðis sem gat hugsanlega staðist samanburð við græjuherinn mikla.  Hlaupið kláraði ég þó þrátt fyrir augljóst græjuleysi og metnaðarleysi hvað varðar hlaupabúnað og náði settum markmiðum sem var að hlaupa vegalengdina á undir klukkutíma.  Einhvern vegin hafði ég fengið þá flugu í höfuðið að það væri ágætur tími fyrir nýuppgötvaðan íþróttamann sem hafði bara einu sinni hlaupið 10 km áður (tók generalprufu tveim dögum áður svona til að vera viss um að komast 10 km skammlaust).

Þorbjörg beið við marklínuna eins og sönnum aðstoðarmanni sæmir (hahh!, ég var þó með aðstoðarmann ) og að hlaupi loknu var því fullkomlega frábært tilefni til að fá sér bjór sem við gerðum að sjálfsögðu.  Kíktum í hrútakofan (Edinborgarhúsið) en stoppuðum ekki lengi þar sem þar var fremur einkennilegt fólk í annarlegu ástandi og við áttum langa ferð fyrir höndum næsta dag.

Veðrið hélt áfram að vera til stakrar fyrirmyndar og yfirgáfum við Ísafjörð um hádegisbilið eftir smá rölttúr um bæinn.  Næsti áfangastaður var Breiðavík þar sem beiðast átti gistingar næstu nótt.  Keyrt um Önundarfjörð, Dýrafjörð (smá stopp í Skrúð og Þingeyri) og síðan eins og leið lá yfir Hrafnseyrarheiði yfir í Arnarfjörð (sjá mynd).  Ákváðum við að kíkja heim að Hrafnseyri og ekki laust við að maður sæi, við það tækifæri, ástæðu til að biðja Jón Sigurðsson afsökunar á aumingjaskap  yfirvalda og atburðarás síðustu daga.  Þar blakti þó ennþá íslenskur fáni við hún og spurning hvort ESB-fáninn fer eins vel við fjallasýnina og hann gerir.

Hrafnseyri

Þegar hér var komið sögu var heldur farið að halla undan fæti í vegamálum á Vestfjörðum en við héldum ótrauðar áfram inn Arnarfjörð og upp á hin hálfrar aldar gamla veg yfir Dynjandisheiði.  Sá vegur kom nokkuð á óvart og náðum við ásættanlegri yfirferð yfir heiðina, allt þar til beygjan ofna í Suðurfirði var tekin.  Sem betur fer höfðum bæði við og Ljónið nokkra reynslu af vegakerfinu í uppsveitum Borgarfjarðar svo við vorum ýmsu vön.  Umtalsvert bættist þó í reynslubankann á leiðinni til Bíldudals og gekk ferðin þangað fremur hægt.  Reyndar svo hægt að þegar á Bíldudal kom, þótti okkur rétt að hætta við öll plön um að þrælast út í Selárdal og nota frekar smá stund í að ná úr okkur sjóriðunni eftir bílferðina um Suðurfirði.  Hér sannaðist það einnig að lengi má gott bæta því ,ef mögulegt var, þá var veðrið ennþá meira til fyrirmyndar á Bíldudal og nutum við sólarinnar og skoðuðum bæinn (tekur ekki langa stund) sem kúrir þarna undir snarbrattri hlíð og risavöxnum snjóflóðavarnargarði sem reyndar er ennþá í byggingu.  Ég ráðlegg öllum eindregið að kíkja á Bíldudal við tækifæri

Hér höfðu yfirvöld séð ástæðu til að splæsa í malbik yfir á Tálknafjörð og Patreksfjörð þannig að ferðahraðinn jókst nokkuð næstu kílómetrana.  Það tók þó snöggan endi innst í Patreksfirði en við vorum endurnærðar eftir stoppið á Bíldudal svo við héldum okkar stefnu.  Þess bera að geta að þarna eru hvítar sandstrendur og tókum við keyrslupásu við eina slíka til að trítla pínu í sandinum og dýfa tánum í sjóinn.

Ströndin góða í Patreksfirði

Áfram var haldið og fundum við meðal annars Sahara norðursins sem er í mynni Sauðlauksdal (fyrir þá sem hafa áhuga á því) og flugminjasafn sem örugglega gerir tilkall til titilsins "afskekktasta safn á Íslandi".  Safnið er á Hnjóti í Örlygshöfn og til að komast þangað þarf að aka veg sem ekki er fyrir lofthrædda.  Þess má þó geta sá kafli er ekki mjög langur svo lofthræddir geta vel lokað augunum í smá stund svo framarlega sem það eru ekki þeir sem sitja í ökumannssætinu (því svo stuttur er vegkaflinn ekki).   Örlygshöfn er hins vegar mjög fallegur staður eiginlega nokkurskonar vin í annars fremur hrjóstrugu landslagi. 

Upp úr Örlygshöfn er keyrt áleiðis til Breiðuvíkur.  Ekki man ég í svipinn hvort sú heiði heitir eitthvað sérstakt en eitt er víst að vegurinn þar yfir stóð öðrum vegum framar hvað varðar hrjóstrugheit og hef ég lofað Ljóninu að hann þurfi aldrei aftur að ganga í gegnum slíka þolraun.  Að þeim orðum skrifuðum er hins vegar hægt að fullvissa fólk um það að Breiðavík var ferðalagsins fullkomlega virði.

Hvít sandströnd umlukin háum björgum á tvær hliðar, heiðar inn til landsins og Atlantshafið til vesturs.  Algerlega ótrúlegur staður vestast á Íslandi mitt í öllu grjótinu.  Hér var sem sagt næsti gististaður og eiginlega hefði ekki verið hægt að velja mikið betur.  Veðrið var frábært og tókum við upp einnota ferðagrillið sem fjárfest hafði verið í á Patreksfirði ásamt heimaræktuðu lambakjöti sem kryddað hafði verið með kryddjurtum úr kryddjurtaræktun Þorbjargar (geri aðrir betur).  Ekki gekk þó átakalaust að kveikja upp í grillinu og voru nokkur ófögur orð látin falla í garð umtalaðs grills og reyndar í garð Dana líka þar sem ég var algerlega sannfærð um að þetta grill væri dönsk hrákasmíð (sennilega af því að leiðbeiningarnar sem ég las voru á dönsku).  Sem betur vorum við með Carlsberg (bruggaður fyrir norðan) við höndina, tvo kveikjara og allskonar pappírsrusl sem við reyndum að nota til að kveikja í helv#$#% grillinu.  Það var þó ekki fyrr en Þorbjörg herjaði grillvökva út úr nálægum túristum sem við náðum að kveikja almennilegt bál og kvöldmatnum var bjargað.  Enn og aftur velti ég fyrir mér hvernig heilu húsin geta brunnið út frá einni sígarettu fyrst okkur tókst ekki að kveikja í helv#$#% grillinu þrátt fyrir nægan eldsmat (þar á meðal kol sem hafa það eitt hlutverk í lífinu að brenna) og einlægan ásetning okkar til íkveikju.  Maturinn bragðaðist þó frábærlega og passaði vel með Carlsbergnum.   Fullkomin endir á deginum var göngutúr á ströndinni í logni og logandi kvöldsól, áræðanlega mjög rómantískt fyrir  þá sem þannig voru þenkjandi.

Sunnudagur var áætlaður í heimferð en mér þótti tilvalið að prófa smá strandvarðafíling og taka morgunskokk á ströndinni, sem ég gerði.  Var þó ekki í rauðum sundbol og ekki með flotholt og einhvernvegin þá man ég ekki eftir árásargjörnum kríum hjá Pamelu og félögum í denn.   Annars var þetta alveg eins.

Heimferðin hófst á skröngli eftir veginum góða en fljótlega komumst við þó á skárri slóðir.  Á Barðaströndinni virðist hafa verið tekin sá póll í heiðina að skipta oftar milli malar og malbiks, kannski til að hvíla vegfarendur oftar á mölinni.  Hugsanlega virkar það eitthvað betur en satt best að segja  þá vorum við eiginlega algerlega búnar að fá nóg af þessu og maður sá enn og aftur ástæðu til að biðjast, í huganum, afsökunar á getuleysi stjórnvalda en nú voru það Vestfirðingar sem fengu þá afsökunarbeiðni.  Ljónið var eðlilega orðið fremur þreytt á þessu öllu saman og punkteraði.  Var þó svo hugulsamt að bíða með það þangað til við vorum að komast á varnalegt malbik og stutt var í Bjarkarlund. 

Það leit reyndar ekki vel út hjá okkur um stund þegar við komumst að því að felgulykillinn var brotin.  Ég sem hafði tékkað allt annað áður en við fórum af stað.  Hver býst svo sem við að felgulykill sem maður hefur aldrei notað sé brotinn.  Væri lykilinn ekki brotin væri réttast að ég berði fyrri eiganda Ljónsins í hausinn með honum.  Aðvífandi bíll bjó þó svo vel að hafa lykil til að lána og var skipt um dekk á mettíma.  Ekki þótti okkur þó óhætt annað en að láta gera við hitt dekkið, svona ef fleiri dekk tækju upp á því að gefast upp.  Þau voru jú öllsömul búin að keyra sömu vegalengdina og sömu malarslóðana.  Grófum víð því upp dekkjaviðgerðarmann í sveitinni sem reddaði þessu samstundis.  Merkilegt nokk þá var þetta það sem upp úr stóð við Barðaströndina (sorrý) sennilega vegna þess að nú var komið hífandi rok og allt fremur grámyglulegt í kringum okkur.  Merkilegt hvað veðrið hefur áhrif á svona lagað. 

Heim komumst við að lokum eftir 1100 km og skal þess getið að Ljónið stóð sig eins og sönn hetja og við náttúrulega líka


Vér morðingjar

Í viðleitni minni til að elda mér góðan mat, fjárfesti ég í steinselju í potti.  Það væri í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema hvað að þessari ágætu steinselju fylgdu ógrynni af pínulitlum flugum sem hafa undanfarna daga gert mér lífið leitt.  Frábæra hugmyndin um ferskar kryddjurtir í stofuglugganum er skyndilega ekki lengur svo frábær og í staðin eru framin hér fjöldamorð á hverjum degi.  Ég sem venjulega forðast pöddur eins og heitan eldinn er orðin svo harðsvíruð að ég krem kvikindin með berum höndum án þess að blikna.  Það versta er þó að ekki virðist sjá högg á vatni og pöddusamfélagið virðist eiga endalausa uppsprettu af sjálfsmorðsárásarliðum sem gera atlögu hvenær sem tækifæri gefst.  Ég er því algerlega búin að fá yfir mig nóg á þessu afkastaleysi mínu við morðin og lýsi eftir árangursríkari aðferðum til gjöreyðingar pöddusamfélagsins.  Það er alveg ljóst að þetta heimili hefur hug á að koma sér upp gjöreyðingarvopnum.

Yfir og út í bili

GEH


Og eftir ótrúlega langa þögn.......

...... hef ég upp raust mína á ný.  Lofa samt engu um að ég haldi þessu áfram reglulega og eiginlega væri ótrúlegt ef einhver kemur hingað ennþá, svo ef einhver slysast til að lesa þetta þá endilega kommentið bara svona til að láta mig vita af því. 

Þetta er bara búin að vera svona einn af þessum skrýtnu dögum þar sem maður hefur svo sterklega á tilfinningunni að eitthvað liggi í loftinu.  Veit ekki alveg hvort það er gott eða slæmt.  Reyndar hefur dagurinn ekki lofað góðu.  Vaknaði í morgun og reis fremur óvarlega upp sem varð til þess að öxlin hálf hrökk úr liðnum (sjá eldri færslur varðandi axlarvandamál), það markaði einhvernvegin daginn því ég hef lagt mig fram við að brjóta glös, reka mig í og gera annarskona klúður það sem eftir er dagsins.  Tók samt hlaup í morgun í norðangolunni sem var ákaflega hressandi en nú þegar ég ætti að vera að lesa fyrir próf (á mánudaginn) þá langar mig helst að fara á ærlegt fyllerí.  Það er eiginlega svona í stíl við daginn sem er að líða, fremur svona sundurlaus og ómarkviss en á sín móment.

Ég hef þvi hugsað mér að drekka rauðvín í kvöld og er búni að fá félaga í verkefnið.  Það gæti verið ágætis millivegur milli þess að lesa fyrir próf og hrynja í það.  Leggur allavegana drög að próflestri á morgun. 

Er annars nýkomin frá DK þar sem ýmislegt gekk á.  M.a sprengjuhótanir á lestarstöðum og endalausar lestarferðir.  Komst þó á alla áfangastaði að lokum og missti ekki af neinni flugvél eða neinu öðru.  Góð ferð allt í allt.

Því bið ég ykkur að eiga góða helgarrest.  Ég ætla að reyna það líka

Yfir og út eftir langt hlé

GEH


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 412

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband