"hmmph"

Æ ég er bara eitthvað verulega illa upplögð núna seinnipartinn.  Því ætla ég að þusa aðeins hérna inni og vona að með því fái ég útrás fyrir pirringinn og allt verði gott á ný.  Held að ég sé að láta veðrið angra mig eitthvað.  Það er nú reyndar ákaflega ógáfulegt að gera það, ef maður ætlar að búa á Hvanneyri, en stundum ræður maður ekki við þetta, sérstaklega þegar boðið er upp á marga daga í röð af skítveðri þar sem jöfnum höndum fer, rigning, slydda og snjókoma.  Eini fastinn í þessari jöfnu er rokið sem aldrei lætur deigan síga, hvað sem tautar og raular.  Einhverjir myndu kannski segja að það væri þá alltént gott að geta gengið að einhverju vísu en ég er bara alls ekki í stuði fyrir svoleiðis Pollýönnuleik akkúrat núna. 

Til að kóróna allt saman, þá telur hið ágæta sveitarfélag Borgarbyggð að það sé nú tvímælalaus sóun á peningum skattborgarana, að hreinsa götur og moka snjó.  Hvað er líka skemmtilegra en að vaða snjó og krapa upp á mið læri.  Auk þess þá er maður, með þessu móti, svo miklu stöðugri á svellinu sem liggur undir krapaflóðinu og því minni líkur á að menn detti.  Fari svo ólíklega að einhverjum takist þrátt fyrir allt að detta, nú þá er lendingin alltént tiltölulega mjúk þó svo einhverjum kynni að finnast heldur kalt að baða sig í krapapollunum en það verður nú að teljast smámunasemi og hreinn og beinn aumingjaskapur.  

Já Borgarbyggð sér um þegna sína það er ekki spurning.  Þarna hafa líka verið slegnar tvær flugur í einu höggi því snjórinn og ísinn hefur samviskusamlega fyllt upp í allar holurnar sem í nokkur misseri hefur láðst að laga og því er aftur orðið fært fyrri Peugeot-inn minn niður aðkeyrsluna að nemendagörðunum.  Að vísu þarf ég að taka bílastæðið á ferðinni og muna eftir að gera ráð fyrir viðnám krapaelgsins og vindmótstöðu til að geta reikað út hæfilega hröðun miðað við þá vegalengd sem ég þarf að fleyta Peugeot-inum til að koma honum í stæði.  Fari ég of hratt næ ég ekki að beygja upp á stæðið en fari ég oft hægt er viðbúið að bíllinn stöðvist áður en að stæðinu er komið og þá er ég í vondum málum því ég á ekki vöðlur og yrði því líklega að dúsa í bílnum þar til vorar eða starfsmenn Borgarbyggðar komi til að hreinsa bílastæðið, hvort heldur sem gerist nú fyrr.

Þetta er Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir sem talar úr veðurparsdísinni Borgarfirði sem var, ef mér skjátlast ekki, kosin veðursælasti staður Íslands síðastliðið sumar.  Það skal þó geta þess að það voru heimamenn sjálfir sem kusu og líklega verður að gera ráð fyrir að þeir séu einfaldlega ekki vanir neinu skárra.

GEH

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Kolbeinsdóttir

Leiðinlegt með veðrið - ég vona að það rætist úr þessu fljótlega. Stöðugur vindgangur er hræðilega pirrandi og rokið einmitt það sem ég sakna minnst frá Íslandi.

Vona að það rætist úr þessu með hækkandi sól - takk fyrir skemmtilega pistla hér á blogginu!

Kolbrún Kolbeinsdóttir, 11.2.2008 kl. 19:11

2 identicon

Það voru fleiri sem misstu af þorrablótinu sökum veðurs!! Kom til landsins á laugardaginn kl. 15 og hefði getað brunað austur á kagganum mínum og náð þorrablótinu það kvöldið ef ekki hefði verið rokk og slydda!! En svona er nú víst að búa á Fróni. Perú bauð upp á mun stabýlla veður, sól þegar var sól og rigning þegar var rigning.. Ekki rigning og rok

Þórey (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 423

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband