Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Ekki er svo með öllu illt..............

Þetta er búin að vera verulega úldinn dagur og skapsmunir mínir eftir því.  Byrjaði daginn vel þegar ég uppgötvaði að ég var búin að klúðra vikuskipulaginu “on a grand scale” og síðan seig jafnt og þétt á ógæfuhliðina.  Líklega hefur stærsti áhrifaþátturinn verið hið mergjaða flugnager sem nú umlykur Nautastöð Bændasamtaka Íslands.  Það eru alls engar ýkjur þegar ég skrifa að kvikindin skipta þúsundum, ef ekki tugþúsundum og þrátt fyrir verulega mikla viðleitni af hálfu undirritaðrar, Ingvars og Sveinbjarnar þá sér ekki högg á vatni, gott ef þeim fjölgar ekki heldur, helvítis beinunum.

Stefnumótunarskýrsla ráðgjafasviðs BÍ hefur fengið nýtt hlutverk sem morðvopn og dugar nokkuð vel til þess brúks, þó ekki hafi það verið upphaflegt hlutverk hennar. 

 

Eftir gengdarlaust áreiti flugna var það því ekki mjög kærkomin viðbót við daginn þegar netsambandið rofnaði, á versta tíma.  Ég rótaðist bölvandi um stöðina og krafði skelkaða nautahriða um upplýsingar um það hver bæri ábyrgð á því að halda okkur í sambandi við umheiminn.  Öskuvond hringdi ég svo í viðkomandi fyrirtæki og ræddi dágóða stund við mann sem tæklaði þessa öskureiðu kvenpersónu, í símanum, á mjög svo diplómatískan hátt.  Ræddum við málið til hlítar og þegar maðurinn hafði tjáð mér að vandræði mín mætti rekja til bilunar í símstöð á Hvanneyri varð þetta allt miklu skiljanlegra í mínum huga og samsinnti maðurinn mér í flýti þegar ég tjáði honum að það hefði alltaf verið mín staðfasta trú að allt illt í heiminum kæmi einmitt frá Hvanneyri.  Ég ákvað að hlífa manninum við kenningum mínum um áhrif hnattrænnar hlýnunar (ég sé ótvíræðan kost við þá þróun að Hvanneyrarstaður stendur mjög lágt og ætti því samkvæmt öllum lögmálum að sökkva tiltölulega snemma) en sá hins vegar enga ástæðu til að þegja yfir þessari kenningu við nautahirðana um leið og ég miðlaði nýfenginni vitneskju minni um bilanir í símstöðvum í Borgarfirði.

 

Úrvinda á sál og líkama drattaðist ég heim seint og um síðir og datt þá í hug að slappa bara af yfir sjónvarpinu svona til að vinda ofan af mér.  Þar var hins vegar boðið upp á hágæðasjónvarpsefni að vanda þar sem hápunktur kvöldsins hlýtur að teljast vera sænska sjónvarpsserían um barnsfæðingar á Karolínska sjúkrahúsinu í Huddinge.  Akkúrat eitthvað fyrir mig !

Af því að mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja hversvegna heilvita manneskju dettur í hug að þetta sé áhugavert sjónvarpsefni (eiginlega finnst mér þetta bara ógeðslegt sjónvarpsefni), jafnvel þó sú manneskja sé Svíi, ákvað ég að fara að ráðum Sólveigar frænku minnar.  Því ráðfærði ég mig við lifrina mína, helti mér síðan rauðvíni í glas, náði mér í 70% súkkulaði og viti menn heimurinn er bara allt annar á eftir

 

/GEH


Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband