fyrirbyggjandi aðgerðir

Jæja, ekki vildi doksi gera neitt fyrir mig og öxlina mína.  Það ku ekki vera venjan að gera neitt fyrr en menn eru farnir að detta sí og æ úr axlarliðnum sem verður víst oft vandamál ef menn hafa einu sinni farið úr liðnum.  Ég benti honum kurteislega á að það væri nú einmitt það sem ég vildi svo gjarnan forðast því einhverra hluta vegna geng ég með þá dillu í kollinum að það sé betra að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða en að láta allt fara til andskotans áður en nokkuð er að gert.

Sennilega verð ég að grípa til baggaspottans Crying


Ellimerki

Vil þakka Frikka fyrir góð ráð varðandi sálarró starfsmanna landbúnaðarháskóla, líklega veitir ekki af á stundum.  Held samt að ég ætti ekki að stunda mikinn jóga þar sem ég virðist geta slakað nógu vel á, og eiginlega allt of vel þar sem mér hættir til að fara úr hægri axlarliðnum við það eitt að sofa !!!!  Veit að þetta hljómar fádæmalega heimskulega en er nú samt satt.  Hef reyndar aldrei alveg farið úr liðnum en var býsna nærri því hérna fyrir um 4 nóttum síðan og var farin að velta fyrir mér í hvern ég gæti hringt um miðja nótt til að, í fyrsta lagi að hjálpa mér í fötin og síðan að keyra mig til læknis til að láta kippa mér í liðinn. 

Ég hef því ákveðið að bera þetta mjög svo hvimleiða vandamál undr doksa, þetta er nefnilega frekar sárt skal ég bara segja ykkur og fremur óþægilegt móment meðan maður veltir fyrir sér hvort þetta hrökkvi nú til baka eða hreinlega fari alla leið.  Svo maður tali nú ekki um þá staðreynd að þetta skulu alltaf gerast á nóttinni sem þýðir það að maður þyrfti að byrja á því að týna á sig spjarirnar, sem ég held að sé ekki sérstaklega þægilegt í þessu ástandi og ræsa síðan út liðsafla um miðja nótt til að transporta manni undir læknishendur.  Að vísu minnir mig nú að Daði gangnakarl hafi í mörg ár farið í göngur með okkur fótbrotinn svo kannski er mér ekki ofgott að kippa sjálfri mér í axlarliðinn annað slagið.  Held nú samt að ég vilji frekar sleppa við það ef það er mögulegt. 

Ég hef líka mikið velt þvi fyrir mér hvort þetta sé hreinlega ellimerki, að ég sé bara að liðast í sundur eins og oft vill koma fyrir hluti þegar þeir verða gamlir, sérstaklega ef þeir eru ekki mjög burðugir fyrir, kannski þarf bara að smella á mig nokkrum baggaspottum, eða jafnvel splæsa eins og einum eða tveimum nöglum.  Ætti kannski að skamma mömmu fyrir að hafa ekki vandað sig nóg við smíðina upphaflega.

En svo við snúum okkur nú að öðrum sálmum þá býst ég ekki við að geta verslað spaghettíkindina af Jolla nema náttúrulega að ég flytji í Dalina sem í sjálfu sér hljómar nú ekki endilega svo illa en er nú samt ekki á plönunum í nánustu framtíð.  Við systkinin verðum þvi að líta okkur nær við innkaupin og þurfum svo sem ekki að leita langt út fyrir landamerkin.

En nú tel ég réttast að fá sér eitthvað að snæða því fötin mín virðast hafa stækkað meðan ég var í smalafríinu og því rétt að gæta þess að ég skreppi ekki meira saman.  Síðan virðist mér að ég muni vera einasta manneskjan á gervöllu Íslandi sem ekki ætlar einhversstaðar í stóðrétt um helgina þannig að ég sé fram á svona "Palli var einn í heiminum" stemningu um helgina

yfir og út

GEH 

 

 


Spaghettíkindur og "stóra" símamálið

Já ég verð nú að taka undir með Hákoni bróður varðandi hana Madonnu hennar Kollu og spaghettíið, en kannski er þetta vísir að nýrri búgrein sem getur komið sauðfjárbændum á hinum afskekktari svæðum Íslands til bjargar nú á hinum síðustu og verstu tímum.  Kannski eru spaghettíkindur málið.  Kannski er hægt að segja að langar og mjóar kindur séu spaghettíkindur, ergo, forystukindur eru þá spaghettíkindur.  Við Hákon erum að hugsa um að kaupa okkur spaghettíkind nú í haust. 

Annars ákvað ég, eftir að hafa setið yfir gerð kennsluáætlunar í drjúga stund, að fá mér glas af hvítvíni og deila með ykkur "stóra" símamálinu. 

Þannig er mál með vexti að nú í lok sumars fluttum við útlagarnir úr Gamla skóla í nýjar og fínar skrifstofur á annarri hæð Ásgarðs.  Vorum við Elsa settar saman á skrifstofu sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi en þegar fyrirskipanir komu um flutninga þá var hvorki tölvusamband né sími á nýju skrifstofunni.  Tölvusambandi datt þó inn eftir um 2 vikur eða svo svo ég flutti á skrifstofuna og beið þolinmóð eftir að síminn kæmist í gagnið, enda stundum gott að vera símalaus í smá tíma.

Nú á haustdögum eftir að við Elsa vorum búnar að deila skrifstofu í um það bil einn mánuð sáum við að eitthvað var farið að gerast í símamálum á hæðinni og einn daginn birtust menn með græjur til að mæla tengla og gerðu sig líklega til að gera eitthvað tækniundur í framhaldi af því.  Og jú jú, skömmu siðar birtist sími á borðinu hjá Elsu sem virkaði og allt.  Ég beið því eins þolinmóð og mér er mögulegt eftir því að minn sími birtist líka.  Eftir að nokkur tími hafði liðið án þess að nokkur sími birtist, fór ég að íhuga að mynna fólk á það að mig vantaði nú reyndar ennþá símann minn og næst þegar ég rakst á tölvumann mynnti ég hann kurteislega á það að ég væri nú ekki ennþá búin að fá síma.  Maðurinn horfði á mig í forundran og tjáði mér það að það væri ekki á dagskránni enda hlytum við að geta bjargað okkur þarna saman með einn síma.

Nú held ég að ég verði að snúa mér að dálitlum umhverfislýsingum svo að þið lesendur góðir getið fengið nokkra hugmynd um útlit skrifstofunnar okkar áður en lengra er haldið í sögunni.

Skrifborðin okkar Elsu snúa á móti hvoru örðu og er glerskilrúm á milli, sem er það hátt að talsverða viðleitni þarf til að tegja sig yfir og eiginlega þarf að klifra upp á skrifborðið til þess að ná almennilega yfir til nágrannans.  Við stóðum því frami fyrir tveim mögulegum lausnum

A) við myndum setja símtækið góða í gluggakistuna mitt á milli okkar tveggja sem er það sameiginlega svæði sem liggur næst okkur.  Það hins vegar kosta það til þess að nota umrætt símtæki þurfum við að standa upp og teygja okkur á tá til þess að ná í græjuna og guð forði okkur ef við veðjum á vitlausan hest og Elsa svaraði nú óvart símtali sem væri ætlað mér, því það kostar stórkostlegar tilfæringar, teygingar og réttingar til að koma símtólinu í réttar hendur.  Það verður að segjast eins og er að við Elsa skemmtum okkur konunglega við að prófa hinar ýmsustu útfærslur af símastaðsetningum og aðferðafræði við sameiginlega símasvörun.

B) hinn möguleikinn er náttúrulega einfaldlega sá að hafa símtækið á borðinu hennar Elsu, þar sem það var upprunalega sett.  Það þýðir vissulega að önnur okkar getur svarað og hringt úr viðkomandi símtæki án mikilli tilfæringa en þyrfti þá á móti að þola það að hin (ég samkvæmt þessari uppsetningu) talaði í síman yfir öxlina á henni hvenær sem ég þyrfti að notast við hið dýrmæta símtæki.

Hvorugur kosturinn þykir mér mjög aðlaðandi auk þess sem ég tel að ef kostnaður við eitt símtæki verður það sem kemur til með að ríða Landbúnaðarháskóla Íslands að fullu þá get ég alveg eins hætt núna strax því líklega er þá endirinn nærri.  Ég hef því ákveðið að leggjast í nokkurskonar símakrossferð. 

Var búin að velta fyrir mér nokkrum mögulegum aðferðum.  Ein var að biðja kurteislega um síma en ég hætti fljótlega við það þar sem að mér þótti það ekki líklegt til árangurs.  Önnur var að senda LbhÍ reikning vegna notkunar á prívat GSM-síma í símaleysinu en einhverra hluta vegna þótti mér ekki líklegt að það bæri nokkurn árangur heldur.  Þriðji möguleikinn var að kaupa hreinlega símtæki sjálf, en við nánari umhugsun þá dró ég þá ályktun að fyrst það væri ekki á færi stofnunarinnar þá væri jaðraði það líklega við mikilmennskubrjálæði að ætla mínu prívatfjárhag að standa undir slíkum fjárfestingum.  Ég ákvað því að enginn af ofarnefndum lausnum væri fýsileg svo skæruhernaður varð fyrir valinu.

Ég mun þvi verða sambandslaus við umheiminn um óskilgreinda framtíð. 
Af augljósum ástæðum mun ekki verða hægt að ná í mig í síma á skrifstofunni. 
Ég mun minna tölvumanninn reglulega á það að ég sé ennþá að bíða eftir símanum mínum eins og ég hafi engar efasemdir um að símtækið sé bara rétt ókomið og ég hafi aldrei heyrt stakt orð um að nokkuð annað sé í kortunum
Þeir sem þurfa að tala við mig verða að rölta við á skrifstofunni hjá mér og svo er nú Íslandspóstur ennþá starfandi og það ku ekki taka nema einn sólarhring (max 2) fyrir bréf að komast til skila í A-pósti.

Ég er að spá í að opna veðbanka þar sem tekið verður við ágiskunum um árangur þessa skæruhernaðar.  Ég sjálf er ekkert ofurbjartsýn og tel að ef einhvers árangurs er að vænta þá komi hann ekki fram fyrr en í fyrsta lagi eftir 5-6 mánuði.  Hvað sem öðru líður þá mun ég gera mitt besta til að koma með nýjustu fréttir af "stóra" símamálinu jafnóðum og þær gerast og ég hef þá að minnsta kosti eitthvað til að skemmta mér yfir á meðan

Látum nú fyrsta pistli um stóra símamálið lokið

GEH


I m back

Long time .... o.s.fr.

Þá er sumarfríið búið, því miður.  Var ekki alveg tilbúin að yfirgefa sveitina í gær en svo varð nú að vera.  Frábærar tvær vikur í smalamennskum og öðru kindastússi og maður barasta endurnærður á sál og líkama.  Geðheilsunni bjargað eitthvað fram á veturinn en nú tekur grár hversdagsleikinn við og hann er svo sannarlega grár enda afar þungbúið á Vesturlandinu í dag

Annars er það helst að frétta að Litla-Jörp stóð sig með stakri prýði í smalamennskunum.  Var ekki alveg viss svona fyrirfram en hún reyndist hin mesti nagli svo nú þykist ég vera mjög svo stoltur eigandi bæði reiðhross og gangnahross, sem ekki alltaf fer saman í einum og sama hestinum

Ég heimti reyndar ekki allt mitt fé af fjalli og reyndar má segja að heimtur hafi ekki verið nógu góðar hjá mér ef horft er á hlutfallstölur þar sem mig vantar 25% af lömbunum mínum.  Sem er að vísu bara eitt lamb þar sem fjáreignin er nú ekki mikil.  Botna mín mætti þó í réttirnar eins og sást á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 12. september síðastliðinn.  Augljósir smekkmenn þessir ljósmyndarar Morgunblaðsins.

En nóg af búfjárfréttum í bili

Yfir og út aftur af eyrinni

GEH


haust

Nú held ég að sumarið sé búið, fyrsti september á morgun og fyrsta kvef vetrarins komið í hús.

Hér ríkir annars mikil spenna, fæ ég ferð fyrir hryssurnar mínar norður eða ekki.  Hestaflutningar virðast nær dauð atvinnugrein á Íslandi.

Drykkur dagsins er te með hunangi sítrónu og smá wiský og hann verður drukkin undir teppi fyrir framan sjónvarpið í kvöld

yfir og út

GEH

 


HeHe

Já Siggi minn þú ert alveg saklaus og jú jú, það er allt í lagi hér.  Mjög svo langvinn neikvæð samskipti við ákveðna manneskju, sem reyndar er kona (svo það sé á hreinu Kolla), náðu ákveðnu hámarki í gær.  Sumt nennir maður bara ekki að standa í og nú hefur verið tekin sú ákvörðun að vinnan verði skilin eftir heima þegar farið er af skrifstofunni.  Punktur. 

Vildi annars bara koma þessu á hreint.  Er í nokkuð góðum húmor eftir grill, hvítvín og bjór í góðum félagsskap og á leiðinni í háttin.  Þorbjörg og Berglind, takk fyrir skemmtilegt kvöld :-)

Góða nótt !


Örstutt um hálfvita

Vaááá hvað það getur snögg fokið í mann stundum og maður sannfærist endanlega um að sumt fólk er einfaldlega bara STÓRT FÍFL!!!!!.  Nú er sko pottþétt einhver með hiksta núna en eiga það svo sannarlega skilið.

HÁLFVITAR!!!!!!!!!! 

Á svona mómentum fær maður sér bjór, blótar hraustlega.  Og ekki orð um það meir


Og tíminn flýgur

Já ég veit, lélegt að vera ekki búin að blogga um "strákana okkar" sem eru reyndar mjög flottir og allt það, sumir flottari en aðrir.  Væri sko til í að lenda á spjalli við Ólaf Stefánsson.  Maðurinn er alger snillingur og augljóslega frábærlega þenkjandi maður.

Er heldur ekki búin að segja neitt um Dorrit og "stórasta land í heimi" enda finnst mér Dorrit alltaf flott og ástæðulaust að tjá sig meira um það. 

Ég hef meiri áhuga á aðvífandi sumarfríi, langþráðu mjög, sem ég held að ég hafi tímasett mjög svo vel.  Finn nefnilega brjálæðið nálgast eftir rólegir tíma þar sem aðrir voru í sumarfríi.  Því er tilvalið að hlaupa í burtu núna og einbeita sér að smalamennskum, fjárragi og kannski smá skytteríi með Hákoni bróður. 

Það er þá líka kannski möguleiki að skrifstofan mín verði komin í samband við umheiminn þegar ég kem til baka.  Mér sýnist að tímatal Landbúnaðarháskóla Íslands hlaupi á vikum en ekki mínútum og sekúndum eins og annarsstaðar tíðkast.  Og vá hvað tíminn er fljótur að fljúga hjá þegar svoleiðis tímatal er notað.

 


samsæri

Bara pínu um íslenska pólitík og samsæriskenningar 

Mér sýnist að nú eigi að draga athyglina frá borgarstjórnar-fíaskói með því að opinbera einhver gömul leyndarmál um peningamál forsetans sem einhver maður ku hafa skrifað samviskusamlega hjá sér.  Sá maður var jú víst ritstjóri Moggans, en það er sjálfsagt helber tilviljun að þetta tvennt fer saman.

Merkilegt nokk, þá er ég nýbúin ræða þessa ótrúlegu þráhyggju margra Sjálfstæðismanna gagnvart forsetanum, við ágætan ónefndan sjálfstæðismann.  Ég skil svo sem alveg að það hafi verið pínu erfitt, fyrir suma, að kyngja hugmyndinni um Ólaf Ragnar sem forseta en fyrr má nú aldeilis fyrr vera að það taki meira en áratug.  Mér finnst sú staðreynd að menn virðast ekki hafa neitt annað þarfara við tíman að gera eiginlega mun merkilegra en meint fjármálaóreiða. 

Svo um þetta hef ég aðeins eitt að segja. 

Maðurinn er lýðræðislega kjörinn forseti.   GET OVER IT!!!!!!!

GEH

P.S
Svo er Dorrit nú alltaf flott Smile


Haustkvöld

Það er pottþétt komið haust, úti er kolniðamyrkur.  Og hvað gerir maður sér svo til dundurs á Hvanneyri á síðsumarskvöldi.  Jú maður vinnur.  Það er  algerlega útilokað að nokkur maður geti lifað meira spennandi líf en ég geri.  Enda bý ég á Hvanneyri, nafla alheimsins þar sem engin dagur er frábrugðin öðrum.  Náði að segja heil 5 eða 6 orð við aðra manneskju í dag.  Sú manneskja var Keli sem var einmitt að sækja kýrnar þegar við Skjóna komum úr reiðtúr.  Hann var líka einasta manneskjan sem ég sá í návígi í dag.  Það var einskær heppni og tilviljun, held ég. 

Til þess að varna því að varirnar grói saman eða að ég gleymi hvernig á að hreyfa þær til að mynda hljóð, þá spjalla ég við hryssurnar mínar.  Litla Jörp er orðin svo vön þessu að hún hlýðir röddinni minni jafn vel og taumunum.  Skjóna er ekki alveg búin að fatta þetta eins vel, enda hef ég talað við hana í mun styttri tíma.  Þetta er þó fljót að læra blessunin og á eftir að finna út úr þessu. 

En nú er klukkan orðin miðnætti og því hef ég um tvennt að velja:

A: Fara að sofa

B: Bíða eftir handboltaleiknum

En í öllu falli þá ætla ég að slökkva á tölvunni

 GEH


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 477

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband