Skattskil

Ég er svo gömul að ég man glöggt þá tíma er ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og heldur ekki neitt sjónvarp megnið af sumartímanum.  Það fannst manni, á þeim tíma, ekkert tiltökumál og því vil ég leyfa mér að stinga upp á sparnaðarleið fyrir RUV sem fellst í því að hafa sjónvarpslausa miðvikudaga.  Það sem sést á skjánum a miðvikudagskvöldum getur hvort sem er ekki einu sinni með góðum vilja, kallast sjónvarpsefni.  Undantekningin á þessu er að sjálfsögðu Bragi bóksali en honum mætti sem best koma fyrir annars staðar.  Persónulega væri ég alveg til í að sjá helvítis danska trúðsfíflinu skipt út fyrir Braga og þá væri þeim málum borgið.  Við þessa ráðstöfun myndi eflaust sparast umtalsverður peningur og jafnvel gæti RUV, splæst í eins og eina sæmilega bíómynd stöku sinnum. 

En nóg af sjónvarpsdagskrá.   Hver hefur svo sem tíma til að horfa á sjónvarp þessa dagana því nú er jú einmitt hin árlegi skattaskýrslutími.  Í tilefni þess sá ég ekki aðra kosti í stöðunni en að sökkva mér í bókhaldið.  Þeir fáu sem eru þess heiðurs aðnjótandi að fá að koma í heimsókn í slotið til mín hafa eflaust tekið eftir hinu háþróaða bókhaldskerfi sem ég nota.  Það fellst aðallega í því að öllum reikningum, kvittunum, launaseðlum og öðru slíku er samviskusamlega troðið í þar til gerðan tágavasa sem staðsettur er við hliðina á eldavélinni.  Staðsetningin er mjög "strategísk"því bæði er tágavasinn algerlega í "alfara leið" og því mjög hentugt að troða í vasann auk þess sem svo heppilega gæti viljað til, einhvern daginn, að það kviknaði í öllu helvítis draslinu sem myndi náttúrulega einfalda bókhaldið til muna.

Það verður nú að segjast eins og er að ég er mjög skilvirk þegar kemur að bókhaldi og eyði ekki tíma í óþarfa.  Mér finnst til dæmis alger óþarfi að opna allan gluggapóstinn sem ég fæ inn um bréfalúguna enda koma allir reikningar inn á heimabankann auk þess sem sum umslög eru mjög fyrirsjáanleg og því óþarfi að eyða orku og tíma í þau.  

Þó virðist ég þurfa að þjálfa örlítið spádómsgáfu mína varðandi innihald gluggaumslaga.  Eins og áður hefur komið fram er skattaskýrslutími núna og því var ekki eftir neinu að bíða og snaraði ég mér í það að tæma tágavasann og sortera innihaldið.  Af því tækifæri taldi ég rétt að grynnka aðeins á pappírnum og losa mig við eitthvað af þessum umslögum.  Væri ég heppin mætti jafnvel henda einhverju af innihaldinu líka.  Allt var þetta nú eftir bókinni fyrst um sinni.  Upp úr óopnuðu umslögunum komu launaseðlar, húsaleigureikningar og reikningsyfirlit frá bankanum.  Ekkert óvænt enda allt vel kunnugar staðreyndir úr heimabankanum.   Þó kom að því að úr bunkanum kom óopnað umslag frá Kaupþingi (þetta er ekki misritun, umslagið var frá Kaupþingi en ekki Aríonbanka).  Upp úr umslaginu dró ég þykkt bréf sem hófst eitthvað á þessa leið. 

Kæri viðskiptavinur.  Meðfylgjandi þessu bréfi er nýtt debetkort.............  ÚPS!!!

Einhvern tíman á síðastliðnu ári (fyrir stofnun Aríonbanka) rann einmitt gamla debetkortið mitt út.  Að sjálfsögðu uppgötvaði ég það ekki fyrr en ég ætlaði að borga með því einhversstaðar og varð því eðlilega fremur örg yfir þeirri dæmalausu yfirsjón bankamannanna að hafa ekki hundskast til að senda mér nýtt debetkort.  Stímaði ég því umsvifalaust í útibúið í Borgarnesi alsendis ekki sátt við þjónustu bankans.  Bankamenn brugðust umsvifalaust við og útveguðu nýtt kort enda þeir jafn grunlausir og ég um að nýja kortið lægi kirfilega pakkað ofan í bókhaldskerfinu mínu heima.  Nú á ég hins vegar tvö debetkort og verður því næsta verkefni að athuga hvort þau séu bæði virk. 

Ekki voru öll umslög uppurin þegar debetkortið fannst og hélt ég því ótrauð í gegnum bunkann.  Nokkrum bréfum seinna dúkkað upp annað bankaumslag en að þessu sinni merkt Aríonbanka.  Upp úr því dró ég bréf sem hófst eitthvað á þessa leið. 

Kæri viðskiptavinur.  Meðfylgjandi þessu bréfi er ávísun vegna endurgreiðslu e-korts............ ÚPS!!!!

Mögulega þarf ég að endurskoða eitthvað bókhaldskerfi mitt eða einfaldlega standa mig betur í að opna póstinn minn.  Ég vil þó freistast til að halda því fram að hluti af sökinni liggi hjá hinum óútreiknanlegu íslensku bönkum enda hafa þeir skipt um nafn og kennitölu álíka oft eins og við hin skiptum um sokka og ekki óeðlilegt að menn ruglist örlítið í ríminu við allar þessar sviptingar.  Að þessu tilefni vil ég þá gjarnan þakka Landbúnaðarháskólanum, Bændasamtökunum og RARIK fyrir að viðhalda ákveðnum stöðugleika í póstsendingum sínum enda feilaði ég ekki á einu einasta bréfi er barst frá þessum aðilum 

yfir og út í bili

GEH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra Gunnfríður

Við fræknur hér í Ólátagarði þökkum af alhug þá morgunskemmtun og hlátur sem af lestri þessa pistils hlaust. Ef hláturinn lengir lífið, munum við enn um sinn tóra, þökk sé þér.

Höfum ákveðið að skipta ekki um einkennismerki, meðan þú telst til helstu viðskiptavina hússins

kveðjur

E og E

e (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 08:50

2 identicon

Mér hefur alltaf þótt bókhaldskerfi þitt mjög skemmtilegt - hvernig það myndar eins og pappírsblómstur þarna við hlið eldavélarinnar.

 Kannast aðeins við þetta kortavesen en þá kannski frekar á hinn veginn. Ég opna bréf frá banka og í því stendur;

Kæri viðskiptavinur.  Nýtt debetkort bíður þín í næsta útibúi...  

eða eitthvað í þá átt.

Ég skunda í útibúið að sækja krotið og mér er sagt að það sé ekkert kort og ég verði að panta það og bíða í marga daga. 

Mæja (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband