5.4.2011 | 22:32
No such thing
Já góðir hálsar, hið ólíklegasta hefur gerst. Ég hef skrifað boggfærslu! Akkúrat núna er ég reyndar ekki búin að skrifa hana heldur er að byrja á henni en þegar þið lesið þetta þá er ég svo sannarlega búin að skrifa hana og það sem meira er að rifja upp aðgangsorðið að blogginu mínu sem hefur ekki verið opnað svo vikum og mánuðum skiptir.
Nú og hví hef ég svo rofið þessa grafarþögn? Jú! Hér er um að ræða mjög mikilvægt málefni sem ég tel vert að við sem þjóð þurfum að leiða til lykta. Hér er um framtíð komandi kynslóða að ræða. Já gott fólk! Hér er ég náttúrulega að tala um mál sem teigir anga sína allt aftur til upphafs kjötvinnslu á Íslandi. Hinn rótgróna misskilning sem virðist vera landlægur í sumum sveitum (aðallega sunnanlands). Þessa leiðinlegu málvillu sem læðst hefur inn í Íslenskt mál! Ég er að tala um það þegar menn arka galvaskir í næstu lúgu, að næsta afgreiðsluborði eða í næstu kjörbúð og biðja um PULSU!
Það setur blátt áfram að mér hroll við það eitt að skrifa slíkt og þvílíkt og ekki dettur mér í hug að segja það upphátt (jafnvel ekki þó engin heyri í mér nema kötturinn). Það gerir náttúrulega ekki nokkur úr minni fjölskyldu nema þá helst til að leiðrétta þá sem ratað hafað í þá ógæfu að bera ypsilonið fram sem u.
Kæru vinir! Ég ætla ekki að eyða tíma mínum og ykkar í að fara í miklar og langar sagnfræðilegar og málfræðilegar útlistanir á því af hverju maður ber ypsilonið ekki fram sem u. Ég ætla í staðin að biðja ykkur um einn einfaldan hlut næst þegar þið skellið pakka af klassískum SS í pottinn. Takið umbúðirnar og gaumgæfið vel hvað stendur utan á þeim. Þá mun þetta liggja ljóst fyrir! Að það er ekkert helvítis U í PYLSA! Því aparently þá borða Íslendingar SS pylsur!
Myndinni stal ég úr þessar grein sem staðfestir enn fremur allt sem fram hefur komið hér að ofan
http://www.huffingtonpost.com/victoria-haschka/best-hot-dog-in-the-world-iceland_b_844305.html
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2010 | 22:30
Ekki er svo með öllu illt..............
Þetta er búin að vera verulega úldinn dagur og skapsmunir mínir eftir því. Byrjaði daginn vel þegar ég uppgötvaði að ég var búin að klúðra vikuskipulaginu on a grand scale og síðan seig jafnt og þétt á ógæfuhliðina. Líklega hefur stærsti áhrifaþátturinn verið hið mergjaða flugnager sem nú umlykur Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Það eru alls engar ýkjur þegar ég skrifa að kvikindin skipta þúsundum, ef ekki tugþúsundum og þrátt fyrir verulega mikla viðleitni af hálfu undirritaðrar, Ingvars og Sveinbjarnar þá sér ekki högg á vatni, gott ef þeim fjölgar ekki heldur, helvítis beinunum.
Stefnumótunarskýrsla ráðgjafasviðs BÍ hefur fengið nýtt hlutverk sem morðvopn og dugar nokkuð vel til þess brúks, þó ekki hafi það verið upphaflegt hlutverk hennar.
Eftir gengdarlaust áreiti flugna var það því ekki mjög kærkomin viðbót við daginn þegar netsambandið rofnaði, á versta tíma. Ég rótaðist bölvandi um stöðina og krafði skelkaða nautahriða um upplýsingar um það hver bæri ábyrgð á því að halda okkur í sambandi við umheiminn. Öskuvond hringdi ég svo í viðkomandi fyrirtæki og ræddi dágóða stund við mann sem tæklaði þessa öskureiðu kvenpersónu, í símanum, á mjög svo diplómatískan hátt. Ræddum við málið til hlítar og þegar maðurinn hafði tjáð mér að vandræði mín mætti rekja til bilunar í símstöð á Hvanneyri varð þetta allt miklu skiljanlegra í mínum huga og samsinnti maðurinn mér í flýti þegar ég tjáði honum að það hefði alltaf verið mín staðfasta trú að allt illt í heiminum kæmi einmitt frá Hvanneyri. Ég ákvað að hlífa manninum við kenningum mínum um áhrif hnattrænnar hlýnunar (ég sé ótvíræðan kost við þá þróun að Hvanneyrarstaður stendur mjög lágt og ætti því samkvæmt öllum lögmálum að sökkva tiltölulega snemma) en sá hins vegar enga ástæðu til að þegja yfir þessari kenningu við nautahirðana um leið og ég miðlaði nýfenginni vitneskju minni um bilanir í símstöðvum í Borgarfirði.
Úrvinda á sál og líkama drattaðist ég heim seint og um síðir og datt þá í hug að slappa bara af yfir sjónvarpinu svona til að vinda ofan af mér. Þar var hins vegar boðið upp á hágæðasjónvarpsefni að vanda þar sem hápunktur kvöldsins hlýtur að teljast vera sænska sjónvarpsserían um barnsfæðingar á Karolínska sjúkrahúsinu í Huddinge. Akkúrat eitthvað fyrir mig !
Af því að mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja hversvegna heilvita manneskju dettur í hug að þetta sé áhugavert sjónvarpsefni (eiginlega finnst mér þetta bara ógeðslegt sjónvarpsefni), jafnvel þó sú manneskja sé Svíi, ákvað ég að fara að ráðum Sólveigar frænku minnar. Því ráðfærði ég mig við lifrina mína, helti mér síðan rauðvíni í glas, náði mér í 70% súkkulaði og viti menn heimurinn er bara allt annar á eftir
/GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2010 | 19:14
Af stóra kaffimálinu...........
Ég get byrjað á því að gleðja ykkur með því að nú er hægt að ganga nokkuð öruggum og þurrum fótum til og frá vinnu. ÉG er því úr mestu lífshættunni í bili og get haldið ótrauð áfram að bægslast um Nautastöðina og helsta nágrenni. Það ætti líka farið að vera nokkuð óhætt fyrir vinnufélaga mína að láta sjá sig á svæðinu. Ég er nefnilega orðin hundleið á að tala við sjálfa mig og drepa flugurnar sem eru minn eini félagsskapur á skrifstofunni þessa dagana.
Í leiðindum mínum, seinnipart dagsins, datt mér í hug að þetta væri kjörinn tími til að framkvæma hið mjög svo þarfa verk að laga til í inboxinu í tölvupóstinum mínum. Það kom nú þó ekki eingöngu til af einskærum metnaði og dugnaði af minni hálfur heldur datt mér í hug að sífellt frost og hrun póstforritsins gæti mögulega stafað af þeim þúsundum (já þarna á raunverulega að standa þúsundum) tölvupósta, af öllum stærðum og gerðum, sem þar var að finna. Bretti ég því upp ermar, smellti nokkrum góðum smellum á play-lista á Youtube og hófst handa. Verkefnið reyndist í fyrstu nákvæmlega jafn ömurlega leiðinlegt og mig hafði grunað en ég lét ekki deigan síga og söng hástöfum með Eminem of fleiri snjöllum tónlistarmönnum meðan ég plægði í gegnum misjafnlega merkilegar póstsendingar og furðaði mig með sjálfri mér á því hvers vegna í ósköpunum ég hafði séð ástæðu til að geyma dramatískar orðsendingar eins og osturinn er komin eða viljið þið passa að læsa útidyrunum ef þið eru síðasti maður út.
Í kringum 18 febrúar 2010 dró þó til tíðinda í pósthólfinu enda rakst ég þar á pósta sem skrifaðir höfðu verið í kringum stóra kaffimálið sem upp kom í Hvannahúsinu.
Stóra kaffimálið olli einmitt nokkur uppþoti á sínum tíma enda um grafalvarlegt mál að ræða. Áður en lengra er haldið er rétt að upplýsa lesendur um það að ég er ákaflega kaffiþyrst kona og þarfnast nokkuð stöðugs framboðs af kaffi til að komast í gegnum normal vinnudag.. Einhverjir myndu jafnvel vilja halda því fram að kaffi, eða öllu heldur, skortur á kaffi, kæmi niður á minni, annars dagfarsprúðu persónu þó ég vilji kannski ekki alveg taka svo djúpt í árinni. Það er líka vert að minna, á þessu stigi málsins, á þá óskráðu reglu sem gildir í sameiginlegum kaffistofum og gerir ráð fyrir að sá eða sú sem klárar kaffið úr könnunni, hellir að sjálfsögðu upp á meira.
Nokkur misbrestur virtist vera á því að menn virtu þessa reglu á sameiginlegri kaffistofu í Hvannahúsinu og varð ég eðlilega vör við það þar sem ég fór allnokkrar ferðir á dag til að fylla á bollann minn. Óneytanlega lágu nokkrir undir grun um en aldrei gat ég þó staðið nokkurn mann að verki fyrr en að dag nokkurn dró til tíðinda og varð það kveikjan að eftirfarandi tölvupósti sem ég sendi á starfsmenn hússins
Að gefnu tilefni tel ég nauðsynlegt að árétta það að kaffið hellir ekki upp á sig sjálft. Kaffikönnurnar eru ekki þeim töframætti búnar búnar að í þeim birtist kaffi fyrir einskæra galdra. Það er því fullkomlega óskiljanlegt í alla staði að fullorðið fólk geti ekki sýnt þá lámarks tillitsemi að hella upp á kaffi ef þeim verður á að klára úr könnunni. Síðast í gær horfði ég upp á veltilhafðan miðaldra karlmann klára kaffið og laumast svo flóttalegur út kaffistofunni í þeirri von að enginn hefði tekið eftir. Undrun mín var slík að ég hafði ekki einu sinni rænu á að skammast yfir því, þau mistök mun ég hins vegar ekki gera aftur.
Þetta er ekki mjög flókið. Meira að segja konur geta hellt upp á kaffi svo að veltilhafðir heldri menn hljóta nú að ráða við þetta enda er kaffikannan ekki mjög hættulegt fyrirbæri.
Mér þætti því vænt um að sá sem klárar kaffið ANDSKOTIST TIL AÐ HELLA UPP Á HELVÍTIS KÖNNUNA!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Af einhverjum ástæðum olli þessi póstur nokkrum titringi og ekki laust við að ég yrði vör við að menn tækju stóran sveig ef þeir urðu fyrir því að mæta mér á ganginum og einn maður sá ástæðu til að tilkynna mér, einn morguninn, með hálfgerðum hræðslutón í röddinni að það væri sko til nóg nýlagað kaffi uppi.
Allt þetta rifjaðist nú upp um leið og ég pældi í gegnum þrifin á pósthólfinu. Jafnframt komu í ljós nokkrir svarpóstar sem t.d. innihéldu leiðbeiningar um hvernig bjarga ætti sér úr vandræðum á kaffistofunni eins og t.d. þessi
Vil benda á eina leið:
1. hlustið vel
2. kíkið niður á bílaplan
3. hlustið aftur
4. hellið í snatri í bollann (með loki)
5. hlustið enginn að koma (samt hætta á að mæta Gunnfríði á ganginum)
6. út á svalir og niður (brunastigann)
Ekki skrítið að sagt sé, að kaffi sé hættulegt
Einnig bárust vísur:
Gamminn lætur Gunnfríður
geisa um sali víða.
Tiplar um og tröllríður
húsum út af miðaldra kalli
Nú er ég flutt úr Hvannahúsinu og, í dag, læddist óneytanlega að mér sá grunur að mögulega hefði húsfélag Hvannahússins gert samning við Bændasamtökin um að koma mér á brott úr húsinu.
Á Nautastöðinni er líka sjálfvirk kaffivél....... Tilviljun??????
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2010 | 18:19
í lok sumars
Það er kannski komin tími til að henda inn eins og einu bloggi enda hallar sumri og hausta fer, eins og segir í ljóðinu. Merkilegt hvað þessi sumur eru alltaf skuggalega fljót að líða *andvarp*. Það þýðir þó ekki neitt að dæsa of mikið yfir því enda haustið frábær tími og svo kemur náttúrulega alltaf aftur sumar næsta sumar
Einhverjir muna kannski eftir því að ég hafði uppi fögur fyrirheit til sjálfrar mín um að dvelja langdvölum norðan heiða í sumar og aldrei þessu vant stóð ég við gefin loforð. Grand plön voru einnig uppi um útreiðar, hlaup og fjallgöngur. Eitthvað minna varð nú úr þeim plönum, aðallega vegna þess að tiltölulega snemma í ferlinu fatlaðist ég og varð því að notast við hækjur um stundarsakir.
Á þeim tímapunkti höfðu útreiðaplönin þó borið þann árangur að Stóri Brúnn hafði náð að grýta mér svo kirfilega í jörðina að líklega sést ennþá móta fyrir lendingarstaðnum. Ég slapp þó nokkuð við skaða nema ef frá er talið pínulítið sært stolt og umtalsvert léttara veski þar sem nauðsynlegt var að fjárfesta í nýjum reiðhjálmi eftir ævintýrið og reiðhjálmar, skal ég segja ykkur, eru bara ekki alveg gefins nú til dags. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er vert að taka fram að flugferð mín af Stóra Brún og dvöl mín á hækjunum eru algerlega ótengdir atburðir. Ég sá alfarið um það sjálf að koma mér á hækjurnar.
Þrátt fyrir þessa tímabundnu fötlun var nú hægt að brasa eitt og annað skemmtilegt og ber þar líklega hæst keppnin um Svarta sauðinn, sem því sem næst olli sundrung innan fjölskyldunnar og svo náttúrulega að sjálfsögðu hin óborganlega og ógleymanlega Mývatnsferð með þeim stallsystrum Dísu og Fanneyju.
Ein fjallganga datt svo í hús þegar við Sigga frænka skakklöppuðumst á Súlur um verslunarmannahelgina og verður það að teljast ákveðið afrek af okkar hálfu þar sem samtals vorum við með eina heila löpp en hinar þrjár mismunandi mikið fatlaðar. Við Sigga erum hins vegar hreystimenni og bitum á jaxlinn eins og sönnum Svertingsstaðakonum sæmir.
En nú er sumarið sem sagt langt komið og dagarnir falla smátt og smátt aftur í gömlu rútínuna. Þó ekki alveg
Þessa dagana sveima í kringum Nautastöðina ýmsar stærðir og gerðir af karlmönnum sem virðast eiga það eitt sameiginlegt að hafa með höndum mjög svo karlmannleg störf s.s. að halda á hamri, keyra vörubíla, sulla í steypu og svo náttúrulega má ekki gleyma að með reglubundnu millibili þurfa þeir að ræða málin og skyrpa. Ástæða veru þessara manna er sú að verið er að útbúa gríðarstóra stétt fyrir utan stöðina. Stétt þessi er svo voldug að eflaust hefur þurft að leggja framkvæmdirnar í umhverfismat og árangur þrotlausrar vinnu þessara manna er sá að undanfarna daga hafa ég, og aðrir starfsmenn, sem á annað borð eru mættir til vinnu, þurft að feta þyrnumstráða braut yfir mótatimbur, fleka, steypujárn og snjóbræðslurör til þess að komast til vinnu. Það er ekki laust við að maður hafi andað léttar í hvert skipti sem maður komst óskaðaður inn en jafnframt kviðið því að þurfa að brjótast út aftur eftir vinnu.
Í morgun dró svo til tíðinda. Er ég mætti til vinnu stóð tveir af áður nefndum karlmönnum úti og störðu á framkvæmdirnar. Ég gat ekki séð að nein breyting hefði orðið á fyrirbærinu frá deginum áður og hóf því umsvifalaust að feta mig yfir hina áður nefndu þyrnumstráðu braut. Vannst mér verkið nokkuð vel enda var ég komin í talsverða æfingu í þrautabrautinni og náði ég því útidyrunum á tiltölulega góðum tíma. Nú er líklega best að geta þess að ákveðnar reglur voru í gildi um það hvernig leyfilegt væri að feta brautina og ekki alveg frjálst að drepa niður fæti hvar sem er. Það skal því enginn velkjast í vafa með það að talsverða tækni og hæfileika þarf til að komast þessa leið.
Þar sem ég tyllti stórutá hægrifótar milli tveggja snjóbræðsluröra með tölvutöskuna í annari og hina höndina á hurðarhúninum, tilbúin til að taka lokastökkið, drundi í öðrum manninum Þú kemst ekki inn þarna og því næst tilkynnti hann, með nokkru stolti í röddinni, Það á að fara að steypa. Það verður að viðurkennast að ég deildi ekki þessum spenningi með manninum og ef ég á að vera algerlega hreinskilin þá hvæsti ég eitthvað velvalið meðan ég barðist við að komast heilu og höldnu út úr þrautabrautinni til þess að leita mér að nýrri inngönguleið inn í húsið. Mér fannst nefnilega að maðurinn hefði vel mátt nefna þetta við mig örlítið fyrr, til dæmis áður en ég lagði í þautagönguna að útidyrunum ..
Upp úr hádeginu var svo búið að dæla umtalsvert mörgum rúmmetrum af steypu á hlaðið sem enginn kemst nú yfir nema fuglinn fljúgandi. Til að komast út þurfti ég að skríða í gegnum 70 cm op sem alla jafna er ætlað fyrir köfnunarefniskúta. Ég bíð því spennt eftir að sjá hvaða þrautir verða lagðar fyrir mig á morgunn og jafnframt mun ég fara þess á leit við Bændasamtökin að þau greiði mér áhættuþóknun og bónus fyrir einlægan ásetning minn til þess að komast til og frá vinnu. Ég bíð líka spennt að sjá hvort einhverjir örlítið umfangsmeiri samstarfsmenn mínir mæti til vinnu á morgun. Tilhugsunin um að sjá þá reyna að smjúga í gegnum kútagatið kallar fram minningu um sögu af Bangsimon sem festist í tréinu hjá Kaniku....................
Lifið heil
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2010 | 16:48
Panikkkkkkkk
Jæja gott fólk, ég er náttúrulega engan vegin að standa mig í blogginu þrátt fyrir öll fögur loforð sem gefin hafa veri um hið gagnstæða. Ég þykist nú samt geta afsakað þetta að einhverju leiti með því að ég hafi haft óvenju mikið að gera upp á síðkastið en auðvitað er það léleg afsökun. Eiginlega er það bara engin afsökun því auðvitað segir það manni bara það að ég nýti ekki þessa 24 tíma í sólarhringnum sem skyldi. Maður verður því líklega að herða sig.
Annars lauk "sumarfríinu" um leið og páskunum og þá varð fjandinn laus. Ekki laust við að smá panikk gripi um sig hjá undirritaðri enda virtist verkefnalisti hvers dags alls ekki rúmast innan þessara áðurnefndu tuttuguogfjögurra tíma sem manni eru úthlutaðir í hverjum sólarhring. Einhvernvegin hafðist þetta þó og auk þess taka reiðpróf, frumtamningapróf og taka þátt í Skeifudegi. Brúnn lét af óspektunum rétt svo nógu lengi til þess að við gætum tekið frumtamningaprófið tiltölulega skammlaust en að sjálfsögðu stóð Litli-Rauður sig eins og hetja og lönduðum við að lokum 4 sæti í keppninni um Gunnarsbikarinn. Vorum við bæði ákaflega stolt af frammistöðu okkar enda ekki svo ýkja langt síðan við háðum frumraun okkar á keppnisvellinum, bæði tvö skjálfandi á beinunum.
En nú eru hross komin í frí norður í land enda komin tími á að sinna nautgripum og hugsanlega sauðfé í hjáverkum. Kúaskoðanir eru á dagskrá bæði í Skagafirði og Eyjafirði og að þeim loknum ætla ég að taka smá sauðburðarfrí og skella mér heim á ættaróðalið. Ég á þar von á þrílembingum úr henni Botnu minni og vissara að vera sjálf á staðnum til ljósmóðurstarfa enda væri Hákon bróðir vís með að klúðra þessu algerlega
Síðan standa flutningar fyrir dyrum þar sem ég hef hug á að færa mig upp úr holunni Hvanneyri og heldur lengra upp í sveit enda sollurinn hér í þéttbýlinu engin staður fyrir saklausa sveitastúlku eins og mig. Sumarið er svo á næsta leiti og verður því eftir fremsta megni eytt norðan heiða þar sem fjöllin eru fallegri, grasið grænna og veðrið betra en nokkurs staðar annars staðar.
Jeyjjjj!!!!!
Skelli hér inn að lokum mynd af okkur Litla-Rauð á Skeifudaginn. Vek sérstaka athygli á töktunum hjá Reyni þar sem hann veitir okkur stuðning við að komast yfir hindrunina
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2010 | 21:27
Stutt uppdate
Það er nokkuð síðan síðasta blogfærsla leit dagsins ljós enda bókstaflega búið að vera brjálað að gera á öllum vígstöðvum.
Það er nú farið að síga á seinnihlutann í hrossaræktaráfanganum enda er Skeifudagur á fimmtudaginn. Við Brúnn tókum frumtamningarprófið í dag og verður að segjast að miðað við gengi síðustu tveggja vikna má svo sannarlega segja að við höfum toppað á réttum tíma og ekki laust við að við værum bara ánægð með okkur þegar við trítluðum út úr höllinni. Við Rauður förum svo í knapamerkjaprófið á morgun. Tókum létta töltæfingu í kvöld svona til að hreyfa Rauðsa svolítið. Annars ætlum við Rauður að gerast sýningapar og sýna hindrunarstökk á Skeifudaginn ásamt tveim öðrum pörum, það verður eflaust stuð enda veit Rauður fátt meira spennandi en að fá að stökkva og ég er ekki frá því að mér finnist það bara svolítið gaman líka .
Nú hvað annað? Ég skrapp og skoðaði íbúð sem ég er með í sigtinu til að leigja. Leist ágætlega á íbúðina fyrir utan þá staðreynd að hún er óþrifin og full af drasli en því ætti nú að vera hægt að kippa í liðin svo sennilega verð ég bara flutt upp í sveit áður en langt um líður. Veiiiiiiiiiiiiiii
yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2010 | 00:07
Best að nota tímann............
.............og henda inn nokkrum línum þar sem ég er að bíða eftir að keyrsla klárist. Já góðir hálsar, ég er ennþá að vinna klukkan 23:45 á sunnudagskvöldi og get því sagt með sanni að vinnuvikurnar nái saman hjá mér.
Kom aftur úr "sumarfríi" á þriðjudaginn og þar með varð allt vitlaust. Því á ég nú bágt með að trúa því að fyrir viku síðan hafi ég ennþá verið í fríi. Það hlýtur bara að vera liðinn lengri tími. Allavegana þá er nóg að gera á öllum vígstöðvum. Það útskýrir líka þessa blogglausu daga sem liði hafa.
Þetta verður því stutt og laggott að þessu sinni ég verð nú að fara að sofa á einhverjum tímapunkti þar sem áætlað er að taka hlaup í fyrramálið, ef veður leyfir. Veðrið hefur nefnilega ekki leyft neina stórbrotna útivist upp á síðkastið. Fór í afmæli til Bebbu í gærkveldi sem haldið var á barnum. Þemað var 80´og fóru menn "all out" í búningavali. Til að gera langa sögu stutta þá braust ég heim af barnum rúmlega eitt í nótt í grenjandi rigningu og hífandi roki. Kom heim eins og hundur af sundi en þó skal geta þess að 80´hárgreiðslan hafði einna minnst látið á sjá og get ég því með sanni mælt með "Control Extra hold hairspray" sem fæst í apótekinu í Borgarnesi. Það er svo sannarlega "extra hold" en þó er "brushes out with ease" staðhæfingin sem stendur á brúsanum helber uppspuni þar sem massívan hárþvott þurfti til að koma hárlubbanum í eðlilega stöðu aftur.
Nú hvað annað. Útreiðar og tamningar ganga svona og svona. Rauður er sami ljúflingurinn og alltaf en Brúnn er með eilífðar skæting og hefur tekið upp þá aðferð að bíta í fætur knapans þegar hann er ekki sammála þeim áætlunum sem lagt er upp með. ÉG skarta því nokkrum skrautlegum marblettum á fótleggjunum þessa dagana. Að samráði við yfirmanninn hafa nú verið boðaðar hertar aðgerðir í samskiptum við Brún. Það styttist í próf og meðan við Rauður erum að verða nokkuð örugg með okkur fyrir knapamerkjaprófið þá gæti orðið spennandi að sjá hvort við Brúnn náum að stilla saman strengi okkar fyrir frumtamningaprófið .
Tími til stefnu er reyndar ekki svo mikill eða rétt rúm vika og sú vika er þéttskipuð. Reykjavík á morgun og Skagafjörður á þriðjudag og miðvikudag og þá er nú bara næstum komin helgi. Það er því líklega best að anda djúpt, setja undir sig höfuðið og taka þetta á ferðinni bara.........Eða hvað?
/GEH
Það
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2010 | 21:50
Fokk það er vinna á morgun
Þá eru þessir páskar búnir. Að sjálfsögðu gerði ég alls ekki allt sem ég ætlaði að gera í páskavikunni en hef þó líklega náð að slá fyrri met hvað varðar átgetu. Á móti kemur að ég hef verið dugleg að þjálfa hross og sjálfa mig líka og verða það að teljast mín helstu afrek þessa daga. Éta, drekka, hlaupa, riða út og sofa. Náð meira að segja að fara í fjós eitt kvöldið með Hákoni sem var ákaflega hressandi þó ég þekkti nú ekki einn einasta grip á svæðinu nema köttinn Ídu.
Nú mætti reyndar færa talsvert góð rök fyrir því að lífið ætti ekki að snúast um margt annað svona á löggiltum frídögum en þar sem ég burðast nú ennþá með doktorsverkefnið mitt á bakinu þá var nú meiningin að mjatla því eitthvað áfram þessa dag. Vissulega eru fleiri orð á blaði en voru fyrir viku síðan en betur má ef duga skal.
Hér ber það helst til tíðinda að rokið lægði í tvo heila daga rétt yfir blá-páskahelgina. Biðu innfæddir þá ekki boðana og tóku til við að kveikja í sinu í gríð og erg þannig að algerlega ólíft varð utandyra. Er ég nú algerlega sannfærð um að nærveru minnar sé bara alls ekki óskað hér vestanlands og leggjast þar á eitt heimamenn og veðurguðir, því um leið og veðurguðirnir taka sér smá frí er leitast við að svæla mann út með reyk.......................
..............En talandi um veðurguði, þá datt ég inn á ball með hinu margumtalaða kyntrölli allra landsmanna honum Ingó og Veðurguðunum hans. Skemmst er frá því að segja að þar er bara ágætis ballhljómsveit á ferð og kom það reyndar nokkuð á óvart. Reyndar hefði Ingó, blessaður karlinn, gjarnan mátt halda sig eingöngu við sönginn en sleppa öllu tali. Hann er nefnilega bara þræl flinkur söngvari, þó lítill sé (Ingó þ.e, hann er pínu lítill) en ég persónulega hafði ekki mikinn smekk fyrir "bröndurunum" hans (sem eru hér settir innan gæsalappa þar sem vafamál er hvort um brandara var að ræða). Ballið var hluti af stórmenningarferð minni á Hvammstanga í fylgd Þorbjargar Helgu en þar var haldin hin árlega söngvarakeppni Húnaþings vestra. Var þetta hin besta skemmtun og þrælflott bara hjá þeim þara fyrir vestan
Formleg hlaupaþjálfun hófst einnig í vikunni en stefnan er sett á þó nokkur spennandi hlaup næsta sumar. Mun hlaupavertíðin hefjast á Fjallaskokki yfir Vatnsnesið þann 19. júní en þar á ég bæði tíma að bæta og titil að verja síðan í fyrra . Þorvaldsdalsskokkið er einnig á dagskrá og svo stendur valið á milli Barðsneshlaupsins eða Jökulárhlaupsins, svona eftir því hvernig það passar við önnur plön. Annars fékk ég þá brilljant hugmynd um daginn að setja mér það markmið að hlaupa í öllum sýslum. Fór ég því inn á hlaupadagskrá á www.hlaup.is og skoðaði það sem var í boði. Skemmst er frá því að segja að flest allar betri sýslur buðu upp á hlaup af einhverju tagi nema Skagafjörður. Svo virðist vera að hlaup séu ekki stunduð innan sýslumarka Skagafjarðarsýslu og er því líklegt að ég verið að hoppa yfir hana á leið minni norður og austur fyrir land.
Annars eru sumarplönin óðum að taka á sig mynd. Stefnan er að reyna að hafast við fyrir norðan eins og mögulegt er í sumar. Fanney og ég erum með óvissuferð planaða og svo var nú meiningin að heilsa upp á útilegumanninn Mæju sem ætlar að hafast við á fjöllum í sumar (og ég er heldur ekki búin að gleyma afmælinu hans Mads). Norðanhittingur 2010 stendur til og ætli flestar helgar sumarsins séu þá ekki bókaðar. Það var þó stefnan láta þetta verða árið sem ég færi á Landsmót en við sjáum til með það.
Til þess að þetta allt geti nú átt sér stað þá verð ég víst að koma mér aftur að verki. Ritgerðin skrifar sig víst ekki sjálf (ég er búin að prófa þá taktík). Því segi ég yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2010 | 18:44
hugleiðingar í upphafi páska
Sjálfskipaðir fésbókarútlegð minni er hér með lokið, í bili að minnsta kosti. Ég hef þó bara farið einu sinni inn á fésið í dag, gagngert til að skoða myndirnar sem móðir mín setti inn af honum Blesa mínum en eins og flestir af mínum nánustu vinum og kunningjum vita þá lenti hann Blesi minn litli í hræðilegum hremmingum síðastliðið haust og gerðist í kjölfarið einn albesti viðskiptavinur dýralækna á Eyjafjarðarsvæðinu. Hann Blesi minn er nú sem sagt risin úr öskunni eins og Fönix forðum (sem var nú reyndar einhvers konar fugl en ekki hestur) öflugri og myndarlegri en nokkru sinni fyrir. Eftir stendur (karlmannlegt) ör á hægri afturfæti en slíkt ku vera vel þekkt á öðrum frægum gæðingum á Íslandi. ( á myndunum hér má sjá hann Blesa minn hraustan og sprækan nú í lok mars og hið karlmannlega ör)
Það var þó ekki meiningin að skrifa hér langan pistil um húsdýr en fyrst ég er byrjuð á annað borð þá get ég alveg eins haldið áfram enda ekki alveg tíðindalaust á þeim vígstöðvum. Það bar nefnilega til hér um daginn að hún Litla-Botna (Móa) mín lagðist niður og dó drottni sínum. Telja fróðir menn víst að það hafi verið langvarandi aðskilnaður við eiganda sinn sem fór með hana litla skinnið. Botna eldri (hér að neðan) virðist þó hafa gert ráð fyrir áföllum af þessu tagi seint á síðasta ári, þar sem fósturtalning leiddi í ljós að hún er kind eigi einsömul heldur gott betur og fari fram sem horfir þá mun hún bera þrem lömbum í vor. Þetta voru að sjálfsögðu hin ákjósanlegustu tíðindi fyrir eigandann (mig) enda geta ekki margir fjárbændur státað af þeirri frábæru frjósemi að eiga von á þremur lömbum á kind í vor. Þetta eru einnig ákjósanleg tíðindi fyrir Botnu eldri þar sem hún er ákaflega hlynt hverskonar sérmeðferðum og finnst sjálfasagður hlutur að henni séu færar lúkur af byggi, brauðbiti eða eitthvað annað gómsætt þegar menn koma í fjárhúsin og alveg bókað mál að væntanleg þrílembingavon mun síður en svo draga úr slíkum aukabitum.
Nú annar er allt meinhægt á öðrum vígstöðvum. Þeir Litli-Rauður og Stóri-Brúnn stunda æfingar af kappi. Reynar er nú svo þessa dagana að Litli-Rauður er mun kappsamari en Stóri-Brúnn þessa dagana og brokkar eins og engill (hvernig svo sem það er nú) í stóra og litla hringi, stekkur hindranir og bætir í yfirferðina á tölti með hverjum deginum. Litla-Jörp er eftir sem áður dyggur stuðningsmaður við tamningarnar og tekur öllum fíflagangi í Stóra-Brún með jafnaðargeði (eða því sem næst).
Það er nú eiginlega ekki hægt að blogga án þess að minnast á veðrið en það hefur verið einstaklega ömurlegt síðastliðna daga með tilheyrandi geðvonsku undirritaðrar. Hér brast á fyrir nokkrum dögum hið hefðbundna Borgfirska vetrarveður með norðaustanroki og brunagaddi svo varla er hundi út sigandi. Okkar ágæta veðurstöð, sem staðsett er í miðju Hvanneyrarstaðar, lýgur sem aldrei fyrr með veðurlýsingum sem hljóma upp á hámark tveggja stiga frost og 8 m/sek sem er, eins og áður sagði, HELVÍTIS LYGI!!! Í geðvonsku minni og einlægum ásetningi að láta veðrið ekki stjórna mér, stundaði ég því útreiðar úti í morgun og kom heim tveim tímum seinna frost og vindþurrkuð á við góðan skerpukjötsbita
Ég hef reyndar lengi velt fyrir mér staðsetningu veðurstöðvarinnar á Hvanneyri. Eftir miklar vangaveltur og geðvonsku yfir ónákvæmum veðurlýsingum og spám hef ég komist að þeirri niðurstöðu að í raun og veru sé staðsetning veðurstöðvarinnar ákaflega strategísk og raunverulegur tilgangur stöðvarinnar sé ekki að útvarpa sönnum veðurlýsingum heldur að viðhalda byggð á Eyrinni. Þannig er nefnilega mál með vöxtum að Hvanneyri er landfræðilega staðsett á þann hátt að sólskini fylgir norðanátt en öllum hlýrri vindáttum fylgir rigning. Hér er því aldrei almennilega hlýtt. Það er því lán í óláni að stór hluti íbúa Hvanneyrar verða lítið varir við kuldann. Menn keyra á hverjum degi í vinnuna, keyra börnin sín í leikskólann og keyra í kaffi til nágrannans. Og jú víst er veðrið fallegt út um bílgluggann, með miðstöðina í botni. Garðurinn og þar með útigrillið er í skjóli sunnan við hús sem er ákaflega heppilegt því útivist staðarbúa fellst mestmegnis í garðvinnu og grillveislum þar sem nágrannar geta rætt veðurblíðuna sunnan við hús yfir limgerðið og jú það er vissulega staðfest af veðurstöðinni góðu sem staðsett er í góðu skjóli í hjarta Hvanneyrarstaðar. Við hin sem stundum útivist sem krefst meira rýmis en gert er ráð fyrir í einum garði eða ætlumst til að geta farið út að hlaupa eða hjóla með reglulegu millibili getum gert annað af tvennu. Klætt okkur vel og bitið á jaxlinn eða flutt................ Ég hallast að því að ég þurfi að flytja
/GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2010 | 23:22
Skattskil
Ég er svo gömul að ég man glöggt þá tíma er ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og heldur ekki neitt sjónvarp megnið af sumartímanum. Það fannst manni, á þeim tíma, ekkert tiltökumál og því vil ég leyfa mér að stinga upp á sparnaðarleið fyrir RUV sem fellst í því að hafa sjónvarpslausa miðvikudaga. Það sem sést á skjánum a miðvikudagskvöldum getur hvort sem er ekki einu sinni með góðum vilja, kallast sjónvarpsefni. Undantekningin á þessu er að sjálfsögðu Bragi bóksali en honum mætti sem best koma fyrir annars staðar. Persónulega væri ég alveg til í að sjá helvítis danska trúðsfíflinu skipt út fyrir Braga og þá væri þeim málum borgið. Við þessa ráðstöfun myndi eflaust sparast umtalsverður peningur og jafnvel gæti RUV, splæst í eins og eina sæmilega bíómynd stöku sinnum.
En nóg af sjónvarpsdagskrá. Hver hefur svo sem tíma til að horfa á sjónvarp þessa dagana því nú er jú einmitt hin árlegi skattaskýrslutími. Í tilefni þess sá ég ekki aðra kosti í stöðunni en að sökkva mér í bókhaldið. Þeir fáu sem eru þess heiðurs aðnjótandi að fá að koma í heimsókn í slotið til mín hafa eflaust tekið eftir hinu háþróaða bókhaldskerfi sem ég nota. Það fellst aðallega í því að öllum reikningum, kvittunum, launaseðlum og öðru slíku er samviskusamlega troðið í þar til gerðan tágavasa sem staðsettur er við hliðina á eldavélinni. Staðsetningin er mjög "strategísk"því bæði er tágavasinn algerlega í "alfara leið" og því mjög hentugt að troða í vasann auk þess sem svo heppilega gæti viljað til, einhvern daginn, að það kviknaði í öllu helvítis draslinu sem myndi náttúrulega einfalda bókhaldið til muna.
Það verður nú að segjast eins og er að ég er mjög skilvirk þegar kemur að bókhaldi og eyði ekki tíma í óþarfa. Mér finnst til dæmis alger óþarfi að opna allan gluggapóstinn sem ég fæ inn um bréfalúguna enda koma allir reikningar inn á heimabankann auk þess sem sum umslög eru mjög fyrirsjáanleg og því óþarfi að eyða orku og tíma í þau.
Þó virðist ég þurfa að þjálfa örlítið spádómsgáfu mína varðandi innihald gluggaumslaga. Eins og áður hefur komið fram er skattaskýrslutími núna og því var ekki eftir neinu að bíða og snaraði ég mér í það að tæma tágavasann og sortera innihaldið. Af því tækifæri taldi ég rétt að grynnka aðeins á pappírnum og losa mig við eitthvað af þessum umslögum. Væri ég heppin mætti jafnvel henda einhverju af innihaldinu líka. Allt var þetta nú eftir bókinni fyrst um sinni. Upp úr óopnuðu umslögunum komu launaseðlar, húsaleigureikningar og reikningsyfirlit frá bankanum. Ekkert óvænt enda allt vel kunnugar staðreyndir úr heimabankanum. Þó kom að því að úr bunkanum kom óopnað umslag frá Kaupþingi (þetta er ekki misritun, umslagið var frá Kaupþingi en ekki Aríonbanka). Upp úr umslaginu dró ég þykkt bréf sem hófst eitthvað á þessa leið.
Kæri viðskiptavinur. Meðfylgjandi þessu bréfi er nýtt debetkort............. ÚPS!!!
Einhvern tíman á síðastliðnu ári (fyrir stofnun Aríonbanka) rann einmitt gamla debetkortið mitt út. Að sjálfsögðu uppgötvaði ég það ekki fyrr en ég ætlaði að borga með því einhversstaðar og varð því eðlilega fremur örg yfir þeirri dæmalausu yfirsjón bankamannanna að hafa ekki hundskast til að senda mér nýtt debetkort. Stímaði ég því umsvifalaust í útibúið í Borgarnesi alsendis ekki sátt við þjónustu bankans. Bankamenn brugðust umsvifalaust við og útveguðu nýtt kort enda þeir jafn grunlausir og ég um að nýja kortið lægi kirfilega pakkað ofan í bókhaldskerfinu mínu heima. Nú á ég hins vegar tvö debetkort og verður því næsta verkefni að athuga hvort þau séu bæði virk.
Ekki voru öll umslög uppurin þegar debetkortið fannst og hélt ég því ótrauð í gegnum bunkann. Nokkrum bréfum seinna dúkkað upp annað bankaumslag en að þessu sinni merkt Aríonbanka. Upp úr því dró ég bréf sem hófst eitthvað á þessa leið.
Kæri viðskiptavinur. Meðfylgjandi þessu bréfi er ávísun vegna endurgreiðslu e-korts............ ÚPS!!!!
Mögulega þarf ég að endurskoða eitthvað bókhaldskerfi mitt eða einfaldlega standa mig betur í að opna póstinn minn. Ég vil þó freistast til að halda því fram að hluti af sökinni liggi hjá hinum óútreiknanlegu íslensku bönkum enda hafa þeir skipt um nafn og kennitölu álíka oft eins og við hin skiptum um sokka og ekki óeðlilegt að menn ruglist örlítið í ríminu við allar þessar sviptingar. Að þessu tilefni vil ég þá gjarnan þakka Landbúnaðarháskólanum, Bændasamtökunum og RARIK fyrir að viðhalda ákveðnum stöðugleika í póstsendingum sínum enda feilaði ég ekki á einu einasta bréfi er barst frá þessum aðilum
yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Hin mjög svo ört vaxandi barnahópur
Fjölskylda sem stækkar með veldisvexti
Aðrir ágætir
Nokkrar síður vina og kunningja - Aðallega Hvanneyringa
- Sigga Dóra
- Vigdís Garðars
- Kolla-n
- Sveitalubbinn úr Húnavatnssýslunni
- Larfurinn hann Óðinn
- Jón Gunnar
Fjölskyldubloggarar
Bloggsíður hina ýmsustu fjölskyldumeðlima
Bloggvinir
Eldri færslur
- Apríl 2011
- September 2010
- Ágúst 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Júlí 2009
- Mars 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar