Fokk það er vinna á morgun

Þá eru þessir páskar búnir.  Að sjálfsögðu gerði ég alls ekki allt sem ég ætlaði að gera í páskavikunni en hef þó líklega náð að slá fyrri met hvað varðar átgetu.  Á móti kemur að ég hef verið dugleg að þjálfa hross og sjálfa mig líka og verða það að teljast mín helstu afrek þessa daga.  Éta, drekka, hlaupa, riða út og sofa.  Náð meira að segja að fara í fjós eitt kvöldið með Hákoni sem var ákaflega hressandi þó ég þekkti nú ekki einn einasta grip á svæðinu nema köttinn Ídu.

Nú mætti reyndar færa talsvert góð rök fyrir því að lífið ætti ekki að snúast um margt annað svona á löggiltum frídögum en þar sem ég burðast nú ennþá með doktorsverkefnið mitt á bakinu þá var nú meiningin að mjatla því eitthvað áfram þessa dag.  Vissulega eru fleiri orð á blaði en voru fyrir viku síðan en betur má ef duga skal.

Hér ber það helst til tíðinda að rokið lægði í tvo heila daga rétt yfir blá-páskahelgina.  Biðu innfæddir þá ekki boðana og tóku til við að kveikja í sinu í gríð og erg þannig að algerlega ólíft varð utandyra.  Er ég nú algerlega sannfærð um að nærveru minnar sé bara alls ekki óskað hér vestanlands og leggjast þar á eitt heimamenn og veðurguðir, því um leið og veðurguðirnir taka sér smá frí er leitast við að svæla mann út með reyk.......................

..............En talandi um veðurguði, þá datt ég inn á ball með hinu margumtalaða kyntrölli allra landsmanna honum Ingó og Veðurguðunum hans.  Skemmst er frá því að segja að þar er bara ágætis ballhljómsveit á ferð og kom það reyndar nokkuð á óvart.  Reyndar hefði Ingó, blessaður karlinn, gjarnan mátt halda sig eingöngu við sönginn en sleppa öllu tali.  Hann er nefnilega bara þræl flinkur söngvari, þó lítill sé (Ingó þ.e, hann er pínu lítill) en ég persónulega hafði ekki mikinn smekk fyrir "bröndurunum" hans (sem eru hér settir innan gæsalappa þar sem vafamál er hvort um brandara var að ræða).  Ballið var hluti af stórmenningarferð minni á Hvammstanga í fylgd Þorbjargar Helgu en þar var haldin hin árlega söngvarakeppni Húnaþings vestra.  Var þetta hin besta skemmtun og þrælflott bara hjá þeim þara fyrir vestan Smile

Formleg hlaupaþjálfun hófst einnig í vikunni en stefnan er sett á þó nokkur spennandi hlaup næsta sumar.  Mun hlaupavertíðin hefjast á Fjallaskokki yfir Vatnsnesið þann 19. júní en þar á ég bæði tíma að bæta og titil að verja síðan í fyrra Cool.  Þorvaldsdalsskokkið er einnig á dagskrá og svo stendur valið á milli Barðsneshlaupsins eða Jökulárhlaupsins, svona eftir því hvernig það passar við önnur plön.  Annars fékk ég þá brilljant hugmynd um daginn að setja mér það markmið að hlaupa í öllum sýslum.  Fór ég því inn á hlaupadagskrá á www.hlaup.is og skoðaði það sem var í boði.  Skemmst er frá því að segja að flest allar betri sýslur buðu upp á hlaup af einhverju tagi nema Skagafjörður.  Svo virðist vera að hlaup séu ekki stunduð innan sýslumarka Skagafjarðarsýslu og er því líklegt að ég verið að hoppa yfir hana á leið minni norður og austur fyrir land.  

Annars eru sumarplönin óðum að taka á sig mynd.  Stefnan er að reyna að hafast við fyrir norðan eins og mögulegt er í sumar.  Fanney og ég erum með óvissuferð planaða og svo var nú meiningin að heilsa upp á útilegumanninn Mæju sem ætlar að hafast við á fjöllum í sumar (og ég er heldur ekki búin að gleyma afmælinu hans Mads).  Norðanhittingur 2010 stendur til og ætli flestar helgar sumarsins séu þá ekki bókaðar.  Það var þó stefnan láta þetta verða árið sem ég færi á Landsmót en við sjáum til með það.

Til þess að þetta allt geti nú átt sér stað þá verð ég víst að koma mér aftur að verki.  Ritgerðin skrifar sig víst ekki sjálf (ég er búin að prófa þá taktík).  Því segi ég yfir og út í bili

GEH

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband