Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

haust

Nú held ég að sumarið sé búið, fyrsti september á morgun og fyrsta kvef vetrarins komið í hús.

Hér ríkir annars mikil spenna, fæ ég ferð fyrir hryssurnar mínar norður eða ekki.  Hestaflutningar virðast nær dauð atvinnugrein á Íslandi.

Drykkur dagsins er te með hunangi sítrónu og smá wiský og hann verður drukkin undir teppi fyrir framan sjónvarpið í kvöld

yfir og út

GEH

 


HeHe

Já Siggi minn þú ert alveg saklaus og jú jú, það er allt í lagi hér.  Mjög svo langvinn neikvæð samskipti við ákveðna manneskju, sem reyndar er kona (svo það sé á hreinu Kolla), náðu ákveðnu hámarki í gær.  Sumt nennir maður bara ekki að standa í og nú hefur verið tekin sú ákvörðun að vinnan verði skilin eftir heima þegar farið er af skrifstofunni.  Punktur. 

Vildi annars bara koma þessu á hreint.  Er í nokkuð góðum húmor eftir grill, hvítvín og bjór í góðum félagsskap og á leiðinni í háttin.  Þorbjörg og Berglind, takk fyrir skemmtilegt kvöld :-)

Góða nótt !


Örstutt um hálfvita

Vaááá hvað það getur snögg fokið í mann stundum og maður sannfærist endanlega um að sumt fólk er einfaldlega bara STÓRT FÍFL!!!!!.  Nú er sko pottþétt einhver með hiksta núna en eiga það svo sannarlega skilið.

HÁLFVITAR!!!!!!!!!! 

Á svona mómentum fær maður sér bjór, blótar hraustlega.  Og ekki orð um það meir


Og tíminn flýgur

Já ég veit, lélegt að vera ekki búin að blogga um "strákana okkar" sem eru reyndar mjög flottir og allt það, sumir flottari en aðrir.  Væri sko til í að lenda á spjalli við Ólaf Stefánsson.  Maðurinn er alger snillingur og augljóslega frábærlega þenkjandi maður.

Er heldur ekki búin að segja neitt um Dorrit og "stórasta land í heimi" enda finnst mér Dorrit alltaf flott og ástæðulaust að tjá sig meira um það. 

Ég hef meiri áhuga á aðvífandi sumarfríi, langþráðu mjög, sem ég held að ég hafi tímasett mjög svo vel.  Finn nefnilega brjálæðið nálgast eftir rólegir tíma þar sem aðrir voru í sumarfríi.  Því er tilvalið að hlaupa í burtu núna og einbeita sér að smalamennskum, fjárragi og kannski smá skytteríi með Hákoni bróður. 

Það er þá líka kannski möguleiki að skrifstofan mín verði komin í samband við umheiminn þegar ég kem til baka.  Mér sýnist að tímatal Landbúnaðarháskóla Íslands hlaupi á vikum en ekki mínútum og sekúndum eins og annarsstaðar tíðkast.  Og vá hvað tíminn er fljótur að fljúga hjá þegar svoleiðis tímatal er notað.

 


samsæri

Bara pínu um íslenska pólitík og samsæriskenningar 

Mér sýnist að nú eigi að draga athyglina frá borgarstjórnar-fíaskói með því að opinbera einhver gömul leyndarmál um peningamál forsetans sem einhver maður ku hafa skrifað samviskusamlega hjá sér.  Sá maður var jú víst ritstjóri Moggans, en það er sjálfsagt helber tilviljun að þetta tvennt fer saman.

Merkilegt nokk, þá er ég nýbúin ræða þessa ótrúlegu þráhyggju margra Sjálfstæðismanna gagnvart forsetanum, við ágætan ónefndan sjálfstæðismann.  Ég skil svo sem alveg að það hafi verið pínu erfitt, fyrir suma, að kyngja hugmyndinni um Ólaf Ragnar sem forseta en fyrr má nú aldeilis fyrr vera að það taki meira en áratug.  Mér finnst sú staðreynd að menn virðast ekki hafa neitt annað þarfara við tíman að gera eiginlega mun merkilegra en meint fjármálaóreiða. 

Svo um þetta hef ég aðeins eitt að segja. 

Maðurinn er lýðræðislega kjörinn forseti.   GET OVER IT!!!!!!!

GEH

P.S
Svo er Dorrit nú alltaf flott Smile


Haustkvöld

Það er pottþétt komið haust, úti er kolniðamyrkur.  Og hvað gerir maður sér svo til dundurs á Hvanneyri á síðsumarskvöldi.  Jú maður vinnur.  Það er  algerlega útilokað að nokkur maður geti lifað meira spennandi líf en ég geri.  Enda bý ég á Hvanneyri, nafla alheimsins þar sem engin dagur er frábrugðin öðrum.  Náði að segja heil 5 eða 6 orð við aðra manneskju í dag.  Sú manneskja var Keli sem var einmitt að sækja kýrnar þegar við Skjóna komum úr reiðtúr.  Hann var líka einasta manneskjan sem ég sá í návígi í dag.  Það var einskær heppni og tilviljun, held ég. 

Til þess að varna því að varirnar grói saman eða að ég gleymi hvernig á að hreyfa þær til að mynda hljóð, þá spjalla ég við hryssurnar mínar.  Litla Jörp er orðin svo vön þessu að hún hlýðir röddinni minni jafn vel og taumunum.  Skjóna er ekki alveg búin að fatta þetta eins vel, enda hef ég talað við hana í mun styttri tíma.  Þetta er þó fljót að læra blessunin og á eftir að finna út úr þessu. 

En nú er klukkan orðin miðnætti og því hef ég um tvennt að velja:

A: Fara að sofa

B: Bíða eftir handboltaleiknum

En í öllu falli þá ætla ég að slökkva á tölvunni

 GEH


Ó já

Ég hef eingöngu loggað mig inn til þess að lýsa því yfir að ég ætla ekki að blogga um nýjan meirihluta í Reykjavík og borgarstjóra númer ég-veit-ekki-hvað.  Held því ennþá fram að Dagur sé langsamlegast sætasti borgarstjórinn og að svo komnu máli þá sé ég ekki að það sé verri ástæða en hver önnur til vals á borgarstjóra í Reykjavík.  Annars er ég eiginlega hætt að þurfa að fara mikið til Reykjavíkur svo mér stendur nokk á sama.

Sleppti útreiðunum í kvöld, hér var leiðinda stormbelgingur og mér leiðist heldur að ríða út í roki.  Ég veit nú reynda að miðað við Borgfirskan standard þá er þetta varla rok og hugsanlega hefði maður látið sig hafa það að fara alla jafna en ég var bara löt í kvöld. 

Gaf því öllu hrossastóðinu að borða (merar gras og folald mjólk) fór heim og skellti í súpu sem mallar núna á eldavélinni.  Set svo hér mynd sem Guðrún tók af mér og hryssunum mínum fyrir einhvern kynningarbækling LbhÍ.  Finnst þetta alveg frábær mynd og mjög svo lýsandi fyrir þær systur.  Litla-Jörp voðalega ljúf og blíð á svipinn en Skjóna svona heldur skætingslegri

Gunnfríður og Hestarnir

Á morgun verður svo brunað í Skagafjörðinn

Yfir og út í bili

GEH

 


Afsakið hlé !

Jæja, mig hefur hrjáð mikil bloggleti, eins og þið hafið sjálfsagt orðið vör við.  Ég hugga mig við það að líklega eru fáir sem nenna að lesa blogg núna enda ennþá sumar, þrátt fyrir að haustið nálgist óðfluga.  Gleggsta merkið um það er að sífellt fleiri mæta nú til vinnu hjá LbhÍ enda stutt í að skólinn byrji.  Það er líka komið svona smá haust í loftið, svali á kvöldin og orðið húmað og smá myrkur svona yfir blá nóttina.

Haustið er minn uppáhaldstími, sumarfríið/gangnafríið mitt nálgast líka með hverjum deginum.  Við Litla-Jörp æfum af kappi fyrir göngurnar.  Hún hleypur með mig og ég hleyp líka (ekki með hana samt).  Henni finnst gaman að hlaupa en ekki mér og merkilegt nokk þá þarf hún frekar á þjálfun að halda, sallaði svolítið á sig, blessunin, í vor þegar hún slasaðist og stóð og safnaði spiki í 2 mánuði.  Ég hef hins vegar ekki safnað miklu spiki svo ég þarf bara að ná upp smá þoli.   Annars er hún að verða svo ljómandi þægilegt hross. 

Skjóna litla frekja hefur ekki eins gaman að því að hlaupa, væri svona sófakartafla ef hún væri mennsk.  Kynni best við að sitja fyrir frama sjónvarpið með popp og kók.  Ný járning hefur þó gjörbreytt öllum aðstæðum svo nú eru okkar reiðtúrar mun lull-frírri en þeir voru áður.

Látum við nú lokið hesta fréttum en snúum okkur að öðrum íþróttum.

Það eru nefnilega Ólympíuleikar, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum.  Það þýðir að loksins er eitthvað áhorfanlegt í sjónvarpinu.  Nú svo kom skyndilega í ljós að við höfðum sent handboltalið á Ólympíuleikana.  Það hafði ekki nokkur maður minnst á, fyrr en liðið fór að vinna leiki, og skyndilega eru strákarnir okkar mættir aftur til leiks (voru nefnilega bara handboltalandsliðið áður), Flugfélag Íslands grefur upp gamlar auglýsingar, sem gerðar voru fyrir eitthvert stórmótið sem varð svo algert flopp, og handboltaæði grípur landann.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með Ísland- Þýskaland.  Reyndar bara á mbl.is en varð engu að síður stórhrifin.  Stórhrifin af þeim sem sá um að lýsa leiknum á mbl.is.  Það er augljóslega mikill snillingur, því ég veltist um af hlátri yfir frábærum kommentum sem komu í lýsingunni.  Held að ég fylgist bara með á mbl.is héðan í frá

En nú er líklega best að hafa sig að verki, nokkur verkefni sem þarf að klára fyrir kvöldmat og útreiðar kvöldsins

Yfir og út

GEH


1. ÁGÚST

Og þá er maður einu árinu eldri svona tölulega séð.  Líður samt ekkert sérstaklega mikið eldri en fyrir 3 dögum síðan.  Kærar þakkir fyrir skilaboð og sms til ykkar sem mundu eftir mér.

Átti alveg ljómandi góðan túr til Svíþjóðar.  Hitabylgja þar eins og hér og hitin því nær óbærilegur.   Kíkti svo aðeins við í Köben svona meðan ég var að bíða eftir fluginu mínu í gær og kom heim frekar þreytt lítil kona kl hálf 2 í nótt.

Helgin verður því í afslöppun sem þýðir að ég fer ekki fet út af Hvanneyrarstað nema brýna nauðsyn beri til. 

Eigið nú góða verslunarmannahelgi og gangið hægt um gleðinar dyr Grin


Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband