Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Við nánari umhugsun

Eftir að hafa ráðist í hreinsun á tölvupósthólfinu mínu, sem án efa er eitt það allra leiðinlegasta verk sem maður getur tekist á við, hef ég ákveðið að gera þrátt fyrir allt smávægilega úttekt á árinu 2007.  (Fyrir þá sem ekki sjá tenginguna á þessu tvennu þá notaði ég tíman og íhugaði atburði ársins um leið og ég mokaði skítnum úr pósthólfinu).   

Árið 2007 var ár hinna óvæntu atburða þar sem m.a Óðinn nokkur Gíslason gerði sér lítið fyrir og klárað sitt margumtalaða mastersverkefni.

Eftir tiltölulega viðburðalítið upphaf ársins 2007 kom loksins vor og með því  langþráð sumardvöl norðan heiða sem hófst á 3 vikna sauðburði.  Hér sannast enn og aftur að fátt er betra fyrir geðheilsuna en að komast heim í sauðburð.  Sauðburðurinn dróst nú heldur á langinn þetta árið og verður það að skrifast á reikning kynbótahrútsins hans Hákonar bróður.  En sá hrútur er, þrátt fyrir ákaflega léttrækt ætterni, svo óskaplega latur að hann nennti ekki einu sinni að sinna sinni árstíðabundnu skildu svo vel væri heldur dundaði sé við þetta eitthvað fram á vorið. 

Síðasta ærin bar því um miðjan júlí ef ég man rétt og þó það væri heldur einkennileg samblanda að hlaupa úr heyskapnum til að líta eftir óbornu ánum, hafðist þetta nú allt að lokum og áttu þeir feðgar, þrátt fyrir allt áætis líflambahóp í haust en minn afrakstur varð heldur rýrari þar sem helmingur minna lamba drapst um sumarið og hinn helmingurinn, smálambið Hallur, býr nú í hálmspili í fjárhúshlöðunni og hallar undir flatt eins og nafnið gefur til kynna.  Hákon bróðir aumkaði sig þó yfir mig og gaf mér gimbur af mínu gamla kyni, sem nú er í hans vörslu, svo fjáreign mín tvöfaldaðist í haust þrátt fyrir afföll sumarsins.   

Sumarið einkenndist af skemmtilegheitum, þar sem gamlir kunningjar hittust á ný, gengið var á fjöll og fleira sér til gamans gert. Útreiðar voru einnig stundaðar af nokkru kappi í sumar.  Hafði ég útibú bæði austan og vestanmegin ár og reið út í félagsskap Mæju og Möggu vestanmegin en Harðar og Hákonar austanmegin.  Yrpa mín, betur þekkt sem Litla-Jörp er því nú orðin allnokkuð tamin og fær í flestan sjó.  Mér til aðstoðar við tamningarnar naut ég dyggrar aðstoðar Kviku gömlu, trausts samstarfsfélaga til margra ára.  Náðum við öll saman einni ferð austur í Fnjóskadal í lok sumars þrátt fyrir að gamlar merar tækju upp á því að ganga í barndóm en ferðalag þeirra Hákonar, Grána og Ólgu, niður heimreiðina á Svertingsstöðum verður lifir líklega lengi í minningu þeirra er á það horfðu. 

Óvæntasta uppákoma sumarsins verður þó að teljast þegar Fúli-Gráni hans Hákonar (sem henti mér fyrir utan hesthúsið á Hvanneyri hérna um sumarið) greip töltið í fyrsta skipti á ævinni niður Garðsárheimreiðina eftir göngurnar.  Til þess þurfti hvorki meira né minna en heilsdagsbrúkun í göngum og óvænta aðstoð girðingarefna Garðsárbóndans, svo það er alsendis óvíst að þetta verið einhvern tíman leikið eftir.  Að minnsta kosti tel ég líklegt að Hákon sé til í að sleppa gaddavírnum í taglinu enda yrði þá margra manna verk að gangsetja klárinn þar eð alltaf þyrfti a.m.k einn mann til að hleypa hann uppi eftir að Hákon er búin að yfirgefa hnakkinn.  Það verður þó að segjast að Jón litli (sem er rétt tæpir tveir metrar á hæð) hafi átt eina bestu takta ársins í hestamennskunni þegar hann náði Grána.  Líklega hefðum við betur gefið honum lassó í jólagjöf í stað brettaskífunnar.

Með haustinu tók þó alvara lífsins við nýtt verkefni handan við hornið ásamt þeim gömlu sem biðu með upphafi kennslu.  Því lagði ég land undir fót í einn eitt skiptið og flutti mig aftur vestur á Hvanneyri.  Vegna anna varð minna um norðurferðir þetta haustið en þó komst ég í tvennar göngur sem verður að teljast algert lágmark til að viðhalda andlegri heilsu.  Haustið og veturinn hefur verið viðburðaríkt og skemmtilegt.  Endurnýjaði óvænt kynni mín við Kollu snilling, sem ég vann með á pósthúsinu í gamla daga.  Við Elsa brölluðum einnig margt skemmtilegt saman og eigum án efa eftir að gera mun betur í þeim efnum á nýju ári. 

Jólafríð hófst með seinna móti þetta árið.  Jólahátíðin gekk í garð með fæðingu jólanautsins sem EKKI var skírður Jesú þrátt fyrir að hafa skotist í heiminn rúmlega sex á aðfangadagskvöld.  Líklegt verður að teljast að þetta hafi verið síðasti aðfangadagurinn sem ég(og aðrir) mjólka í fjósinu á Svertingsstöðum þó kýrnar komi líklega til með að halda áfram að reyna að bera á aðfangadag eftir sem áður.  Án efa á ég eftir að sakna þess að fá ekki að mjólka stöku sinnum þó þær sparki nú í mann stundum blessaðar.

Merkilegt nokk þá náði ég ekki að fara til útlanda á síðasta ári þó árið hafi verið viðburðaríkt.  Hef ég hugsað mér að bæta úr því á næsta ári og gera svo ótalmargt annað skemmtilegt enda markmiðið að 2008 verði eigi síðra en 2007 var og var það þó með skemmtilegri árum.  Ég sé að þessi pistill er í fremur búskaparlegum stíl enda ekki við öðru að búast af óforbetranlegum sveitamanni.  Hann er líklega skrifaður fyrir sjálfa mig fremur en nokkurn annan.  Ég óska þess nú sem oftar að geta deilt með öðrum, þeim myndum sem ég geymi í huganum af öllum þessum bráðskemmtilegum atvikum sem og mörgum öðrum.  Hugsanlega ætti ég að strengja áramótaheit um að vera duglegri að hafa myndavélina á lofti. 

Hafi einhver nennt að lesa í gegnum þessa langloku þá óska ég ykkur enn og aftur gleðilegs árs, þakka fyrir gamalt og gott og hlakka til að hitta ykkur öll á næsta ári.  Sem verður árið sem við brjótumst undan úreltum samfélagslegum viðmiðum, hehehe (Magga og Elsa skilja þennan J )

Ég nenni ekki að lesa þetta yfir heldur skelli þessu á ykkur svona, stafsetningavillur og allt með

Áramótakveðja

Gunnfríður

null

Áramót

Jæja þá eru að koma áramót.  Þessi ár fljúga hreinlega áfram.  Ég ætla að sjálfsögðu að strengja mitt árlega áramótaheit sem hefur, sem betur fer, nákvæmlega ekkert með mataræði eða líkamsrækt að gera.  Mín áramótaheit felast ætíð í því að reyna að gera næsta ár ennþá viðburðaríkara og skemmtilegra en það fyrra.  "So far so good" 

Nú ætti ég sjálfsagt að rifja upp atburði síðastliðins árs sem var nú aldeilis ágætt í alla staði.  Ég ætla þó að láta það ógert en óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.  Hitti ykkur vonandi sem flest á nýju ári.

Kveðja

GEH

Haustmorgun - fyrsti snjórinn


Að fá eða ekki fá, í skóinn

Ég þrái jólafrí!!!!  Kemst þó ekki í umrætt frí fyrr en á föstudag, því hef ég hugsað mér að drekka rauðvín með Elsu á fimmtudagskvöldið, keyra svo norður á föstudag.  Er búin að leysa jólagjafamál þó að þær séu ekki allar komnar í hús.  Jólakortin eru einnig farin af stað.  Ég hef komist niður á mjög effektíft jólakortakerfi.  Þeir sem ég man eftir fá jólakort - punktur. 

Annars langar mig að leggja fram formlega kvörtun til jólasveinana, ég hef nefnilega ekki fengið neitt í skóinn.  Samt er ég alltaf ótrúlega þæg og góð (þó ég segi sjálf frá).  Ég krefst skýringa á þessu.

Yfir og út

GEH

 

 


Ein um boltann svona upp á gamla góða daga

Það er langt síðan ég hef skrifað um fótbolta.  Enda hef ég því miður lítinn tíma til að fylgjast með fótbolta nema svona á síðum veraldarvefsins.  Ég hef þó hugsað mér að horfa á fótbolta um jólin, og drekka bjór með.  Einhverra hluta vegna þá er þetta órjúfanleg heild sem á líklega rætur sínar að rekja til þeirra tíma er við Sissi og Valur örkuðum stundum niður á Old English pub eða hinn pöbbinn(sem ég man ekki hvað heitir) á Gamle Kongevej til að horfa á bolta og drekka bjór.  Óðinn slæddist oftast með en það var nú aðallega til að drekka bjór ekki til að horfa á boltann ef mig minnir rétt.  Já það var í þá gömlu góðu daga.  Þeir voru (og eru líklega enn) Púllarar (nema Óðinn sem er bara bjórsvelgur).  Einhverra hluta vegna þá horfi ég oftar á bolta með Púllurum en öðrum, enda oft auðvelt að finna til samúðar með þeim.  Undantekningin er Hákon bróðir sem er "dedicated" United maður.  Það er ekki eins auðvelt að finna til samúðar með þeim, enda tyggjóskrímslið og allt hans lið ættað þráðbeint frá Helvíti. 

Ástæðan fyrir þessari fótboltafærslu er annars vegar sú að mínir menn stóðu sig með miklum sóma þessa helgina og tróna bíspertir á toppnum.  Hins vegar er mig farið að langa að leggjast upp í sófa með bjór og horfa á bolta.  Húrra fyrir Arsenal !!!!!!!


Áfram um ufrum og handanað

Sælt verið fólkið

Jú amma mín það er vissulega rétt hjá þér að hlutir fjúka vítt og breitt og biðst málfarsfasistinn afsökunar á þessum leiðu mistökum.  Það er gott einhverjir þarna úti hafa vit á að benda manni á svona hluti.  Hvað Ufrum/Uvrum/Ugrum varðar þá komst ég að þeirri niðurstöðu eftir nokkra umhugsun að líklega er ég að skálda þetta g þarna inn því og sennilega er útgáfan með f-inu réttasti kosturinn þar sem þetta ku vera mjög stytt útgáfa á því að fara yfir um.  Reyndar ættir þú Hermann, fæddur og uppalin á Svertingsstöðum að kannast við þetta þar sem afi segir aldrei annað en að fara ufrum og koma handanað og mér finnst nú líklegt að pabbi þinn noti þetta einnig talsvert.

Annars er lítið annað að frétta héðan nema helst rokfréttir þar sem þriðja óveðrið í þessari seríu gekk yfir i gær.  Þurfti m.a að ná í saltkjötstunnuna mína yfir í garðinn hjá Bjarna Guðmunds þegar ég kom heim í gær.  Þá féllu nokkur ljót orð um suðvesturhorn landsins

Jólatréð góða stendur hins vegar enn með fullum ljósum á hringtorginu og tel ég nú að full ástæða sé til að vekja athygli alþjóðlegra fréttastofa á þessu furðufyrirbæri.

Í dag er hins vegar þokkalegt veður og því er líklega best að nota tækifærið og bregða sér jólagjafaleiðangurinn ógurlega sem ég er búin að kvíða fyrir síðan í nóvember.  Illu er best aflokið og líklega verður það að teljast jafn merkilegt fyrirbæri og jólatréð ef ekki verða rauðar tölur á veðurskiltinu undir Hafnarfjalli

yfir og út af eyrinni

GEH


jólatré

Svo virðist sem rok allra roka hafi geisað hér í fyrrakvöld.  Merkilegt nokk þá reyndist það nú svo að meðan gámar og fleira lauslegt fauk vítt og breytt um svæðið, þá stóð jólatréð á nýja hringtorginu algerlega óhaggað.  Mæli ég því með því að sá sem ber ábyrgð á uppsetningu þessa jólatrés verði æviráðin til ráðgjafar hjá Borgarbyggð, þar sem ekki er vanþörf á að kunna vel til verka í þessum efnum hér í þessu mesta rokrassgati á byggðu bóli.  Ég hef grun um að viðkomandi einstaklingur sé reyndar Eyfirðingur og er það nokkuð merkilegt í ljósi þess að Eyfirðingar hafa ekki víðtæka reynslu af roki.

Yfir og út af Eyrinni

GEH


ugrum eða handanað

Nei Óðinn, ég held ég sé ekki farin ugrum (við þarna hinumegin við Tröllaskagann höfum g í þessu orði) ekki alveg amk.  Hafi ég farið ugrum þá er ég í það minnsta komin handanað og við ágæta geðheilsu þessa dagana. 

Þessi bloggfærsla var bara fyrir Óðinn því líklega skilur hana enginn annar.

 

Kveðja af eyrinni

GEH


Um samlegðaráhrif einstakra atburða

Lexía dagsins var " one should never assume".  Samlegðaráhrif einstakra atburða sem eiga sér stað á einum degi verða einstaka sinnum til þess að fáránleiki tilverunnar nær slíkum hæðum að aðeins eru tvennskonar viðbrögð möguleg: 
1. Bresta í grát
eða
2. Bresta í óstöðvandi hlátur.

Ég valdi hið síðarnefnda  LoL


jólasmákökur o.fl

Hvanneyri er merkilegur staður.  Þvílíkt og annað eins rokrassgat er líklega vandfundið.  Á hinn bóginn virðist það vera þannig að nú þegar válynd veður geysa víðast hvar annarsstaðar á Íslandi þá er loksins skaplegt verður hér.   Sem betur fer fyrir restina af Íslandi eru þetta undantekningar tilfelli.  Því miður fyrir okkur hin sem búum hér.  Ekki það ég ætli að kvarta mikið.   Er orðin svo harðsvíruð að tölur uppundir 40 m/sek á veðurskiltinu góða, við Mótel Venus, eru bara eins og hvert annað daglegt brauð.  Enda hafa slíkar tölur sést þar daglega nú um nokkurt skeið.

Annars bakaði ég í gær, samdi við ofninn um að hann væri til friðs og hann tók þeim samningaumleitunum nokkuð vel.  Ofinn í íbúðinni minni er nefnilega örlítið duttlungafullur og bakar ýmist allt súper-fljótt við ofurhita eða hann ákveður að taka sér góðan tíma í verkið. 

Það hefur því bæst jólasmákökuilmur í litlu íbúðina mína ofan á jólaskrautið.  Sem sagt voða huggulegt allt saman

Kveðja af eyrinni+

GEH


Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 399

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband