Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

fimmtudagskvöld

Ég tek mína nýju köllun sem málfarsfastista mjög alvarlega.  Ég fór meira að segja í smá upprifjun í gærkveldi og ákvað að ég þyrfti að fjárfesta í málfræðibók, til þess að geta flett upp hinum og þessum vafaatriðum.  Svo langaði mig að benda á eina staðreynd í framhaldi af allri þessari umræðu um útlendinga sem ekki tala íslensku.  Staðreyndin er nefnilega sú að ég er sí og æ að hitta íslendinga sem ekki tala íslensku.  Hvernig væri að byrja á að laga það

kveðja

Gunnfríður


málfarsfasistinn

Síðasta vor ætlaði ég að gera svo margt í haust, eitt af þeim atriðum var að læra frönsku enda finnst mér að það hljóti að vera nauðsynlegt að kunna eitt latneskt mál.  Nú hlutirnir æxlast oft heldur öðruvísi en ætlað er og ekki ætlar að gefast mikill tími til tómstunda þetta haustið.  Með gríðarlegri skipulagningu og harðfylgi hef ég getað troðið inn tveimur gangnahelgum og komist í göngur.  Til þess að gera þó eitthvað hef ég hins vegar ákveðið að fara í smá málfarsátak.  Það get ég gert með tiltölulega litlum tilkostnaði og án þess að nota í það mikinn tíma.  Ég hef nefnilega staðið sjálfa mig að því að segja hluti sem ég er ekki alveg viss um að séu réttir og er hreint út sagt búin að steingleyma langflestum þeim málfræðireglum sem Emilía og Ólöf íslenskukennarar tróðu í hausinn á mér fyrir margt löngu síðan.

Ég hef því ákveðið að snúa við blaðinu og gerast málfarsfasisti enda veit ég ekkert meira óþolandi en þegar ég sé setningar eins og "það var æðsl" , "það var bra brjál kúl mar" og þar fram eftir götunum svo ég tali nú ekki um hið sérstæða SMS málfar sem ég botna hvorki upp né niður í.  Ég bara skil ekki sum SMS sem mér berast. 

Sjálfsagt má færa rök fyrir því að þetta séu ellimerki en ég vil halda því fram að hér sé um þroskamerki að ræða.  Stærsta átakið verðu hins vegar að hætta að sletta á fagmáli, ég á sko eftir að svitna yfir því

Kveðja

GEH


einmitt það já

ohhhh ég er í Lbhí og en myndi gjarnan vilja vera í Svartaskóla eða kannski Latínuskólanum, þar voru víst aðal-karlarnir á sínum tíma og ég tel mig vera til aðal-karlana.  Merkilegt að engin skyldi velja þá skóla.

Kveðja

GEH


mbl.is Flestir vilja vera í Hogwarts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

smá fréttaskot

Ég hef ekki orku í að skrifa eitthvað gáfulegt hér en set nokkrar línur til þess eins að láta vita af mér.  Mikið búið að ganga á síðastliðna viku.  Langir dagar í Reykjavík og lítið annað gert en að vinna og sofa.  Það fer hins vegar að taka enda, þar sem kennsla í búvísindadeild er að taka enda sem og fyrsta uppgjör skýrsluhalds í nautgriparæktinni.   September hefur flogið hjá og á morgun verður flugið tekið norður í Eyjafjörðin í göngur og fjárstúss.  Kem með síðustu vél á föstudagskvöld og fer með þeirri fyrstu á mánudagsmorgun.   Ákvað að nota flugþjónustu í þetta sinn og spara mér nokkra klukkutíma í akstur. 

yfir og út í bili

GEH


Sunnudagsmorgun í Borgarfirðinum

Ég uppgötvaði í morgun að ég hefi eytt síðustu viku mestmegnis innandyra, svona fyrir utan þessar mínútur sem fara í að hlaupa á milli húsa og bíls og þar sem ég er nú ennþá tiltölulega spræk þá tekur sú ferð ekki svo ýkja langan tíma.  Nú þar sem ennþá var tiltölulega snemma morguns og klukkan ekki orðin átta, var ennþá sæmilega gott verður í Borgarfirðinum.  Það er nefnilega þannig að hér er helst að ná sæmilegu veðri snemma á morgnana eða seint á kvöldin.  Ég dreif mig því út í hjólatúr.  Það kom einnig á daginn að ég mátti ekki mikið seinni vera því nú er hreinlega farið að snjóa (þó ekki festi nú neinn snjó eins og er). 

Nú liggur hins vegar fyrir að byrja á verkefnum dagsins sem eru fjölmörg að vanda enda stefnt á göngur næstu helgi og því þarf að ljúka ýmsum verkum fyrir þann tíma.  Spurning um að hita sér kakó til að ná úr sér hrollinum því það var nú nokkuð svalt í morgun. 

Eigið nú góðan sunnudag

Yfir og út af Eyrinni

GEH


Úr Borgarfirði

Ég sá í einhverjum fréttamiðli að Borgarfjörður væri næstveðursælasta sveit landsins.  Því á ég nú bágt með að trúa.  Þetta ku vera samkvæmt veðurathugunum heimamanna.  Þeir eru augljóslega ekki góðu vanir.  Annað eins stöðugt skítveður finnst líklega varla á nokkru öðru byggðu bóli. 

Yfir og út af eyrinni

GEH


Haustverkin.....

...... eru hafin.  Er nýkomin aftur á eyrina eftir fyrstu göngur haustsins sem gengnar voru í svo svívirðilegri hitasvækju að lýsið bráðnaði af manni í lítratali.  Nú verður maður að láta hendur standa fram úr ermum svo hægt verði að gefa sér tíma til að bregða sér í aðrar göngur eftir hálfan mánuð.

Picture 569
Picture 256
Hér fyrir ofan sést Hringur (á efri mynd) uppi á heiði með syðri hlíð Bæjardalsins í baksýn og Trína(á neðri mynd) aðal smalahundur og ómissandi í alla staði.  Sem og aðrir stóðu þau í ströngu þessa helgi
Kveðja af eyrinni
GEH

Á alþjóðlegum nótum

Ég rak rétt í þessu augun í sjónvarpið þar sem konukind ein stritaði við að útbúa ítalska rétti í gríð og erg.  Einhverra hluta vegna datt ég í eitthvert nostalgíukast og fór að rifja upp minningar frá þeim skemmtilega tíma er maður lifði og hrærðist í hinu mjög svo alþjóðlega samfélagi stúdenta við KVL.  Í framhaldi af því rifjaðist upp brandari sem Paolo, hin ítalski samleigjandi minn á þessum tíma, sagði mér.  Hvernig hann fór að því að koma brandaranum frá sér er mér, enn þann dag í dag, hulin ráðgáta því hin enska tunga var honum ekkert sérstaklega töm, blessuðum karlinum.  Innihald brandarans komst þó til skila og það sem meira er ég hef munað hann alla tíð síðan, sem verður að teljast einstakt.  Ég ætla því að deila þessum, mjög svo alþjóðlega, brandara hér með ykkur en hann var eitthvað á þessa leið:

Himnaríki er....
..... þar sem vélvirkjarnir eru þýskir,
lögreglan er bresk,
elskhugarnir eru franskir,
kokkarnir eru ítalskir og
allt er skipulagt af Svisslendingum.

 Helvíti er.....
......þar sem vélvirkjarnir eru franskir,
lögreglan er þýsk,
elskhugarnir eru svissneskir,
kokkarnir eru breskir og
allt er skipulagt af Ítölum Smile

Yfir og út á sunnudagseftirmiðdegi

GEH


Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband