Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Le mur anti-pipi

Er ekki franska alveg dásamlegt mál.  Meira að segja ég skildi þessa setningu til fulls þó ég kunni ekki nema stöku orð í þessu ágæta máli.

Sjá nánari útskýringu á þessu á

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item175216/

 


Uppstytta

Laugardagur enn og aftur.  Ósköp líður tíminn nú hratt.  Hér á Vesturlandinu hefur rignt stanslaust í tvo mánuði, eða allt að því.  Það brá því nýrra við er sást til sólar í gær.  Smá glenna í nokkrar mínútur.  En maður tekur það sem maður getur fengið og var glaður.   Ef ég hefði ekki skroppið norður annað slagið í haust er ég ekki viss um að ég myndi lengur hvernig sólin lítur út.  Annars er rigningarlaust þessa stundina.  Ótrúlegt en satt.

Svona að lokum þá ber að óska nýbökuðum foreldrum, Kristjönu frænku og Eika, til hamingju með dótturina sem og Siggu gömlu ömmu og Ingunni móðursystur. 

Yfir og út af eyrinni

GEH


Þriðjudagshugleiðingar

Mér líður eins og ég hafi allan heimsins tíma, það er vegna þess að ég get leyft mér að sitja á skrifstofunni og vinna að því að minnka himinháa bunka af óleystum verkefnum auk þess sem ég geri ráð fyrir að fara heim á eðlilegum tíma í dag.  Þar sem mér finnst að ég hafi svo mikinn tíma þá ákvað ég að leyfa mér að nota nokkrar mínútur í að skrifa fáeinar línur.  Ég hef komist að því að starf mitt krefst þess að ég tali mikið í síma.  Það hefur mér alltaf þótt leiðinlegt atferli.  Svo er síminn alltaf að trufla mann.  Maður er niðursokkin í eitthvert verkefni og bamm síminn hringir.   Venjulega hringir hann líka oftast þegar maður hefur sem mest að gera. 

Annars eru þriðjudagar ákaflega góðir dagar sem hefjast á kennslu.  Í morgun tilkynnti ég próf á föstudaginn og uppskar gríðarleg fagnaðarlæti.  Mér var vinsamlega bent á það að það væri karókí kvöld á barnum á fimmtudagskvöldið og því væri 8:15 á föstudagsmorguninn ekki heppilegur tími fyrir próf.  "Thats to bad" sagði ég með minni ísköldustu röddu.  Ég er farin að upplifa mig sem feikistóra gribbu sérstaklega þegar nemendurnir úr stofunni við hliðina sópast inn í sína stofu þegar ég hóa mínu liði inn.  Mér nefnilega á að hvæsa á þau um daginn fyrir óþarfa hávaða.  Nú þjóta þau af stað við það eitt að sjá mig.  Mig minnir að svona nefnist virk skilyrðing eða eitthvað álíka.  Þetta svínvirkar og líklega ætti ég að nota þetta meira

Gribban óskar góðra stunda

 

 


O jæja

Lífið er að komast aftur í rétt horf eftir vægast sagt erfiða viku sem einkenndist af heiftarlegur kvefi.   Eftir heimaslátrun og annað stúss um síðustu helgi vaknaði ég á mánudagsmorgun með fyrsta kvef vetrarins og það reyndist vera kvef dauðans, svo fyrri part vikunnar reyndist nær ómögulegt að ná upp fullum snúning.  Veikindafrí var út úr myndinni þar sem þessi vika var uppgjörsvika og flestir dagar fullbókaðir.  Heilsufarið fór nú heldur að skána þegar leið á vikuna, ekki spillti fyrir að Hákon og Þorbjörg buðu mér tvisvar í kvöldmat þannig að klukkan hálf fimm á föstudag gat ég hætt í vinnunni með góðri samvisku þar sem allt var nú komið nokkurn veginn á áætlun aftur.  Vikan endaði svo með trukki og dýfu.  Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að fyrir svona um mánuði síðan flaug ég norður til að fara i seinni göngur og viti menn í flugvélinni hitti ég Kollu sem ég vann með á Póstinum fyrir einum 10-11 árum.  Nú við tókum spjall saman sem entist allt flugið og reyndar hefðum við án efa getað gert betur.  Við ákváðum að það væri nú tilvalið að hittast einhvern tíman fljótlega og á föstudagskvöldið létum við svo verða af því og elduðum góðan mat heima hjá Kollu þar sem ég fékk einnig gistingu.  Í stuttu máli sagt geysilega vel heppnað kvöld sem entist fram til 5 á laugardag því við höfðum sko um ýmislegt að tala.  Rannveig vinkona Kollu slóst einnig í hópinn, hún reyndist vera hin mesti áhugamaður um sauðfé Tounge og pólitík.  Sem sagt geysilega vel heppnað kvöld í alla staði.  Punkturinn yfir I-ið var svo settur með því að bóka flugfar fyrir tvo til London í Apríl fyrir okkur Fanney.  Ég get því verið nokkuð sátt við afrakstur vikunnar þrátt fyrir að heilsufarið hafi ekki verið upp á marga fiska.  Þessi vika lofar hins vegar góðu á þeim vígstöðvum enda vaknaði ég algerlega stíflulaus í morgun.

Góðan sunnudag

GEH


Einn af þessum dögum

Ég hef hugsað mér að fara að dæmi Siggu frænku (hún virðist vera orðin mín helsta samviska og fyrirmynd þessa dagana) og fá útrás fyrir pirring dagsins hér á öldum ljósvakans (spurning hvort öldur ljósvakans eigi aðeins við sjónvarp eða hvort mér sé leyfilegt að nota þetta um veraldarvefinn).  Það er nú bara einhvernvegin þannig að suma daga er eins og allir í kringum mann bindist samtökum um að hreyfast bara alls ekki.  Það er bókstaflega alveg sama hvaða aðferð maður reynir.  Biðja fallega, biðja ekki alveg eins fallega, nöldra, skipa, rífast og tuða, ekkert gerist.  "Nú þoli ég ekkert múður lengur" svipurinn virkaði heldur ekki.  Líkleg ástæða er sú að menn þekkja mig ekki nógu vel ennþá.  Í lok dagsins er maður svo komin með dúndrandi höfuðverk af því að hafa barið hausnum í steininn í heilan dag.  Ég fór því í ríkið og keypti mér bjór.

Guði sé lof fyrir að meðlimir í borgarstjórn Reykjavíkur sjá mér fyrir skemmtiefni í kvöld.  Sérstaklega Björn Ingi.  Ég verð nú bara að segja að það er að sumu leyti hressandi að sjá mann sem er svona óhagganlega sannfærður um að allt sem hann gerir sé svona líka ljómandi frábært og fullkomlega eðlilegt.  Hann er þó alltént heiðarlegur í sinni spillingu og fer ekki í felur með hana.

Annars er hann Dagur nú bara ansi huggulegur borgarstjóri

yfir og út af Eyrinni


Af ritvellinum

Málfarsfasistinn sér sig knúin til að svara Siggu frænku opinberlega því málfarsfasistinn viðurkennir fúslega að hann hefur aldrei verið sterkur á svellinu í réttritun og stafsetningu.  Hluti af vandamálinu er að málfarsfasistinn talar norðlensku og setur til að mynda oft heldur mörg -n- í orð eins og vanta og henta.  Mér sýnist nú reyndar að villurnar í síðustu færslu séu mest megnið fljótfærnisvillur í innslætti sem er mjög algengt að komi fyrir hjá málfarsfasistanum enda hafa fingurnir oft ekki undan að slá inn það sem fasistinn hugsar Wink þegar andagiftin kemur yfir hann.  Engu að síður verða þetta að teljast slæleg vinnubrögð hjá málfarsfasistanum og óafsakanleg þar sem málfarsfasistinn er þekktur fyrir að refsa nemendum sínum grimmilega fyrir slæleg vinnubrögð.  Því sér málfarsfastistinn sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar á þessum tæknilegu mistökum.  Það ku koma fyrir besta fólk að láta hanka sig á þeim. 

Það er því ljóst að fasistinn verður að venja sig á að nota púkann að staðaldri eða gera eins og margir mætir menn hafa gert á undan honum, það er að skrifa eins og honum sýnist og kalla það ritstíl.  Málfarsfastistinn hefur reyndar fyrirmyndir að því þar sem einn af hans leiðbeinendum notar slíkan einkaritstíl óspart og harðneitar að skrifa ypsílon.

Yfir og út á þriðjudegi


á sunnudegi

Málfarsfasistinn verður að viðurkenna að hann sé líklega á góðri leið með að verða lélegasti bloggari í heimi.  A.m.k eru færslurnar sem hafa ratað hérna inn síðatliðna daga og vikur heldur fáar.  Annars var dagur nautgriparætkarinnar hér í gær því var sá dagur vinnudagur.  Síðasta vika var einnig fyrsta fundaferðavika í nýju starfi, auk þess sem anna skipti eru og því er kennslu í háskóladeild formlega lokið af minni hálfu þetta haustið en kennsla í bændadeild hafin.  Án þess að málfarsfasistinn ætli að fara að afsaka blogletina þá var síðasta vika nokkuð þétt setin og viðburðarík.  Það er því gríðarlega tilhlökkun til næstu helgar en þá er ætlunin að taka helgarfrí og bregða sér norður yfir heiðar.  Það eru því litlar líkur á að frítími verði notaður mikið í bloggskrif.  Hann mun verða notaður í annað uppbyggilegra og helst eitthvað sem felur í sér útivist. 

Sunnudagskveðjur af eyrinni

GEH

 


Langir og strangir

Þetta er búin að vera langur og strangur dagur, í gær var líka langur og strangur dagur og ég sé ekki betur en að það sem eftir er vikunar verði langir og strangir dagar.  Með hliðsjón af því ákvað ég að skella mér í slökunarbað þegar ég kom heim úr vinnunni.  Svona til að ná mér aðeins niður. Það virkaði svona líka þræl vel.  Nú ætla ég að fá mér eitthvað gott í gogginn og spá svo aðeins í niðurstöður lambaskoðunarinnar með Hákoni í kvöld.  Stundum er gott að gera eitthvað allt allt annað en manns daglegu verk.  Verst að ég á ekki kaldan bjór í ískápnum.  Klikka ekki á því næst

kveðja af Eyrinni

GEH


Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband