Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
19.4.2010 | 21:27
Stutt uppdate
Það er nokkuð síðan síðasta blogfærsla leit dagsins ljós enda bókstaflega búið að vera brjálað að gera á öllum vígstöðvum.
Það er nú farið að síga á seinnihlutann í hrossaræktaráfanganum enda er Skeifudagur á fimmtudaginn. Við Brúnn tókum frumtamningarprófið í dag og verður að segjast að miðað við gengi síðustu tveggja vikna má svo sannarlega segja að við höfum toppað á réttum tíma og ekki laust við að við værum bara ánægð með okkur þegar við trítluðum út úr höllinni. Við Rauður förum svo í knapamerkjaprófið á morgun. Tókum létta töltæfingu í kvöld svona til að hreyfa Rauðsa svolítið. Annars ætlum við Rauður að gerast sýningapar og sýna hindrunarstökk á Skeifudaginn ásamt tveim öðrum pörum, það verður eflaust stuð enda veit Rauður fátt meira spennandi en að fá að stökkva og ég er ekki frá því að mér finnist það bara svolítið gaman líka .
Nú hvað annað? Ég skrapp og skoðaði íbúð sem ég er með í sigtinu til að leigja. Leist ágætlega á íbúðina fyrir utan þá staðreynd að hún er óþrifin og full af drasli en því ætti nú að vera hægt að kippa í liðin svo sennilega verð ég bara flutt upp í sveit áður en langt um líður. Veiiiiiiiiiiiiiii
yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2010 | 00:07
Best að nota tímann............
.............og henda inn nokkrum línum þar sem ég er að bíða eftir að keyrsla klárist. Já góðir hálsar, ég er ennþá að vinna klukkan 23:45 á sunnudagskvöldi og get því sagt með sanni að vinnuvikurnar nái saman hjá mér.
Kom aftur úr "sumarfríi" á þriðjudaginn og þar með varð allt vitlaust. Því á ég nú bágt með að trúa því að fyrir viku síðan hafi ég ennþá verið í fríi. Það hlýtur bara að vera liðinn lengri tími. Allavegana þá er nóg að gera á öllum vígstöðvum. Það útskýrir líka þessa blogglausu daga sem liði hafa.
Þetta verður því stutt og laggott að þessu sinni ég verð nú að fara að sofa á einhverjum tímapunkti þar sem áætlað er að taka hlaup í fyrramálið, ef veður leyfir. Veðrið hefur nefnilega ekki leyft neina stórbrotna útivist upp á síðkastið. Fór í afmæli til Bebbu í gærkveldi sem haldið var á barnum. Þemað var 80´og fóru menn "all out" í búningavali. Til að gera langa sögu stutta þá braust ég heim af barnum rúmlega eitt í nótt í grenjandi rigningu og hífandi roki. Kom heim eins og hundur af sundi en þó skal geta þess að 80´hárgreiðslan hafði einna minnst látið á sjá og get ég því með sanni mælt með "Control Extra hold hairspray" sem fæst í apótekinu í Borgarnesi. Það er svo sannarlega "extra hold" en þó er "brushes out with ease" staðhæfingin sem stendur á brúsanum helber uppspuni þar sem massívan hárþvott þurfti til að koma hárlubbanum í eðlilega stöðu aftur.
Nú hvað annað. Útreiðar og tamningar ganga svona og svona. Rauður er sami ljúflingurinn og alltaf en Brúnn er með eilífðar skæting og hefur tekið upp þá aðferð að bíta í fætur knapans þegar hann er ekki sammála þeim áætlunum sem lagt er upp með. ÉG skarta því nokkrum skrautlegum marblettum á fótleggjunum þessa dagana. Að samráði við yfirmanninn hafa nú verið boðaðar hertar aðgerðir í samskiptum við Brún. Það styttist í próf og meðan við Rauður erum að verða nokkuð örugg með okkur fyrir knapamerkjaprófið þá gæti orðið spennandi að sjá hvort við Brúnn náum að stilla saman strengi okkar fyrir frumtamningaprófið .
Tími til stefnu er reyndar ekki svo mikill eða rétt rúm vika og sú vika er þéttskipuð. Reykjavík á morgun og Skagafjörður á þriðjudag og miðvikudag og þá er nú bara næstum komin helgi. Það er því líklega best að anda djúpt, setja undir sig höfuðið og taka þetta á ferðinni bara.........Eða hvað?
/GEH
Það
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2010 | 21:50
Fokk það er vinna á morgun
Þá eru þessir páskar búnir. Að sjálfsögðu gerði ég alls ekki allt sem ég ætlaði að gera í páskavikunni en hef þó líklega náð að slá fyrri met hvað varðar átgetu. Á móti kemur að ég hef verið dugleg að þjálfa hross og sjálfa mig líka og verða það að teljast mín helstu afrek þessa daga. Éta, drekka, hlaupa, riða út og sofa. Náð meira að segja að fara í fjós eitt kvöldið með Hákoni sem var ákaflega hressandi þó ég þekkti nú ekki einn einasta grip á svæðinu nema köttinn Ídu.
Nú mætti reyndar færa talsvert góð rök fyrir því að lífið ætti ekki að snúast um margt annað svona á löggiltum frídögum en þar sem ég burðast nú ennþá með doktorsverkefnið mitt á bakinu þá var nú meiningin að mjatla því eitthvað áfram þessa dag. Vissulega eru fleiri orð á blaði en voru fyrir viku síðan en betur má ef duga skal.
Hér ber það helst til tíðinda að rokið lægði í tvo heila daga rétt yfir blá-páskahelgina. Biðu innfæddir þá ekki boðana og tóku til við að kveikja í sinu í gríð og erg þannig að algerlega ólíft varð utandyra. Er ég nú algerlega sannfærð um að nærveru minnar sé bara alls ekki óskað hér vestanlands og leggjast þar á eitt heimamenn og veðurguðir, því um leið og veðurguðirnir taka sér smá frí er leitast við að svæla mann út með reyk.......................
..............En talandi um veðurguði, þá datt ég inn á ball með hinu margumtalaða kyntrölli allra landsmanna honum Ingó og Veðurguðunum hans. Skemmst er frá því að segja að þar er bara ágætis ballhljómsveit á ferð og kom það reyndar nokkuð á óvart. Reyndar hefði Ingó, blessaður karlinn, gjarnan mátt halda sig eingöngu við sönginn en sleppa öllu tali. Hann er nefnilega bara þræl flinkur söngvari, þó lítill sé (Ingó þ.e, hann er pínu lítill) en ég persónulega hafði ekki mikinn smekk fyrir "bröndurunum" hans (sem eru hér settir innan gæsalappa þar sem vafamál er hvort um brandara var að ræða). Ballið var hluti af stórmenningarferð minni á Hvammstanga í fylgd Þorbjargar Helgu en þar var haldin hin árlega söngvarakeppni Húnaþings vestra. Var þetta hin besta skemmtun og þrælflott bara hjá þeim þara fyrir vestan
Formleg hlaupaþjálfun hófst einnig í vikunni en stefnan er sett á þó nokkur spennandi hlaup næsta sumar. Mun hlaupavertíðin hefjast á Fjallaskokki yfir Vatnsnesið þann 19. júní en þar á ég bæði tíma að bæta og titil að verja síðan í fyrra . Þorvaldsdalsskokkið er einnig á dagskrá og svo stendur valið á milli Barðsneshlaupsins eða Jökulárhlaupsins, svona eftir því hvernig það passar við önnur plön. Annars fékk ég þá brilljant hugmynd um daginn að setja mér það markmið að hlaupa í öllum sýslum. Fór ég því inn á hlaupadagskrá á www.hlaup.is og skoðaði það sem var í boði. Skemmst er frá því að segja að flest allar betri sýslur buðu upp á hlaup af einhverju tagi nema Skagafjörður. Svo virðist vera að hlaup séu ekki stunduð innan sýslumarka Skagafjarðarsýslu og er því líklegt að ég verið að hoppa yfir hana á leið minni norður og austur fyrir land.
Annars eru sumarplönin óðum að taka á sig mynd. Stefnan er að reyna að hafast við fyrir norðan eins og mögulegt er í sumar. Fanney og ég erum með óvissuferð planaða og svo var nú meiningin að heilsa upp á útilegumanninn Mæju sem ætlar að hafast við á fjöllum í sumar (og ég er heldur ekki búin að gleyma afmælinu hans Mads). Norðanhittingur 2010 stendur til og ætli flestar helgar sumarsins séu þá ekki bókaðar. Það var þó stefnan láta þetta verða árið sem ég færi á Landsmót en við sjáum til með það.
Til þess að þetta allt geti nú átt sér stað þá verð ég víst að koma mér aftur að verki. Ritgerðin skrifar sig víst ekki sjálf (ég er búin að prófa þá taktík). Því segi ég yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Hin mjög svo ört vaxandi barnahópur
Fjölskylda sem stækkar með veldisvexti
Aðrir ágætir
Nokkrar síður vina og kunningja - Aðallega Hvanneyringa
- Sigga Dóra
- Vigdís Garðars
- Kolla-n
- Sveitalubbinn úr Húnavatnssýslunni
- Larfurinn hann Óðinn
- Jón Gunnar
Fjölskyldubloggarar
Bloggsíður hina ýmsustu fjölskyldumeðlima
Bloggvinir
Eldri færslur
- Apríl 2011
- September 2010
- Ágúst 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Júlí 2009
- Mars 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar