í lok sumars

Það er kannski komin tími til að henda inn eins og einu bloggi enda hallar sumri og hausta fer, eins og segir í ljóðinu.  Merkilegt hvað þessi sumur eru alltaf skuggalega fljót að líða *andvarp*.  Það þýðir þó ekki neitt að dæsa of mikið yfir því enda haustið frábær tími og svo kemur náttúrulega alltaf aftur sumar…………næsta sumar

 

Einhverjir muna kannski eftir því að ég hafði uppi fögur fyrirheit til sjálfrar mín um að dvelja langdvölum norðan heiða í sumar og aldrei þessu vant stóð ég við gefin loforð.  Grand plön voru einnig uppi um útreiðar, hlaup og fjallgöngur.  Eitthvað minna varð nú úr þeim plönum, aðallega vegna þess að tiltölulega snemma í ferlinu fatlaðist ég og varð því að notast við hækjur um stundarsakir. 

Á þeim tímapunkti höfðu útreiðaplönin þó borið þann árangur að Stóri Brúnn hafði náð að grýta mér svo kirfilega í jörðina að líklega sést ennþá móta fyrir lendingarstaðnum.  Ég slapp þó nokkuð við skaða nema ef frá er talið pínulítið sært stolt og umtalsvert léttara veski þar sem nauðsynlegt var að fjárfesta í nýjum reiðhjálmi eftir ævintýrið og reiðhjálmar, skal ég segja ykkur, eru bara ekki alveg gefins nú til dags.  Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er vert að taka fram að flugferð mín af Stóra Brún og dvöl mín á hækjunum eru algerlega ótengdir atburðir.  Ég sá alfarið um það sjálf að koma mér á hækjurnar. 

 

Þrátt fyrir þessa tímabundnu fötlun var nú hægt að brasa eitt og annað skemmtilegt og ber þar líklega hæst keppnin um Svarta sauðinn, sem því sem næst olli sundrung innan fjölskyldunnar og svo náttúrulega að sjálfsögðu hin óborganlega og ógleymanlega Mývatnsferð með þeim stallsystrum Dísu og Fanneyju.  

Ein fjallganga datt svo í hús þegar við Sigga frænka skakklöppuðumst á Súlur um verslunarmannahelgina og verður það að teljast ákveðið afrek af okkar hálfu þar sem samtals vorum við með eina heila löpp en hinar þrjár mismunandi mikið fatlaðar.  Við Sigga erum hins vegar hreystimenni og bitum á jaxlinn eins og sönnum Svertingsstaðakonum sæmir.   

 

En nú er sumarið sem sagt langt komið og dagarnir falla smátt og smátt aftur í gömlu rútínuna.  Þó ekki alveg…………

 

Þessa dagana sveima í kringum Nautastöðina ýmsar stærðir og gerðir af karlmönnum sem virðast eiga það eitt sameiginlegt að hafa með höndum mjög svo karlmannleg störf s.s. að halda á hamri, keyra vörubíla, sulla í steypu og svo náttúrulega má ekki gleyma að með reglubundnu millibili þurfa þeir að “ræða málin” og skyrpa.  Ástæða veru þessara manna er sú að verið er að útbúa gríðarstóra stétt fyrir utan stöðina.  Stétt þessi er svo voldug að eflaust hefur þurft að leggja framkvæmdirnar í umhverfismat og árangur þrotlausrar vinnu þessara manna er sá að undanfarna daga hafa ég, og aðrir starfsmenn, sem á annað borð eru mættir til vinnu, þurft að feta þyrnumstráða braut yfir mótatimbur, fleka, steypujárn og snjóbræðslurör til þess að komast til vinnu.  Það er ekki laust við að maður hafi andað léttar í hvert skipti sem maður komst óskaðaður inn en jafnframt kviðið því að þurfa að brjótast út aftur eftir vinnu.

 

Í morgun dró svo til tíðinda.  Er ég mætti til vinnu stóð tveir af áður nefndum karlmönnum úti og störðu á framkvæmdirnar.  Ég gat ekki séð að nein breyting hefði orðið á fyrirbærinu frá deginum áður og hóf því umsvifalaust að feta mig yfir hina áður nefndu “þyrnumstráðu braut”.  Vannst mér verkið nokkuð vel enda var ég komin í talsverða æfingu í þrautabrautinni og náði ég því útidyrunum á tiltölulega góðum tíma.  Nú er líklega best að geta þess að ákveðnar reglur voru í gildi um það hvernig leyfilegt væri að feta brautina og ekki alveg frjálst að drepa niður fæti hvar sem er.  Það skal því enginn velkjast í vafa með það að talsverða tækni og hæfileika þarf til að komast þessa leið. 

 

Þar sem ég tyllti stórutá hægrifótar milli tveggja snjóbræðsluröra með tölvutöskuna í annari og hina höndina á hurðarhúninum, tilbúin til að taka lokastökkið, drundi í öðrum manninum “Þú kemst ekki inn þarna” og því næst tilkynnti hann, með nokkru stolti í röddinni, “Það á að fara að steypa”.  Það verður að viðurkennast að ég deildi ekki þessum spenningi með manninum og ef ég á að vera algerlega hreinskilin þá hvæsti ég eitthvað velvalið meðan ég barðist við að komast heilu og höldnu út úr þrautabrautinni til þess að leita mér að nýrri inngönguleið inn í húsið.   Mér fannst nefnilega að maðurinn hefði vel mátt nefna þetta við mig örlítið fyrr, til dæmis áður en ég lagði í þautagönguna að útidyrunum………..

 

Upp úr hádeginu var svo búið að dæla umtalsvert mörgum rúmmetrum af steypu á hlaðið sem enginn kemst nú yfir nema fuglinn fljúgandi.  Til að komast út þurfti ég að skríða í gegnum 70 cm op sem alla jafna er ætlað fyrir köfnunarefniskúta.  Ég bíð því spennt eftir að sjá hvaða þrautir verða lagðar fyrir mig á morgunn og jafnframt mun ég fara þess á leit við Bændasamtökin að þau greiði mér áhættuþóknun og bónus fyrir einlægan ásetning minn til þess að komast til og frá vinnu.  Ég bíð líka spennt að sjá hvort einhverjir örlítið umfangsmeiri samstarfsmenn mínir mæti til vinnu á morgun.  Tilhugsunin um að sjá þá reyna að smjúga í gegnum kútagatið kallar fram minningu um sögu af Bangsimon sem festist í tréinu hjá Kaniku....................

Lifið heil


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki að undra að þú sért ein í vinnunni - sérðu ekki suma samstarfsmenn þína í anda, þar sem þeir (líkari Bangsímon en þér í laginu) rembast við að komast gegn um AGA-kúta-gatið

eþ (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 399

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband