Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

BINGÓ - komst inn og því kemur ferðasaga

Í tilefni þess að ég mundi aðgangs og lykilorð að blog.is og því að ég þjáist af gríðarlegum vinnulúa, þá hef ég ákveðið að blogga.  Annars er blogg líklega að verða úrelt fyrirbæri.  Allir komnir á Facebook og ég tala nú ekki um Twitter sem meira að segja ég er komin á.  Er þó ekki neitt gríðarlega afkastamikill Twittari enn sem komið er.  Twitter og Facebook eru hins vegar ekki rétti staðurinn fyrir stóra pistla og því er best að ég skelli atburðum helgarinnar hér inn

Við Þorbjörg lögðumst nefnilega í víking og héldum á Vestfirðina um helgina.  Það sem meira er þá var farskjóti ferðarinnar enginn annar en Ljónið sjálft.  Lögðum við af stað á föstudagsmorgun enda hafið hinn nýfundni íþróttamaður í sjálfri mér ákveðið fyrir nokkru síðan að taka þátt í hinu svokallaða Óshlíðarhlaupi sem, eins og nafnið gefur til kynna er hlaupið frá Bolungarvík til Ísafjarðar um hina margumtöluðu Óshlíð. 

Lögðum við af stað með nesti og nýja skó, aðallega samt nesti því við gerðumst gríðarlegar húsmæður og bjuggum til hin sígildu hangikjöts- og túnfisksalöt, sem eru ómissandi í öllum ferðalögum.  Suðum bjúgu og egg, tókum kjöt úr kistunni og pökkuðum í risastórt kælibox í eigu móður minna (dæmigert að mamma skuli eiga eitt voldugasta kælibox norðan Alpafjalla).

Leiðin lá um Strandasýslu í gegnum Hólmavík og yfir Steingrímsfjarðarheiði í átt til Ísafjarðar.   Völdum við þessa leið til að hlífa Ljóninu (og okkur sjálfum í leiðinni) því við vissum sem var að malbikaðir vegir eru ekki á hverju strái á Vestfjörðum og því um að gera að reyna að nýta sér þá sem þó eru til staðar.  Ferðin gekk vel og sáum við margt og mikið, bæði fallegt og skemmtilegt.  Þar á meðal ákaflega álitlegt eyðibýli í Ísafirði sem ég gæti vel hugsað mér að eiga svona til gamans þar sem þar stendur ákaflega sérkennilegt hús (sjá mynd), og þar er líka bryggja (svalt að eiga eigin bryggju).  Reyndar var þar einnig að finna, sennilega eitt stærsta býflugnasamfélag hérlendis (amk á Vestfjörðum).

P1010002

Þræddum við firðina við Ísafjarðardjúp þar sem landslag er algerlega stórkostlega fallegt og komum til Ísafjarðar um klukkan 17:00 að staðartíma (alltaf flott að bæta þessu með staðartíma við).  Eftir að nýuppgötvaði íþróttamaðurinn ég, var búin að ganga frá hlaupaskráningu og við búnar að koma okkur vel fyrir á Gamla Gistiheimilinu var fátt annað að gera en dunda sér eitthvað fram að hlaupi sem hefjast átti klukkan 20:30.  Veðrið var algerlega til fyrirmyndar og Ísafjörður brást ekki vonum mínum um að reynast jafn sjarmerandi staður um sumar sem um vetur.

Eftir smá afslöppun hófst undirbúningur fyrir hlaupið mikla.  Reyndar skal segjast eins og er að ég skráði mig í 10 km hlaup sem þýddi að ég hljóp alls ekki um Óshlíðina sjálfa heldur frá Hnífsdal til Ísafjarðar (hálft maraþon hljóp Óshlíðina)  Mætti ég galvösk á tiltekin stað og mætti þar her hlaupara sem hver um sig hefði getað opnað litla sportvöruverslun með öllum þeim hlaupaútbúnaði sem þeir höfðu meðferðis.  Buxur, bolir, jakkar, sokkar og skór, úr örtrefja, öndunar, örléttum efnum, púlsúr, vatnbelti, Ipod haldarar og svo mætti lengi telja, virtist vera staðalbúnaður svo ég hefði sennilega allt eins geta mætt í skónum mínum einum saman þar sem þeir virtust vera eina græjan sem ég hafði meðferðis sem gat hugsanlega staðist samanburð við græjuherinn mikla.  Hlaupið kláraði ég þó þrátt fyrir augljóst græjuleysi og metnaðarleysi hvað varðar hlaupabúnað og náði settum markmiðum sem var að hlaupa vegalengdina á undir klukkutíma.  Einhvern vegin hafði ég fengið þá flugu í höfuðið að það væri ágætur tími fyrir nýuppgötvaðan íþróttamann sem hafði bara einu sinni hlaupið 10 km áður (tók generalprufu tveim dögum áður svona til að vera viss um að komast 10 km skammlaust).

Þorbjörg beið við marklínuna eins og sönnum aðstoðarmanni sæmir (hahh!, ég var þó með aðstoðarmann ) og að hlaupi loknu var því fullkomlega frábært tilefni til að fá sér bjór sem við gerðum að sjálfsögðu.  Kíktum í hrútakofan (Edinborgarhúsið) en stoppuðum ekki lengi þar sem þar var fremur einkennilegt fólk í annarlegu ástandi og við áttum langa ferð fyrir höndum næsta dag.

Veðrið hélt áfram að vera til stakrar fyrirmyndar og yfirgáfum við Ísafjörð um hádegisbilið eftir smá rölttúr um bæinn.  Næsti áfangastaður var Breiðavík þar sem beiðast átti gistingar næstu nótt.  Keyrt um Önundarfjörð, Dýrafjörð (smá stopp í Skrúð og Þingeyri) og síðan eins og leið lá yfir Hrafnseyrarheiði yfir í Arnarfjörð (sjá mynd).  Ákváðum við að kíkja heim að Hrafnseyri og ekki laust við að maður sæi, við það tækifæri, ástæðu til að biðja Jón Sigurðsson afsökunar á aumingjaskap  yfirvalda og atburðarás síðustu daga.  Þar blakti þó ennþá íslenskur fáni við hún og spurning hvort ESB-fáninn fer eins vel við fjallasýnina og hann gerir.

Hrafnseyri

Þegar hér var komið sögu var heldur farið að halla undan fæti í vegamálum á Vestfjörðum en við héldum ótrauðar áfram inn Arnarfjörð og upp á hin hálfrar aldar gamla veg yfir Dynjandisheiði.  Sá vegur kom nokkuð á óvart og náðum við ásættanlegri yfirferð yfir heiðina, allt þar til beygjan ofna í Suðurfirði var tekin.  Sem betur fer höfðum bæði við og Ljónið nokkra reynslu af vegakerfinu í uppsveitum Borgarfjarðar svo við vorum ýmsu vön.  Umtalsvert bættist þó í reynslubankann á leiðinni til Bíldudals og gekk ferðin þangað fremur hægt.  Reyndar svo hægt að þegar á Bíldudal kom, þótti okkur rétt að hætta við öll plön um að þrælast út í Selárdal og nota frekar smá stund í að ná úr okkur sjóriðunni eftir bílferðina um Suðurfirði.  Hér sannaðist það einnig að lengi má gott bæta því ,ef mögulegt var, þá var veðrið ennþá meira til fyrirmyndar á Bíldudal og nutum við sólarinnar og skoðuðum bæinn (tekur ekki langa stund) sem kúrir þarna undir snarbrattri hlíð og risavöxnum snjóflóðavarnargarði sem reyndar er ennþá í byggingu.  Ég ráðlegg öllum eindregið að kíkja á Bíldudal við tækifæri

Hér höfðu yfirvöld séð ástæðu til að splæsa í malbik yfir á Tálknafjörð og Patreksfjörð þannig að ferðahraðinn jókst nokkuð næstu kílómetrana.  Það tók þó snöggan endi innst í Patreksfirði en við vorum endurnærðar eftir stoppið á Bíldudal svo við héldum okkar stefnu.  Þess bera að geta að þarna eru hvítar sandstrendur og tókum við keyrslupásu við eina slíka til að trítla pínu í sandinum og dýfa tánum í sjóinn.

Ströndin góða í Patreksfirði

Áfram var haldið og fundum við meðal annars Sahara norðursins sem er í mynni Sauðlauksdal (fyrir þá sem hafa áhuga á því) og flugminjasafn sem örugglega gerir tilkall til titilsins "afskekktasta safn á Íslandi".  Safnið er á Hnjóti í Örlygshöfn og til að komast þangað þarf að aka veg sem ekki er fyrir lofthrædda.  Þess má þó geta sá kafli er ekki mjög langur svo lofthræddir geta vel lokað augunum í smá stund svo framarlega sem það eru ekki þeir sem sitja í ökumannssætinu (því svo stuttur er vegkaflinn ekki).   Örlygshöfn er hins vegar mjög fallegur staður eiginlega nokkurskonar vin í annars fremur hrjóstrugu landslagi. 

Upp úr Örlygshöfn er keyrt áleiðis til Breiðuvíkur.  Ekki man ég í svipinn hvort sú heiði heitir eitthvað sérstakt en eitt er víst að vegurinn þar yfir stóð öðrum vegum framar hvað varðar hrjóstrugheit og hef ég lofað Ljóninu að hann þurfi aldrei aftur að ganga í gegnum slíka þolraun.  Að þeim orðum skrifuðum er hins vegar hægt að fullvissa fólk um það að Breiðavík var ferðalagsins fullkomlega virði.

Hvít sandströnd umlukin háum björgum á tvær hliðar, heiðar inn til landsins og Atlantshafið til vesturs.  Algerlega ótrúlegur staður vestast á Íslandi mitt í öllu grjótinu.  Hér var sem sagt næsti gististaður og eiginlega hefði ekki verið hægt að velja mikið betur.  Veðrið var frábært og tókum við upp einnota ferðagrillið sem fjárfest hafði verið í á Patreksfirði ásamt heimaræktuðu lambakjöti sem kryddað hafði verið með kryddjurtum úr kryddjurtaræktun Þorbjargar (geri aðrir betur).  Ekki gekk þó átakalaust að kveikja upp í grillinu og voru nokkur ófögur orð látin falla í garð umtalaðs grills og reyndar í garð Dana líka þar sem ég var algerlega sannfærð um að þetta grill væri dönsk hrákasmíð (sennilega af því að leiðbeiningarnar sem ég las voru á dönsku).  Sem betur vorum við með Carlsberg (bruggaður fyrir norðan) við höndina, tvo kveikjara og allskonar pappírsrusl sem við reyndum að nota til að kveikja í helv#$#% grillinu.  Það var þó ekki fyrr en Þorbjörg herjaði grillvökva út úr nálægum túristum sem við náðum að kveikja almennilegt bál og kvöldmatnum var bjargað.  Enn og aftur velti ég fyrir mér hvernig heilu húsin geta brunnið út frá einni sígarettu fyrst okkur tókst ekki að kveikja í helv#$#% grillinu þrátt fyrir nægan eldsmat (þar á meðal kol sem hafa það eitt hlutverk í lífinu að brenna) og einlægan ásetning okkar til íkveikju.  Maturinn bragðaðist þó frábærlega og passaði vel með Carlsbergnum.   Fullkomin endir á deginum var göngutúr á ströndinni í logni og logandi kvöldsól, áræðanlega mjög rómantískt fyrir  þá sem þannig voru þenkjandi.

Sunnudagur var áætlaður í heimferð en mér þótti tilvalið að prófa smá strandvarðafíling og taka morgunskokk á ströndinni, sem ég gerði.  Var þó ekki í rauðum sundbol og ekki með flotholt og einhvernvegin þá man ég ekki eftir árásargjörnum kríum hjá Pamelu og félögum í denn.   Annars var þetta alveg eins.

Heimferðin hófst á skröngli eftir veginum góða en fljótlega komumst við þó á skárri slóðir.  Á Barðaströndinni virðist hafa verið tekin sá póll í heiðina að skipta oftar milli malar og malbiks, kannski til að hvíla vegfarendur oftar á mölinni.  Hugsanlega virkar það eitthvað betur en satt best að segja  þá vorum við eiginlega algerlega búnar að fá nóg af þessu og maður sá enn og aftur ástæðu til að biðjast, í huganum, afsökunar á getuleysi stjórnvalda en nú voru það Vestfirðingar sem fengu þá afsökunarbeiðni.  Ljónið var eðlilega orðið fremur þreytt á þessu öllu saman og punkteraði.  Var þó svo hugulsamt að bíða með það þangað til við vorum að komast á varnalegt malbik og stutt var í Bjarkarlund. 

Það leit reyndar ekki vel út hjá okkur um stund þegar við komumst að því að felgulykillinn var brotin.  Ég sem hafði tékkað allt annað áður en við fórum af stað.  Hver býst svo sem við að felgulykill sem maður hefur aldrei notað sé brotinn.  Væri lykilinn ekki brotin væri réttast að ég berði fyrri eiganda Ljónsins í hausinn með honum.  Aðvífandi bíll bjó þó svo vel að hafa lykil til að lána og var skipt um dekk á mettíma.  Ekki þótti okkur þó óhætt annað en að láta gera við hitt dekkið, svona ef fleiri dekk tækju upp á því að gefast upp.  Þau voru jú öllsömul búin að keyra sömu vegalengdina og sömu malarslóðana.  Grófum víð því upp dekkjaviðgerðarmann í sveitinni sem reddaði þessu samstundis.  Merkilegt nokk þá var þetta það sem upp úr stóð við Barðaströndina (sorrý) sennilega vegna þess að nú var komið hífandi rok og allt fremur grámyglulegt í kringum okkur.  Merkilegt hvað veðrið hefur áhrif á svona lagað. 

Heim komumst við að lokum eftir 1100 km og skal þess getið að Ljónið stóð sig eins og sönn hetja og við náttúrulega líka


Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 402

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband