Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
31.3.2010 | 18:44
hugleiðingar í upphafi páska
Sjálfskipaðir fésbókarútlegð minni er hér með lokið, í bili að minnsta kosti. Ég hef þó bara farið einu sinni inn á fésið í dag, gagngert til að skoða myndirnar sem móðir mín setti inn af honum Blesa mínum en eins og flestir af mínum nánustu vinum og kunningjum vita þá lenti hann Blesi minn litli í hræðilegum hremmingum síðastliðið haust og gerðist í kjölfarið einn albesti viðskiptavinur dýralækna á Eyjafjarðarsvæðinu. Hann Blesi minn er nú sem sagt risin úr öskunni eins og Fönix forðum (sem var nú reyndar einhvers konar fugl en ekki hestur) öflugri og myndarlegri en nokkru sinni fyrir. Eftir stendur (karlmannlegt) ör á hægri afturfæti en slíkt ku vera vel þekkt á öðrum frægum gæðingum á Íslandi. ( á myndunum hér má sjá hann Blesa minn hraustan og sprækan nú í lok mars og hið karlmannlega ör)
Það var þó ekki meiningin að skrifa hér langan pistil um húsdýr en fyrst ég er byrjuð á annað borð þá get ég alveg eins haldið áfram enda ekki alveg tíðindalaust á þeim vígstöðvum. Það bar nefnilega til hér um daginn að hún Litla-Botna (Móa) mín lagðist niður og dó drottni sínum. Telja fróðir menn víst að það hafi verið langvarandi aðskilnaður við eiganda sinn sem fór með hana litla skinnið. Botna eldri (hér að neðan) virðist þó hafa gert ráð fyrir áföllum af þessu tagi seint á síðasta ári, þar sem fósturtalning leiddi í ljós að hún er kind eigi einsömul heldur gott betur og fari fram sem horfir þá mun hún bera þrem lömbum í vor. Þetta voru að sjálfsögðu hin ákjósanlegustu tíðindi fyrir eigandann (mig) enda geta ekki margir fjárbændur státað af þeirri frábæru frjósemi að eiga von á þremur lömbum á kind í vor. Þetta eru einnig ákjósanleg tíðindi fyrir Botnu eldri þar sem hún er ákaflega hlynt hverskonar sérmeðferðum og finnst sjálfasagður hlutur að henni séu færar lúkur af byggi, brauðbiti eða eitthvað annað gómsætt þegar menn koma í fjárhúsin og alveg bókað mál að væntanleg þrílembingavon mun síður en svo draga úr slíkum aukabitum.
Nú annar er allt meinhægt á öðrum vígstöðvum. Þeir Litli-Rauður og Stóri-Brúnn stunda æfingar af kappi. Reynar er nú svo þessa dagana að Litli-Rauður er mun kappsamari en Stóri-Brúnn þessa dagana og brokkar eins og engill (hvernig svo sem það er nú) í stóra og litla hringi, stekkur hindranir og bætir í yfirferðina á tölti með hverjum deginum. Litla-Jörp er eftir sem áður dyggur stuðningsmaður við tamningarnar og tekur öllum fíflagangi í Stóra-Brún með jafnaðargeði (eða því sem næst).
Það er nú eiginlega ekki hægt að blogga án þess að minnast á veðrið en það hefur verið einstaklega ömurlegt síðastliðna daga með tilheyrandi geðvonsku undirritaðrar. Hér brast á fyrir nokkrum dögum hið hefðbundna Borgfirska vetrarveður með norðaustanroki og brunagaddi svo varla er hundi út sigandi. Okkar ágæta veðurstöð, sem staðsett er í miðju Hvanneyrarstaðar, lýgur sem aldrei fyrr með veðurlýsingum sem hljóma upp á hámark tveggja stiga frost og 8 m/sek sem er, eins og áður sagði, HELVÍTIS LYGI!!! Í geðvonsku minni og einlægum ásetningi að láta veðrið ekki stjórna mér, stundaði ég því útreiðar úti í morgun og kom heim tveim tímum seinna frost og vindþurrkuð á við góðan skerpukjötsbita
Ég hef reyndar lengi velt fyrir mér staðsetningu veðurstöðvarinnar á Hvanneyri. Eftir miklar vangaveltur og geðvonsku yfir ónákvæmum veðurlýsingum og spám hef ég komist að þeirri niðurstöðu að í raun og veru sé staðsetning veðurstöðvarinnar ákaflega strategísk og raunverulegur tilgangur stöðvarinnar sé ekki að útvarpa sönnum veðurlýsingum heldur að viðhalda byggð á Eyrinni. Þannig er nefnilega mál með vöxtum að Hvanneyri er landfræðilega staðsett á þann hátt að sólskini fylgir norðanátt en öllum hlýrri vindáttum fylgir rigning. Hér er því aldrei almennilega hlýtt. Það er því lán í óláni að stór hluti íbúa Hvanneyrar verða lítið varir við kuldann. Menn keyra á hverjum degi í vinnuna, keyra börnin sín í leikskólann og keyra í kaffi til nágrannans. Og jú víst er veðrið fallegt út um bílgluggann, með miðstöðina í botni. Garðurinn og þar með útigrillið er í skjóli sunnan við hús sem er ákaflega heppilegt því útivist staðarbúa fellst mestmegnis í garðvinnu og grillveislum þar sem nágrannar geta rætt veðurblíðuna sunnan við hús yfir limgerðið og jú það er vissulega staðfest af veðurstöðinni góðu sem staðsett er í góðu skjóli í hjarta Hvanneyrarstaðar. Við hin sem stundum útivist sem krefst meira rýmis en gert er ráð fyrir í einum garði eða ætlumst til að geta farið út að hlaupa eða hjóla með reglulegu millibili getum gert annað af tvennu. Klætt okkur vel og bitið á jaxlinn eða flutt................ Ég hallast að því að ég þurfi að flytja
/GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2010 | 23:22
Skattskil
Ég er svo gömul að ég man glöggt þá tíma er ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og heldur ekki neitt sjónvarp megnið af sumartímanum. Það fannst manni, á þeim tíma, ekkert tiltökumál og því vil ég leyfa mér að stinga upp á sparnaðarleið fyrir RUV sem fellst í því að hafa sjónvarpslausa miðvikudaga. Það sem sést á skjánum a miðvikudagskvöldum getur hvort sem er ekki einu sinni með góðum vilja, kallast sjónvarpsefni. Undantekningin á þessu er að sjálfsögðu Bragi bóksali en honum mætti sem best koma fyrir annars staðar. Persónulega væri ég alveg til í að sjá helvítis danska trúðsfíflinu skipt út fyrir Braga og þá væri þeim málum borgið. Við þessa ráðstöfun myndi eflaust sparast umtalsverður peningur og jafnvel gæti RUV, splæst í eins og eina sæmilega bíómynd stöku sinnum.
En nóg af sjónvarpsdagskrá. Hver hefur svo sem tíma til að horfa á sjónvarp þessa dagana því nú er jú einmitt hin árlegi skattaskýrslutími. Í tilefni þess sá ég ekki aðra kosti í stöðunni en að sökkva mér í bókhaldið. Þeir fáu sem eru þess heiðurs aðnjótandi að fá að koma í heimsókn í slotið til mín hafa eflaust tekið eftir hinu háþróaða bókhaldskerfi sem ég nota. Það fellst aðallega í því að öllum reikningum, kvittunum, launaseðlum og öðru slíku er samviskusamlega troðið í þar til gerðan tágavasa sem staðsettur er við hliðina á eldavélinni. Staðsetningin er mjög "strategísk"því bæði er tágavasinn algerlega í "alfara leið" og því mjög hentugt að troða í vasann auk þess sem svo heppilega gæti viljað til, einhvern daginn, að það kviknaði í öllu helvítis draslinu sem myndi náttúrulega einfalda bókhaldið til muna.
Það verður nú að segjast eins og er að ég er mjög skilvirk þegar kemur að bókhaldi og eyði ekki tíma í óþarfa. Mér finnst til dæmis alger óþarfi að opna allan gluggapóstinn sem ég fæ inn um bréfalúguna enda koma allir reikningar inn á heimabankann auk þess sem sum umslög eru mjög fyrirsjáanleg og því óþarfi að eyða orku og tíma í þau.
Þó virðist ég þurfa að þjálfa örlítið spádómsgáfu mína varðandi innihald gluggaumslaga. Eins og áður hefur komið fram er skattaskýrslutími núna og því var ekki eftir neinu að bíða og snaraði ég mér í það að tæma tágavasann og sortera innihaldið. Af því tækifæri taldi ég rétt að grynnka aðeins á pappírnum og losa mig við eitthvað af þessum umslögum. Væri ég heppin mætti jafnvel henda einhverju af innihaldinu líka. Allt var þetta nú eftir bókinni fyrst um sinni. Upp úr óopnuðu umslögunum komu launaseðlar, húsaleigureikningar og reikningsyfirlit frá bankanum. Ekkert óvænt enda allt vel kunnugar staðreyndir úr heimabankanum. Þó kom að því að úr bunkanum kom óopnað umslag frá Kaupþingi (þetta er ekki misritun, umslagið var frá Kaupþingi en ekki Aríonbanka). Upp úr umslaginu dró ég þykkt bréf sem hófst eitthvað á þessa leið.
Kæri viðskiptavinur. Meðfylgjandi þessu bréfi er nýtt debetkort............. ÚPS!!!
Einhvern tíman á síðastliðnu ári (fyrir stofnun Aríonbanka) rann einmitt gamla debetkortið mitt út. Að sjálfsögðu uppgötvaði ég það ekki fyrr en ég ætlaði að borga með því einhversstaðar og varð því eðlilega fremur örg yfir þeirri dæmalausu yfirsjón bankamannanna að hafa ekki hundskast til að senda mér nýtt debetkort. Stímaði ég því umsvifalaust í útibúið í Borgarnesi alsendis ekki sátt við þjónustu bankans. Bankamenn brugðust umsvifalaust við og útveguðu nýtt kort enda þeir jafn grunlausir og ég um að nýja kortið lægi kirfilega pakkað ofan í bókhaldskerfinu mínu heima. Nú á ég hins vegar tvö debetkort og verður því næsta verkefni að athuga hvort þau séu bæði virk.
Ekki voru öll umslög uppurin þegar debetkortið fannst og hélt ég því ótrauð í gegnum bunkann. Nokkrum bréfum seinna dúkkað upp annað bankaumslag en að þessu sinni merkt Aríonbanka. Upp úr því dró ég bréf sem hófst eitthvað á þessa leið.
Kæri viðskiptavinur. Meðfylgjandi þessu bréfi er ávísun vegna endurgreiðslu e-korts............ ÚPS!!!!
Mögulega þarf ég að endurskoða eitthvað bókhaldskerfi mitt eða einfaldlega standa mig betur í að opna póstinn minn. Ég vil þó freistast til að halda því fram að hluti af sökinni liggi hjá hinum óútreiknanlegu íslensku bönkum enda hafa þeir skipt um nafn og kennitölu álíka oft eins og við hin skiptum um sokka og ekki óeðlilegt að menn ruglist örlítið í ríminu við allar þessar sviptingar. Að þessu tilefni vil ég þá gjarnan þakka Landbúnaðarháskólanum, Bændasamtökunum og RARIK fyrir að viðhalda ákveðnum stöðugleika í póstsendingum sínum enda feilaði ég ekki á einu einasta bréfi er barst frá þessum aðilum
yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2010 | 11:05
Það jafnast ekkert á við djass..... eða hvað??
Er farin að upplifa mig sem heimavinnandi húsmóður, eða a.m.k. heimavinnandi. Gamla Gufan hljómar í bakgrunninum er ég sit við tölvuna með kaffi í bolla og á eldavélinni mallar slátur sem á að étast í hádeginu.
Reyndar hefur Rás 1 verið aðeins of djassmiðuð síðastliðna daga. Kveður svo rammt að djassinum að ég hef neyðst til að loka fyrir útvarpið á stundum. Ég nefnilega hreinlega höndla ekki djass. Einasta eina tónlistin sem ég bara get ekki að hlustað á nema í mjög takmörkuðum mæli. Það er bara einhver glamrandi í þessu sem fer alveg í mínar fínustu taugar. Má ég þá heldur biðja um meira af gömlu góðu dægurlögunum sem hljómuðu hér í morgun en þá mátti heyra hljóma perlur s.s. "Ég er komin heim" með Óðni Valdimarssyni eða "Rökkurró" með Helenu Eyjólfs. Það er svolítið meira fyrir minn smekk.
Dagskráin stendur þó til bóta en nú fer bráðum að hefjast hin stórgóði þáttur "Samfélagið í nærmynd" og svo náttúrulega er alltaf ákveðin stemning að heyra dánarfregnirnar svona meðan maður er að melta hádegismatinn.
Mögulega er ég bara svona hryllilega gamaldags en það verður þá bara að hafa það. Kontrabassi, trommur, brass, píanó og rámur tenórsax, fellur ekki í kramið en þó má segja að það jafnist ekkert á við djass. A.m.k. hvað leiðindi varðar
nóg í bili.
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2010 | 22:57
Hestafréttir
Jæja. Þá er þessi dagur á enda runninn og þetta er, skal ég segja ykkur, búin að vera verulega langur dagur. Að því tilefni opnaði ég flösku af fyrstu lögun rabbabaravíns en því miður átti ég ekki bjór.
Meðal viðburða dagsins er að við Litli-Rauður höfum nú lagt okkar fyrstu töltkeppni að baki. Engin flugeldasýning af okkar hálfu en allt gekk þetta þó stóráfallalaust fyrir sig og líklega var engin glaðari en Litli-Rauður þegar hann fékk að fara aftur í stíuna sína að lokinni keppni. Litli-Rauður er nefnilega talsverður nautnaseggur og er lunkinn að verða sér úti um þjónustu. Sníkir köggla af gestum og gangandi og einhverra hluta vegna þá standast fáir Rauðsa og hann á því marga bestu vini sem gauka að honum köggul við tækifæri.
Vegna anna dagsins hafði ég ekki haft mikinn tíma til að undirbúa keppni s.s. að þrífa Rauðsa en hann hafði náð að maka sig duglega út í drullu við útivist gærdagsins, einnig hengu á honum nokkrir gamlir, en þaulsætnir, skítakleprar sem ekki hafði unnist á. Það kom mér því verulega á óvart að þegar ég mætti 17:50 upp í hesthús (keppni átti að hefjast klukkan 18:00) beið mín tandurhreinn og nýkembdur Litli-Rauður í stíunni sinni. Rannsókn málsins leiddi í ljós að Jón litli hafði tekið Rauðsa í yfirhalningu og kunni frænka hans honum bestu þakkir fyrir tiltækið enda sást hvorki blettur né hrukka á Rauð þegar við geystumst inn á völlinn.
Eins og áður sagði var þetta enginn flugeldasýning að okkar hálfu. Líklegt má teljast að kennari vor hefði viljað sjá meiri keyrslu og án efa hefði kennari vor haft rétt fyrir sér. Af öðrum hrossum er það helst að frétt að Litla-Jörp situr svolítið á hakanum þegar ekki er tími fyrir önnur hross. Hún hefur hins vegar tekið miklum framförum hvað varðar stressstuðul í reiðhöllinni og stendur sig að sjálfsögðu eins og hetja sem aðstoðarhross við tamningar á Stóra-Brún
Stóri-Brúnn er að verða svolítið uppáhald. Sýndi hetjulega yfirvegun í morgun innan um þeysireið Reynis og sonar og lærið brokk-stökk gangskipti samkvæmt skipunni "hobb" einn tveir og bingó. Það eina sem raskaði ró hans var þegar Helgi geystist um með skúringamoppuna um áhorfendapallana, en hverjum hefði svo sem ekki brugðið svolítið við það.
Þá held ég að við látum þessum hestafréttum lokið í bili.
GEH
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2010 | 22:31
Sjálfspróf
Það er gaman að sjá að einhverjir sakna mín af fésbókinni. Ég get hughreyst ykkur með því að ég mun snúa aftur von bráðar. Það er bara einhvernvegin þannig að stundum fæ þá flugu í höfuðið að ég þurfi að sanna fyrir sjálfri mér að það eina sem ég þurfi að gera sé að ákveða að gera eitthvað og framkvæma það svo. Þetta fésbókarbindindi er einmitt þannig. Einu sinni prjónaði ég heila flík á nokkrum dögum bara til að sanna að ég gæti vel prjónað ef ég bara vildi. Flíkin var vel nothæf og á enn sinn sess í fataskápnum. Ég hef hins vegar ekki prjónað neitt vitrænt síðan þá, enda búin að sýna það og sanna að ef ég þarf þá get ég.
Annars er allt fremur meinhægt. Lítið unnist í verkefni það sem af er þessarar viku og dagarnir farið í undirbúning fyrir fund morgundagsins. Af því tilefni sit ég hér með nokkrar spennandi fræðigreinar fyrir framan mig. Sjónvarpið er meðvirkt í þessu og sér til þess að ekkert freisti mín á skjánum en þar rúllar nú svarthvít teiknimynd um unga vísindakonu sem rænt er í París einhvern tíman í framtíðinni. Mögulega endar þetta með því að ég láti verða af áformum mínum um að setja sjónvarpið í geymsluna. Ég hef nefnilega oft íhugað að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti vel lifað sjónvarpslaus. Mögulega læt ég sjónvarpið flakka þegar ég logga mig aftur inn á fésið
Yfir og út í bili
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2010 | 22:18
Nú verða sagðar fréttir......
..... Í fréttum er þetta helst. Tiger Woods undirbýr "comback" í golfið. Spennandi! Skokkari í Suður-Karólínu varð fyrir flugvél....... Kate Winslet er að skilja við manninn sinn (sem ég hef aldrei heyrt á minnst)...... Menningarmálaráðherra frakka sæmdi leikkonu eina orðu og tókst það ekki betur til en svo að hann stakk hana í brjóstið.....OOOOGGGG!!!!!!! Páll Óskar á afmæli í dag.
Já góðir hálsar! Það er í dag sem hlutirnir gerast. Enda datt Chelsea út úr meistaradeildinni í kvöld og því er við hæfi að hrópa ferfalt húrra fyrir því!
Þar til síðar
GEH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2010 | 00:25
Vor
Á einu augabragði er komin 15. mars og það er ekki laust við að maður sé farin að trúa því að vorið sé handan við hornið. A.m.k. þá brast hér á með talsverðir blíðu um helgina og var hún að sjálfsögðu notuð til útreiða og annarskonar útivistar. Gleði mín yfir komu vorsins er þó að venju nokkuð læviblandin enda ekki tóm hamingja sem fylgir hækkandi sól og hlýnandi veðurfari. Háreystin í krakkaskrílnum sem göslaðist úti í vorinu og fréttir um nývaknaðar geitungadrottningar sem gerðu sig heimakomnar í rúmum grunlausra húsmæðra á höfuðborgarsvæðinu minntu mann óneytanlega á það að með vorinu vakna skordýr til lífsins og útivistartími barna lengist. Hvort tveggja fremur ógnvekjandi í augum einstaklings sem haldin er krónískri skordýra og barnafælni.
Annars ber hér, að venju, heldur fátt til tíðinda. Þó er vert að greina frá því að farið var í menningarferð til höfuðborgarinnar með það að markmiði að heimsækja kvikmyndahús. Einhvers staðar í höfðinu lifir óljós minning um þá daga þegar maður skrapp í bíó, rétt si svona, þegar manni datt í hug en það var nú í þá gömlu góðu daga þegar maður bjó innan við 50 km frá næsta kvikmyndahúsi.
Slegnar voru nokkrar flugur í einu höggi og farið út að borða í leiðinni svo þetta varð sannkölluð menningarferð. Avatar reyndist einnig vera ferðarinnar virði a.m.k. fyrir Sci-Fi nörda eins og mig þó svo að ég hafi nú ekki orðið svo djúpt snortin af plánetunni Pandoru og íbúum hennar að ég sjái ástæðu til að leggjast í þunglyndi yfir gráum hversdagsleikanum eða mála mig bláa og endursviðsetja ævintýrið, líkt og ku vera gert úti í hinum stóra heimi.
Í þessum orðum skrifuðum er klukkan hins vegar farin að ganga eitt og því tímabært að skríða í bælið
Segi því yfir og út að sinni
GEH
P.S. Í ljósi þrálátra ásakana um brot á fésbókarbindindi tel ég rétt að lýsa yfir sakleysi mínu á þeim verknaði. Þetta er allt saman haugalygi hjá Hákoni bróður J
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2010 | 22:35
Dagur tvö
Kæri Jóli !
Eða var það ekki svoleiðis? Alla veganna er dagur tvö í fésbókarhléi á enda runnin og ég hefi ekki þjáðst af teljandi fráhvarfseinkennum. Ég er því sennilega ekki haldin faceorexíu sem ku vera alvarlegur sjúkdómur af sama kaliberi og tanorexía, en tanorexía virðist vera nýjasti tískusjúkdómurinn sem tröllríður samfélaginu um þessar mundir.
Af því tilefni er því best að taka fram að ég er ekki heldur haldin Tanorexíu enda þýðir lítið fyrir mig að leggjast í ljósaböð þar sem ég hefi fengið, í vöggugjöf, húð fyrir rauðhærða og get varla hugsað um sólböð án þess að skaðbrenna. Sólarvörn er standard útbúnaður fyrir mig, og í þeim orðum skrifuðum, hef ég komið auga á einu björtu hliðina við að búa á Hvanneyri. Sem sagt gífurlegur sparnaður í kaupum á sólarvörn.
En nóg um það. Þessi dagur leið eins og aðrir dagar. Hápunktur dagsins var tvímælalaust koma póstsins, en pósturinn kemur ávalt hér milli tíu og hálf ellefu. Í dag kom bæklingur frá Húsasmiðjunni og auglýsing um Bingó! Það vantar sko ekki stuðið í Borgarfjörðinn, skal ég segja ykkur. Ó nei ó nei!! Þessi bingóauglýsing gerði mig svo spennta að ég átti í erfiðleikum með að einbeita mér í smá stund á eftir, en ég er nú eldri en tvævetur og beitti sjálfa mig stífum aga þannig að ég náði að klára útreikningana á virkri stofnstærð sem ég talaði um í gær. Var ég því ákaflega glöð með afrakstur dagsins enda fátt sem kemur manni í betra skap en að fletta upp í Quantitative genetics eftir Falkoner og Mackay.
Reyndar afrekaði ég líka sundferð með Þorbjörgu og svo fengu hrossin auðvitað sinn skerf en það gekk allt stórtíðindalaust og óþarfi að ræða það nánar að svo stöddu. Í ljósi þessarar æsispennandi færslu minnar sé ég að líklega verð ég að fara að bregða mér í höfuðstaðinn og verða veðurteppt hjá Kollu. Kannski er bingó í Háaleitinu!
Góða nótt
Gunnfríður (sem er örþreytt eftir spennuþrungin dag)
P.S. Af gefnu tilefni er vert að taka fram að ég get póstað færslurnar beint á fésið án þess að raunverulega fara á fésið svo ég þarf ekki einu sinni að svindla á bindindinu
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.3.2010 | 22:43
Ó já!!
Jæja góðir hálsar! Í tilefni af tímabundnu fésbókarfríi mínu hef ég ákveðið að dusta rykið af bloggsíðunni minni. Blogg er líka svo miklu menningarlegra og innihaldsríkara, ekki satt? Raunveruleg ástæða er líklega sú að ég er fullkomlega ófær um að viðhalda langtímaáhuga á einhverjum einstökum hlut, manneskju eða áhugamáli (ef frá er talin hestamennska) og því er, í mínu heimi, ætíð góð hugmynd að taka sér frí, frá hinu og þessu, annað slagið.
Það væri þó algerlega ábyrgðarlaust af minni hálfu að skilja netheiminn eftir fullkomlega í lausu lofti og algerlega án minna greinargóðu lýsinga af daglegu lífi á Hvanneyri því maður hefur jú skyldum að gegna gagnvart umheiminum. Ekki satt?
Maður getur líka sagt svo miklu miklu meira með ítarlegum bloggfærslum. Hugsið ykkur bara hvað ég á miklu betri möguleika á að úthúða Hvanneyrarstað og öllu sem honum tilheyrir á dramatískan hátt með ítarlegum lýsingum. Ég er bara strax farin að hlakka til .
Annars er ég í "sumarfríi" núna. Það sumarfrí lýsir sér þannig að ég sit heima og leitast við að þrælast áfram í doktorsverkefninu mínu (sem virðist á góðri leið með að verða eilífðarverkefni) milli þess sem ég sinni hrossum. Talsverður tími fer einnig í að reyna að leiða hjá mér vinnutengd (þá meina ég BÍ-vinnutengt efni) sem berst til mín á formi tölvupósts. Hingað til hef ég sennilega náð einum degi af sjö þar sem ég get með góðri samvisku sagt að ég hafi ekki unni neitt tengt Bændasamtökum Íslands. Það getur víst ekki einu sinni með góðum vilja, talist góður árangur og því hlít ég að þurfa að endurskoða fyrri yfirlýsingar um staðfestu, ákveðni og einbeittan vilja en hingað til hef ég víst talið að ég búi, að minnsta kosti yfir dágóðum skammti af áðurtöldum kostum (já ég segi kostum) en mögulega verð ég að viðurkenna ofmat, að minnsta kosti að einhverju leiti.
Annars hef ég það svo sem fínt. Komin með góðan play-lista í tölvuna til að stytta mér stundir og mótivera mig við verkefnavinnuna. Akkúrat núna hljómar klassíkerinn "Fade to Black" til að inspirera mig við skrif þessa ódauðlega meistaraverks er þið nú berjið augum enda er ég í frábærum húmor, Arsenal nýbúið að vinna Porto 5-0. Ég endurtek FIMM - NÚLL!!!!!! og mín bíða einnig geysilega spennandi útreikningar á virkri stofnstærð. Hver hefur ekki gaman að því! Áður en ég helli mér í það mál verð ég hins vegar að brjóta fésbókarbindindið í smá stund til að pósta þessu bloggi enda ekkert gaman að skrifa eitthvað nema maður sé viss um að einhver lesi það sem maður skrifar.
Því segi ég yfir og út í bili
Gunnfríður, doktorsnemi með meiru þessa dagana
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Hin mjög svo ört vaxandi barnahópur
Fjölskylda sem stækkar með veldisvexti
Aðrir ágætir
Nokkrar síður vina og kunningja - Aðallega Hvanneyringa
- Sigga Dóra
- Vigdís Garðars
- Kolla-n
- Sveitalubbinn úr Húnavatnssýslunni
- Larfurinn hann Óðinn
- Jón Gunnar
Fjölskyldubloggarar
Bloggsíður hina ýmsustu fjölskyldumeðlima
Bloggvinir
Eldri færslur
- Apríl 2011
- September 2010
- Ágúst 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Júlí 2009
- Mars 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar