Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Einmitt það já....

Og þá kom álagningarskráin.  Látum nú vera að hún sé látin liggja frami fyrir fólk að skoða, ef það á annað borð er mikið fyrir að hnýsast um hagi náungans.  En hver er hæstur á hinum og þessum stöðum tel ég varla stórfréttir.  Það hlýtur eitthvað ívið merkilegra og áhugaverðara að vera að gerast einhverstaðar.  Reyndar verður nú að viðurkennast að ég er haldin næstum sjúklegu áhugaleysi um annað fólk, þekki ekki til neinna fræga leikara eða kaupjöfra (þeir ku jú  vera "selebrití" Íslands).  Kannast reyndar við nokkra tónlistarmenn enda hef ég gaman af að hlusta á tónlist. 

Ég hef því ekki nokkurn einasta vott af áhuga á því að vita hver greiðir hvað í opinber gjöld.  Tel það vera meira fréttaefni í sjálfu sér, og mun áhugaverðari staðreynd, að fólk skuli standa í biðröðum til að fá að glugga í skrána.  Hvaða kikk skyldi maður nú fá út úr því???


mbl.is Hreiðar Már Sigurðsson gjaldahæstur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk takk

Bestu þakkir fyrir afmæliskveðjurnar ágætu vinir.  Afmælisdagurinn var alveg ágætur í alla staði og punkturinn yfir I-ið var heljarinnar reiðtúr með Hákoni og Herði í gærkveldi í frábæru veðri.  Það er kannski best að upplýsa það að gamla merin sem vitnað er til í fyrri færslu er alls ekki Litfríð.  En vissulega var það lógískt gisk hjá þér Gústav.  Þetta var hún Ólga litla (sem er nú reyndar ekki neitt sérstaklega lítil).  Við höfðum reyndar náð einhverskonar sáttum í gærkveldi a.m.k hélt hún á mér niður á bakka án þess að gera stórar gloríur.

Ég ætla loksins að skella hérna inn nokkrum myndum sem teknar voru í fjallgöngunni sem við, Hákon og Jón "litli" fórum í hérna um daginn

þar til síðar

GEH


Í upphafi vinnuviku

Jæja mánudagur enn og aftur enda koma þeir víst reglulega eða u.þ.b sjöunda hvern dag er mér sagt.  Ég kann reyndar ágætlega við mánudaga, þeir marka upphafið að nýrri vinnuviku og mér finnst nú alltaf voðalega gaman að byrja á einhverju nýju.  Síðastliðin helgi reyndist vera hin ágætasta í alla staði.  Talsvert um útreiðar, sérstaklega í gær enda aldeilis frábært veður og það fór því svo að öllu hross á járnum voru hreyfð og líklegast er nokkuð langt síðan það gerðist síðast.  Allt gekk þetta nú stóráfallalaust þrátt fyrir að gamlar merar tæku upp á að ganga í barndóm og allir komu heilir heim, nema ef vera skyldi að sjálfsálit gömlu merarinnar hefði beðið einhverja hnekki.

Set hérna að lokum stjörnuspána mína úr mogganum í dag, eins og venjulega þá "meikar þetta engan sens" hjá þeim blessuðum nema þið skiljið þetta betur en ég

Ljón: Hentu þér út í fjörið þótt það liggi kannski ekki endilega lífið á. Það góða við þig er að þú bíður ekki alltaf fram á seinustu stundu með að framkvæma hlutina.

Gleðilegt upphaf vinnuviku

GEH


Brostu :-)

Það er líklega best að bregðast við athugasemdum við síðustu færslu með smá brosbloggi  Reyndar hef ég nú jafnan talið mig vera fremur bjartsýna að eðlisfari þó svo að stöku sinnum hlaupi í mig einhver smá skætingur Blush.  Það rýkur jafnan fljótt úr mér aftur og sjaldan fylgir mikil alvara þeim málum.

En svona fyrst hún amma mín talar um að brosa, þá las ég einhversstaðar það þjóðráð að ef þannig kynni að hátta að menn væru eitthvað illa fyrir kallaðir á einhverjum tímapunkti þá væri óbrigðult ráð að brosa Smile út að eyrum í nokkrar mínútur (eða eins lengi og til þarf).  Þetta yrði þess valdandi að lundin léttist og ég er bara ekki frá því að þetta virki barasta.

Annars liggur nú fremur vel á mér þessa dagana enda engin ástæða til annars þó svo að það rigni (sú rigning var reyndar orðin löngu tímabær).  Reyndar hef ég ekkert við rigningu að athuga, rigning getur verið hið þægilegasta veður.  Rok hins vegar blæs stundum í mig einhverjum skætingi.

Yfir og út í bili

GEH


Þetta er á Veðurstofu Íslands......

Ég er stein hætt að hafa nokkra trú á Veðurstofu Íslands.  Það er nefnilega míghellirigningardemba úti núna og alls ekki búið að spá vætu.  Ég held að þetta sé vegna þess að allir gömlu traustvekjandi veðurfræðingarnir eru hættir.  A.m.k eru þeir hættir að láta sjá sig í sjónvarpinu.  Í stað þeirra komnir einhverjir strákpjakkar sem augljóslega hafa enga stjórn á veðurguðunum. 

Heimur versnandi fer Woundering

Yfir og út

Gunnfríður hin gamaldags


Að punktera

Æi greyin mín hættið nú að svæla svona endalaust alstaðar.  Ég skal vera fyrst manna til þess að viðurkenna það að ég er haldin gríðarlegum fordómum gagnvart reykingarmönnum.  Alveg síðasta sort að mínu mati og af þeim stafa tóm vandræði og sóðaskapur.   Tillitsleysi og sjálfseyðilegging eru einnig orð sem koma upp í hugan.  Ekki dettur mér þó i hug að banna fólki að reykja, það á að hafa vit á því sjálft.  Haldið þessu annars bara fyrir ykkur og í guðsbænum hættið að henda þessum helv#$#$ stubbum út um allar koppagrundir. 

Sem minnir mig á annað, svona fyrst ég er farin að nöldra á annað borð.  Hér um slóðir virðist vera mikil stemning fyrir því að brjóta flöskur hvar sem er og hvenær sem er, bæði innanbæjar og utan.  Ég er eiginlega undrandi á því að ekki skuli löngu vera punkterað hjá mér bæði á hjóli og bíl.  Nú verð ég eiginlega að enda þennan smápistil hjá mér á því að segja "ja þessi ungdómur nú til dags" Cool

Hvernig stendur annars á því að Púkinn kannast ekki við orðið "punkterað" sem er mynd af sögninni "að punktera".  Einkennilegt! 


mbl.is Eldur á klettasyllu í Hestagjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Save me from Saving Iceland

Ég sá rétt í þessu auglýsingu sem tilkynnti mér að framtíð mín væri á Selfossi.  Ekki björt framtíðarsýn þar þykir mér.  Ég örvænti þó ekki enda sannfærð um að að ég ráði sjálf minni framtíð sem og flestu öðru í mínu lífi, ég veit ekki hvaða mannlegi máttur myndi áorka það að draga mig á Selfoss.  Þó á maður aldrei að segja aldrei um nokkurn skapaðan hlut.  Sjálfsagt er ágætt að búa á Selfossi.  Ég var þar eitt sinn stödd á samkundu þar sem einhver mektarmaður dásamaði þar allt í bak og fyrir, sérstaklega útsýnið!!! - Hvaða útsýni skyldi það nú vera spurði ég sjálfa mig.  Þar er reyndar gott útsýni upp í himinn og ef ekki rignir þá sjást malarnámurnar sem kallast víst Ingólfsfjall í daglegu tali.  Líklega er best að hætta núna þessu tali um Selfoss, ef svo ólíklega skyldi vilja til að framtíð mín væri þar. Hætta áður en ég hef með öllu fyrirgert rétti mínum til að gerast Selfysskur (dregið af Selfyssingur) ríkisborgari.  Maður veit jú aldrei.

Það er annars margt sem maður rekst á á veraldarvefnum.  Saving Iceland hefur verið mikið í fréttunum undanfarið.  Einkennilegt fyrirbæri það, ekki sérstaklega björgulegt ef svo má segja.  Alls óljóst hverjir eru að bjarga hverju frá hverjum.  Mér sýnist að hér sé það ekki "Iceland" sem þurfi allra mest á "saving" að halda.  Ég afþakka hér með pent allra þeirra hjálp í framtíðinni hugsa að ég geti betur bjargað mér sjálf.    


í morgunsárið

Ohhh hvað ég var eitthvað andlaus í morgun.  Eiginlega bara hálf úldin og til að bæta gráu ofan á svart þá tókst einhverjum að klúðra kaffilöguninni hér í morgun.  Skil reyndar ekki hvernig það er hægt þegar það eina sem þú þarft að gera er að opna poka með fyrirfram ákveðnu magni af kaffi og hella vatni á vélina úr könnu sem tekur nákvæmlega það magn af vatni sem til þarf.  Huxa að ég fái mér samt annan bolla svona til að ná réttu hressileikastigi svona í morgunsárið.  Kaffi og bjór eru tvímælalaust með heimsins bestu uppfinningum

 


Snati og Óli

Lúkas og eigandi hans eru án efa að verða eitt best þekkta hundur-eigandi dúó okkar tíma.  Slá jafnvel þeim Snata og Óla við.  Þó veit ég ekki til þess að um Lúkas hafi verið samin ódauðleg dægurvísa en á hinn bóginn þá voru líklega engar kertafleytingar fyrir hann Snata.  Það kemur a.m.k ekki fram í kvæðinu.  Þar kemur heldur ekki fram að Snati hafi verið orðin svo afhuga honum Óla að nauðsynlegt væri að handsama hann í felligildru.  Snati hefur því að öllum líkindum verið mun gáfaðri en hundómyndin hann Lúkas, enda íslenskur fjárhundur samkvæmt öllum heimildum. 

Yfir og út í bili

GEH


mbl.is Lúkas kominn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótaóeirð

Ég er með fiðring í tánum, bókstaflega, enda sólin farin að skína og það styttist í fjölskyldugrillið margumtalaða sem brestur á í kvöld.  Reyndar held ég nú að þessi fiðringur í tánum stafi ekki einvörðungu af tilhlökkun til grillkvölda og annars sem framundan er.  Heldur þessi einkennilega tilfinning um að nú sé eitthvað að fara að gerst.  Gæti verið tilkomið vegna þess að nú fer að styttast í að ég ljúki fyrstu greininni minni, eða það að næstu helgi bresta á langþráðir endurfundir hóps sem hefur ekki komið saman í hátt í 10 ár.  Nú eða svo gæti það verið eitthvað allt allt annað sem ég hef ekki hugmynd um.  Vona samt að það sé ekki þessi fótaóeirð sem þeir hjá ÍE eru að rannskaka.  Alltént þá er eitthvað að fara að gerast.  Ég finn það á mér.  Vona að það sé eitthvað skemmtilegt Smile

Góða helgi

GEH


Næsta síða »

Höfundur

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Flökkukind með meiru

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • kopar stekkur.gif
  • ...p1010033
  • Botna
  • ...p1010028
  • Blesi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband