Spaghettíkindur og "stóra" símamálið

Já ég verð nú að taka undir með Hákoni bróður varðandi hana Madonnu hennar Kollu og spaghettíið, en kannski er þetta vísir að nýrri búgrein sem getur komið sauðfjárbændum á hinum afskekktari svæðum Íslands til bjargar nú á hinum síðustu og verstu tímum.  Kannski eru spaghettíkindur málið.  Kannski er hægt að segja að langar og mjóar kindur séu spaghettíkindur, ergo, forystukindur eru þá spaghettíkindur.  Við Hákon erum að hugsa um að kaupa okkur spaghettíkind nú í haust. 

Annars ákvað ég, eftir að hafa setið yfir gerð kennsluáætlunar í drjúga stund, að fá mér glas af hvítvíni og deila með ykkur "stóra" símamálinu. 

Þannig er mál með vexti að nú í lok sumars fluttum við útlagarnir úr Gamla skóla í nýjar og fínar skrifstofur á annarri hæð Ásgarðs.  Vorum við Elsa settar saman á skrifstofu sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi en þegar fyrirskipanir komu um flutninga þá var hvorki tölvusamband né sími á nýju skrifstofunni.  Tölvusambandi datt þó inn eftir um 2 vikur eða svo svo ég flutti á skrifstofuna og beið þolinmóð eftir að síminn kæmist í gagnið, enda stundum gott að vera símalaus í smá tíma.

Nú á haustdögum eftir að við Elsa vorum búnar að deila skrifstofu í um það bil einn mánuð sáum við að eitthvað var farið að gerast í símamálum á hæðinni og einn daginn birtust menn með græjur til að mæla tengla og gerðu sig líklega til að gera eitthvað tækniundur í framhaldi af því.  Og jú jú, skömmu siðar birtist sími á borðinu hjá Elsu sem virkaði og allt.  Ég beið því eins þolinmóð og mér er mögulegt eftir því að minn sími birtist líka.  Eftir að nokkur tími hafði liðið án þess að nokkur sími birtist, fór ég að íhuga að mynna fólk á það að mig vantaði nú reyndar ennþá símann minn og næst þegar ég rakst á tölvumann mynnti ég hann kurteislega á það að ég væri nú ekki ennþá búin að fá síma.  Maðurinn horfði á mig í forundran og tjáði mér það að það væri ekki á dagskránni enda hlytum við að geta bjargað okkur þarna saman með einn síma.

Nú held ég að ég verði að snúa mér að dálitlum umhverfislýsingum svo að þið lesendur góðir getið fengið nokkra hugmynd um útlit skrifstofunnar okkar áður en lengra er haldið í sögunni.

Skrifborðin okkar Elsu snúa á móti hvoru örðu og er glerskilrúm á milli, sem er það hátt að talsverða viðleitni þarf til að tegja sig yfir og eiginlega þarf að klifra upp á skrifborðið til þess að ná almennilega yfir til nágrannans.  Við stóðum því frami fyrir tveim mögulegum lausnum

A) við myndum setja símtækið góða í gluggakistuna mitt á milli okkar tveggja sem er það sameiginlega svæði sem liggur næst okkur.  Það hins vegar kosta það til þess að nota umrætt símtæki þurfum við að standa upp og teygja okkur á tá til þess að ná í græjuna og guð forði okkur ef við veðjum á vitlausan hest og Elsa svaraði nú óvart símtali sem væri ætlað mér, því það kostar stórkostlegar tilfæringar, teygingar og réttingar til að koma símtólinu í réttar hendur.  Það verður að segjast eins og er að við Elsa skemmtum okkur konunglega við að prófa hinar ýmsustu útfærslur af símastaðsetningum og aðferðafræði við sameiginlega símasvörun.

B) hinn möguleikinn er náttúrulega einfaldlega sá að hafa símtækið á borðinu hennar Elsu, þar sem það var upprunalega sett.  Það þýðir vissulega að önnur okkar getur svarað og hringt úr viðkomandi símtæki án mikilli tilfæringa en þyrfti þá á móti að þola það að hin (ég samkvæmt þessari uppsetningu) talaði í síman yfir öxlina á henni hvenær sem ég þyrfti að notast við hið dýrmæta símtæki.

Hvorugur kosturinn þykir mér mjög aðlaðandi auk þess sem ég tel að ef kostnaður við eitt símtæki verður það sem kemur til með að ríða Landbúnaðarháskóla Íslands að fullu þá get ég alveg eins hætt núna strax því líklega er þá endirinn nærri.  Ég hef því ákveðið að leggjast í nokkurskonar símakrossferð. 

Var búin að velta fyrir mér nokkrum mögulegum aðferðum.  Ein var að biðja kurteislega um síma en ég hætti fljótlega við það þar sem að mér þótti það ekki líklegt til árangurs.  Önnur var að senda LbhÍ reikning vegna notkunar á prívat GSM-síma í símaleysinu en einhverra hluta vegna þótti mér ekki líklegt að það bæri nokkurn árangur heldur.  Þriðji möguleikinn var að kaupa hreinlega símtæki sjálf, en við nánari umhugsun þá dró ég þá ályktun að fyrst það væri ekki á færi stofnunarinnar þá væri jaðraði það líklega við mikilmennskubrjálæði að ætla mínu prívatfjárhag að standa undir slíkum fjárfestingum.  Ég ákvað því að enginn af ofarnefndum lausnum væri fýsileg svo skæruhernaður varð fyrir valinu.

Ég mun þvi verða sambandslaus við umheiminn um óskilgreinda framtíð. 
Af augljósum ástæðum mun ekki verða hægt að ná í mig í síma á skrifstofunni. 
Ég mun minna tölvumanninn reglulega á það að ég sé ennþá að bíða eftir símanum mínum eins og ég hafi engar efasemdir um að símtækið sé bara rétt ókomið og ég hafi aldrei heyrt stakt orð um að nokkuð annað sé í kortunum
Þeir sem þurfa að tala við mig verða að rölta við á skrifstofunni hjá mér og svo er nú Íslandspóstur ennþá starfandi og það ku ekki taka nema einn sólarhring (max 2) fyrir bréf að komast til skila í A-pósti.

Ég er að spá í að opna veðbanka þar sem tekið verður við ágiskunum um árangur þessa skæruhernaðar.  Ég sjálf er ekkert ofurbjartsýn og tel að ef einhvers árangurs er að vænta þá komi hann ekki fram fyrr en í fyrsta lagi eftir 5-6 mánuði.  Hvað sem öðru líður þá mun ég gera mitt besta til að koma með nýjustu fréttir af "stóra" símamálinu jafnóðum og þær gerast og ég hef þá að minnsta kosti eitthvað til að skemmta mér yfir á meðan

Látum nú fyrsta pistli um stóra símamálið lokið

GEH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara hvítvín á hverju kvöldi?  Takk fyrir síðast gæskan.

Mér finnst símamálið MJÖG spennandi... mun halda fyrir mér vöku, so keep me posted...

Varðandi spagettí-fjárbú, þá hljómar það afskaplega spennandi.  Svona eins og i Clint Eastwood mynd.  Kveðja til Konna með óskum um gott gengi í spagettífjárkynbótum.  Ég mun svo líta eftir hjörðinni "minni".

kolla (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 16:32

2 Smámynd: Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Ég get selt ykkur systkinum ekta spaghettíkind þó ég kjósi að kalla þær forystukindur á eina svarflekkótta efnilega sem er til sölu.

Gallinn er bara sá að sennilega fæst ekki flutningur á henni norður yfir heiðar.

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, 25.9.2008 kl. 20:41

3 identicon

Mig drullulangar að senda þetta innlegg í heild sinni "á neðri hæðina - innst t.v. (þegar labbað er í áttina að Skessuhorninu)"

Því stundum þarf ég að ná þér í síma - hugga mig enn við að það er á kostnað réttra aðila þegar ég hringi í þig ;)i

e (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband