Færsluflokkur: Dægurmál
15.8.2008 | 20:23
Ó já
Ég hef eingöngu loggað mig inn til þess að lýsa því yfir að ég ætla ekki að blogga um nýjan meirihluta í Reykjavík og borgarstjóra númer ég-veit-ekki-hvað. Held því ennþá fram að Dagur sé langsamlegast sætasti borgarstjórinn og að svo komnu máli þá sé ég ekki að það sé verri ástæða en hver önnur til vals á borgarstjóra í Reykjavík. Annars er ég eiginlega hætt að þurfa að fara mikið til Reykjavíkur svo mér stendur nokk á sama.
Sleppti útreiðunum í kvöld, hér var leiðinda stormbelgingur og mér leiðist heldur að ríða út í roki. Ég veit nú reynda að miðað við Borgfirskan standard þá er þetta varla rok og hugsanlega hefði maður látið sig hafa það að fara alla jafna en ég var bara löt í kvöld.
Gaf því öllu hrossastóðinu að borða (merar gras og folald mjólk) fór heim og skellti í súpu sem mallar núna á eldavélinni. Set svo hér mynd sem Guðrún tók af mér og hryssunum mínum fyrir einhvern kynningarbækling LbhÍ. Finnst þetta alveg frábær mynd og mjög svo lýsandi fyrir þær systur. Litla-Jörp voðalega ljúf og blíð á svipinn en Skjóna svona heldur skætingslegri
Á morgun verður svo brunað í Skagafjörðinn
Yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.8.2008 | 17:05
Afsakið hlé !
Jæja, mig hefur hrjáð mikil bloggleti, eins og þið hafið sjálfsagt orðið vör við. Ég hugga mig við það að líklega eru fáir sem nenna að lesa blogg núna enda ennþá sumar, þrátt fyrir að haustið nálgist óðfluga. Gleggsta merkið um það er að sífellt fleiri mæta nú til vinnu hjá LbhÍ enda stutt í að skólinn byrji. Það er líka komið svona smá haust í loftið, svali á kvöldin og orðið húmað og smá myrkur svona yfir blá nóttina.
Haustið er minn uppáhaldstími, sumarfríið/gangnafríið mitt nálgast líka með hverjum deginum. Við Litla-Jörp æfum af kappi fyrir göngurnar. Hún hleypur með mig og ég hleyp líka (ekki með hana samt). Henni finnst gaman að hlaupa en ekki mér og merkilegt nokk þá þarf hún frekar á þjálfun að halda, sallaði svolítið á sig, blessunin, í vor þegar hún slasaðist og stóð og safnaði spiki í 2 mánuði. Ég hef hins vegar ekki safnað miklu spiki svo ég þarf bara að ná upp smá þoli. Annars er hún að verða svo ljómandi þægilegt hross.
Skjóna litla frekja hefur ekki eins gaman að því að hlaupa, væri svona sófakartafla ef hún væri mennsk. Kynni best við að sitja fyrir frama sjónvarpið með popp og kók. Ný járning hefur þó gjörbreytt öllum aðstæðum svo nú eru okkar reiðtúrar mun lull-frírri en þeir voru áður.
Látum við nú lokið hesta fréttum en snúum okkur að öðrum íþróttum.
Það eru nefnilega Ólympíuleikar, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum. Það þýðir að loksins er eitthvað áhorfanlegt í sjónvarpinu. Nú svo kom skyndilega í ljós að við höfðum sent handboltalið á Ólympíuleikana. Það hafði ekki nokkur maður minnst á, fyrr en liðið fór að vinna leiki, og skyndilega eru strákarnir okkar mættir aftur til leiks (voru nefnilega bara handboltalandsliðið áður), Flugfélag Íslands grefur upp gamlar auglýsingar, sem gerðar voru fyrir eitthvert stórmótið sem varð svo algert flopp, og handboltaæði grípur landann.
Ég fylgdist að sjálfsögðu með Ísland- Þýskaland. Reyndar bara á mbl.is en varð engu að síður stórhrifin. Stórhrifin af þeim sem sá um að lýsa leiknum á mbl.is. Það er augljóslega mikill snillingur, því ég veltist um af hlátri yfir frábærum kommentum sem komu í lýsingunni. Held að ég fylgist bara með á mbl.is héðan í frá
En nú er líklega best að hafa sig að verki, nokkur verkefni sem þarf að klára fyrir kvöldmat og útreiðar kvöldsins
Yfir og út
GEH
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2008 | 14:31
1. ÁGÚST
Og þá er maður einu árinu eldri svona tölulega séð. Líður samt ekkert sérstaklega mikið eldri en fyrir 3 dögum síðan. Kærar þakkir fyrir skilaboð og sms til ykkar sem mundu eftir mér.
Átti alveg ljómandi góðan túr til Svíþjóðar. Hitabylgja þar eins og hér og hitin því nær óbærilegur. Kíkti svo aðeins við í Köben svona meðan ég var að bíða eftir fluginu mínu í gær og kom heim frekar þreytt lítil kona kl hálf 2 í nótt.
Helgin verður því í afslöppun sem þýðir að ég fer ekki fet út af Hvanneyrarstað nema brýna nauðsyn beri til.
Eigið nú góða verslunarmannahelgi og gangið hægt um gleðinar dyr
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2008 | 11:12
Eitt og annað
Jæja, það fer að líða að því að þessum mánuði ljúki og þá einnig að ég verði formlega einu árinu eldri. Þetta gerist víst einu sinni á ári og þetta árið verður afmælisdeginum eytt í Svíþjóð af öllum stöðum. Hér er annars mest lítið markvert að gerast, sólin komin aftur eftir nokkra daga fjarveru. Ég flutt á nýju skrifstofuna mína sem ég deili með Elsu. Er á annarri hæð í Nýja skóla og er ég reikna þetta rétt út er ég nákvæmlega í herberginu sem ég bjó í þegar ég var í bændadeild. Alltaf skal maður á einhverjum tímapunkti lenda aftur á sama stað.
Annars er búið að umbylta öllu hérna svo gamlir heimavistarbúar eiga sjálfsagt erfitt með að koma sér heim og saman hérna (veit að það á ekki að nota þetta orðatiltæki svona en fannst það bara við hæfi). Hér eru komnir miklir glerveggir og glerhurðir alstaðar og það má mikið vera ef á ekki á einhverjum tímapunkti eftir að ganga á einhverja af þessum hurðum eða veggjum. Hef einnig punktað það hjá mér að taka ekki að mér þrif í þessu húsnæði. Það er hér með algerlega ljóst að arkitektar standa ekki mikið í þrifum, því þá hefði þeim ekki dottið í hug að setja svona mikið gler alstaðar.
Annars urðu nokkuð merkileg tímamót í gærkveldi er við Elsa skelltum okkur í bíó. Fórum á hina epísku stórmynd Mamma Mía. Það var vissulega upplifun en kannski ekki sú sem maður bjóst við. Hlógum okkur máttlausar á köflum en það var nú stutt í kjánahrollinn á bakvið þann hlátur. Sérstaklega þegar Bondinn fyrrverandi hóf upp raust sína, sem ekki einu sinni undratækni nútímans gat lappað upp á. Og þegar maður hélt að þetta gæti bara ekki orðið mikið kjánalegra þá byrjaði Birdget Jones leikarinn (sem ég man ekki hvað heitir) að syngja (ekki mikið sem betur fer). Það er ljóst að þessum mönnum er margt betur gefið en sönglistin (eru t.d huggulegir menn báðir tveir). Veit ekki alveg hvort þessi mynd er gerð í góðum húmor eða hvort þetta átti raunverulega að vera alvöru dans og söngvamynd. Ég kaus að veðja á húmorinn og horfði á hana sem slíka. Meril Streep er nú líka í ansi góðu formi verandi kona á hennar aldri .
En nóg í bili. Líklega lítið bloggað fyrr en eftir Svíþjóðarferð svo adjö þangað til
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.7.2008 | 22:53
Á rigningarkvöldi
Jamm, sumarið er svo sannarlega ekki tími bloggsins. En nú sit ég inni í hlýjunni meðan úti er grámyglulegt rigningarkvöld og er þá ekki tilvalið að henda inn nokkrum línum.
Er ekki mikið fyrir íslenska knattspyrnu og fylgist ekki með neinu er henni viðkemur en gat þó ekki annað en rekið augun í að Skagamenn eru búnir að reka þjálfarann sinn og ráða hvorki meira né minna en tvo heila í staðin. Ég velti því fyrir mér hvort þeir verði aldrei leiðir á hvorum öðrum þessir ágætu tvíburar og hvort að þeir geti bara alls ekki gert neitt upp á eigin spýtur?
Ég held að þetta hljóti að flokkast undir að vera einhverskonar andlegt síamssyndróm og ofan á allt saman þá ku það vera þannig að þeir hafa ekki alveg öll tilskilin réttindi til þjálfunar en svo heppilega vill til að aðstoðarmaðurinn hefur þau. Sem leiðir að þeirri spurningu af hverju var þá ekki bara sá maður látin sjá um þetta. Er ekkert sem heitir löggilt starfsheiti þjálfara?
Annars má mér víst standa á sama, og er eiginlega bara alveg sama
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2008 | 12:41
innkaup
Það er einkennilegur andskoti að maturinn skuli alltaf klárast úr ískápnum. Alveg sama hvað maður kaupir mikið inn. Það mætti halda að maður gerði lítið annað en að éta.
Svo nú verður það ekki umflúið að fara í hina geysivinsælu verslun, Bónus. Þarf að fara í Borgarnes í dag til að láta klippa lubban. Maður reynir að nota ferðirnar til hins ýtrasta, enda bensínið ekki gefins eins og þið hafi sjálfsagt tekið eftir.
Yfir og út úr sumarblíðuni á Eyrinni
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.7.2008 | 19:43
Kíkið á hann Elmar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2008 | 09:12
Veður
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2008 | 22:21
Ó já......
Ég veit upp á mig skömmina. Hef verið latasti bloggari í heimi þó ég hafi frá ýmsu að segja.
Búin að flytja í tóma íbúð.
Búin að kaupa mér húsgögn í tómu íbúðina.
Búin að flytja megnið af þeim úr Reykjavík með dyggri aðstoð Elsu
Búin að halda upp á 5 ára útskriftarafmæli með búvísindabekknum mínum.
Búin að taka að mér folald í fóstur í samvinnu við Eddu
Svo maður nefni nú nokkur atriði.
Hér stendur sem sagt yfir mikil atferlistilraun þar sem komast á að því hvort merin, sem fóstra á folaldið sem við fóstrum núna, leyfir folaldinu að sjúga þegar engin sér til. Sigtryggur atferlisspögulant og myndavélauppsetningarmaður var fegnin til liðs og tæknin tekin í okkar þjónustu. Sem sagt búið að setja upp eftirlitsmyndavél, geri aðrir betur
En nú ætla ég að leggjast upp í sófa og flatmaga þar til að melta kjúklinginn sem ég borðaði hjá Eddu
Yfir og út
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2008 | 15:16
Og svo er það fótboltinn
Horfði á sérdeilis skemmtilegan leik í gær, Svíþjóð - Rússland. Hélt að sjálfsögðu með Rússum enda aldrei verið mikið Skandinavi í mér. Hjó eftir því að fótboltaspekingarnir töluðu um að Svíar spiluðu ávalt sama leikskipulag, og að í raun ættu Svíar miklu betri menn á bekknum en marga þeirra sem inná voru en þeir pössuðu einfaldlega ekki inn í sýstemið og væru því ekki í byrjunarliðinu. Þetta fannst mér alveg týpískt skandinavískt, sérstakleg orðið sýstem sem á svo óskaplega vel við Svía, held ég. Sýstem á öllu, voðalega fyrirsjánalegt eitthvað eins og t.d hún Karlotta sem var með okkur á kúrsnum úti í Finnlandi. Maður sá á henni langar leiðir að hún væri sænsk, alveg eins og sprottin upp úr einni af bókum Astrid Lindgren, og gekk því einungins undir því nafni hjá okkur Elsu.
Það kom líka á daginn að aumingja Svíarnir réðu lítt við Rússa sem spiluðu frábæran fótbolta sem hentað alls ekki sýstemi Svíana, og því fór sem fór. Hafði líka ákaflega gaman að því að Adolf Ingi kallaði í sífellu "Rússarnir koma" svo maður sá fyrir sér heilu herdeildirnar, gráar fyrir járnum. Rússarnir voru líka stöðugt að "koma" upp kantana hjá Svíum og ég er svo sannarlega búin að eignast mitt uppáhaldslið á EM. Þeir eiga víst að mæta Hollendingum næst, áfram Rússland !!!!!
yfir og út
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Hin mjög svo ört vaxandi barnahópur
Fjölskylda sem stækkar með veldisvexti
Aðrir ágætir
Nokkrar síður vina og kunningja - Aðallega Hvanneyringa
- Sigga Dóra
- Vigdís Garðars
- Kolla-n
- Sveitalubbinn úr Húnavatnssýslunni
- Larfurinn hann Óðinn
- Jón Gunnar
Fjölskyldubloggarar
Bloggsíður hina ýmsustu fjölskyldumeðlima
Bloggvinir
Eldri færslur
- Apríl 2011
- September 2010
- Ágúst 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Júlí 2009
- Mars 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar